Vitum við og skiljum hvað er í gangi?
2.7.2010 | 06:55
Rétt eftir Hrun skildu fáir hvað var í gangi og ríkjandi ríkisstjórn kennt um ófarir heimila. Komið hefur í ljós að sú ríkisstjórn var aðeins hluti af vandanum, rétt eins og ríkjandi ríkisstjórn, strengjabrúður í höndum þeirra sem fara með raunveruleg völd í landinu, hinir ósýnilegu kröfuhafar og eigendur banka og fjármálastofnana með her lagatækna, viðskiptatækna og hagtækna að baki sér, sem hafa eina skoðun á hvernig hlutirnir eiga að vera í þjóðfélagi stjórnað af biluðu hagkerfi, annað en sannir lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem sjá dýpra og víðar.
Hverjir eru í ríkisstjórn er ekki vandinn, heldur sá að ríkiskerfið sem slíkt er sökkvandi skip, og í stað þess að stökkva frá borði er fólk að berjast um að skipa sér í allar stöður eins og allt sé í himnalagi, og reyna að smíða bátinn upp á nýtt meðan hann siglir í strand. Betra væri að setja bátinn í slipp, hvíla hann aðeins og gefa utanþingsstjórn næði til að smíða nýtt og betra skip. Á endanum er dýrara að laga sífellt það sem er orðið gamalt og úr sér gengið, heldur en að byggja eitthvað nýtt sem er lagað að raunverulegum aðstæðum. Þetta virðast stjórnmálamenn við völd ekki sjá. Þeir horfa ekki á skipið, heldur bara út á sjóndeildarhringinn, hvert skal stefna, og ræða um það því erfitt getur verið að ákveða sig, á meðan einhverjir aðstoðarmenn hamra á hripleknum kilinum.
Ég skynja breytingu í viðhorfum hjá fólki sem bloggar. Það er eins og að taka púls þjóðarinnar að hlusta á þessar raddir. Fyrir búsáhaldabyltingu var fólk gífurlega reitt og vildi refsa þeim sem treyst var til að vernda almenning og í aðgerðarleysi og spillingu höfðu valdið gífurlegu tjóni. Nú er sams konar staða að koma upp hjá þessari ríkisstjórn, reiðin er að springa út þegar fólk skynjar stjórnvöld taka stöðu með bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum þrátt fyrir dóm hæstaréttar fólkinu í vil. Stóri munurinn á búsáhaldabyltingunni og deginum í dag er að nú er fólk farið að skilja ástandið, og hefur öðlast þekkingu á aðstæðum.
Skýrslan hefur reynst grunnplagg í að byggja upp þessa þekkingu. Styrkir til stjórnmálamanna og viðbrögð stjórnvalda við dómi hæstaréttar hefur komið fólki í skilning um að það sem lýst er í Skýrslunni, er ennþá í gangi, núna.
Búsáhaldabyltingin leiddi til falls ríkisstjórnar og nýrra kosninga. Ég hef á tilfinningu að fólk skilji að vandinn er dýpri, og að lausnir felast ekki í endurkjöri, heldur hugsanlega í stærri hugmynd eins og þeirri sem Njörður P. Njarðvík hefur stungið upp á, að stofna til Lýðveldisins Íslands, útgáfu tvö. Til samanburðar eru Frakkar víst með lýðveldi númer sjö í gangi, enda sú þjóðarsál oftast meira en tilbúin í að laga það sem virkar ekki, annað en við Íslendingar, sem látum bjóða okkur hvað sem er.
Fyrir búsáhaldabyltingu var krafist nýs Íslands. Kom það fram? Svar mitt er neikvætt. Það eina sem gerðist er að hliðrað var sætum á Alþingi og fólk sem hafði setið þar áratugum saman komst til valda. Það er ekki breyting, það er hliðrun. Eitthvað annað og betra en stjórnmálaflokkar með atvinnustjórnmálamönnum þarf að koma til. Við þurfum að virkja þann dugnað, frumleika og kraft sem íslensk þjóð er þekkt fyrir um allan heim, og beita hann á okkur sjálf, í stað þess að horfa stöðugt út í heim og hneykslast á að aðrir séu þó í meiri vanda en við sjálf.
Við þurfum að líta í eigin barm. Taka stöðuna. Snúa bökum saman. Leggja niður kerfið sem er að sliga góða þjóð, og hugsa upp nýtt kerfi sem hefur hljómgrunn í góðum gildum og viðhorfum, áður en þessi gildi og viðhorf glatast í hvítri mykju hugsunarleysis.
![]() |
Í sjálfsvald sett |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)