Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?

Fyrir helgi skrifaði ég færslu sem fengið hafði 202 athugasemdir þegar þetta er skrifað. Ég held að aldrei hafi jafn mikil samskipti átt sér stað eftir eina grein á mínu bloggi. Reyndar skrifuðu sömu einstaklingar oft, og sumir þeirra voru svolítið óvarkárir í orðalagi; en ekki þannig að menn lágu eftir í sárum sínum. Þetta var eins og hressilegt rok, þar sem margt ágætt kom fram frá guðlausum, trúlausum, vantrúuðum, formlega trúuðum, óformlega trúuðum og einhverjum sem ekki eru flokkanlegir.

Ég hef ekki þá skoðun að þeir sem taka þátt í samræðum um trúmál eða trúleysi þurfi endilega að vera búnir að mynda sér fasta skoðun um málið, séu búnir að lesa Biblíuna, Kóraninn, Dawkins og alla hina sem eru í tísku þessa stundina. Við höfum misjafnlega mikla reynslu og áhuga, og tel ég skoðanir hverrar einustu manneskju vera mikilvæga og rangt að hunsa eina einustu lífsskoðun, þó við getum verið henni ósammála, enda hefur hver og einn myndað sér skoðun um heiminn og lifir eftir honum. Hvaða rétt hef ég til að dæma lífsskoðun annarrar manneskju sem ranga, ef ég get ekki sýnt fram á hvernig hún er skaðleg henni sjálfri, öðrum eða umhverfi hennar út frá siðfræðilegum forsendum sem báðir samþykkja? 

Mér finnst merkilegt hvernig fjöldi þeirra sem afneita allri trú voru sannfærðir um að ég væri trúaðir. Þeir virðast trúa á það í blindri heift að ég sé trúaður einstaklingur, og að það hafi neikvæð og heftandi áhrif á skoðanir mínar, mengi þær, geri þær óhreinar, geri þær heimskulegar. Í fyrsta lagi getur viðkomandi engan veginn vitað betur en ég sjálfur hverju ég trúi eða á hvað ég trúi eða hvort ég sé trúaður yfir höfuð, enda hef ég ekki verið að básúna mínum skoðunum neitt sérstaklega. Og í öðru lagi er afar vafasamt að telja hugsanir annarrar manneskjur ógildar einungis vegna þess að hún gengur út frá öðrum grundvallarforsendum.

Til gamans ákvað ég að fletta upp í bókum mínum og leita nánari skilgreininga á guðleysi - sem ég tel vera ólíkt trúleysi og vantrú. Þar sem ég lít á hugmyndir í bókum frekar sem eldspýtur fyrir hafsjó samræðna, þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja mikið bál.

Fyrsta tilvitnunin sem ég rakst á:

Smá heimspeki hallar huga manns nær guðleysi; en heimspekileg dýpt, færir hugi manna nær trúnni... (Francis Bacon 1561-1626)

Það er freistandi að gleypa hrátt við þessari speki án þess að velta henni aðeins fyrir sér. Hugsanlega hafði Bacon rangt fyrir sér, þó að hann sé meðal allra frægustu og virtustu heimspekinga sem rætt hafa málin í Evrópu, enda kannast þeir við sem hafa flakkað um samræðuheima heimspekinnar að hver einasti heimspekingur getur haft rangt fyrir sér, sama þó að þeir sjálfir og flestir aðrir trúi að þeir hafi rétt fyrir sér.

Ég hallast þó að því að Bacon hafi rétt fyrir sér þarna. 

Heimspekingar eru svolítið sérstakar verur. Þeir pæla í ólíklegustu hlutum, málefnum sem er erfitt að festa hendur á, en skipta samt gríðarlega miklu máli. Sumum finnst heimspekilegar samræður barnalegar, einfeldnislegar og flækja hlutina að óþörfu, en ástæða slíkrar skoðanir getur verið falin í viðmóti viðkomandi, að hann eða hún er ekki tilbúin til að hlusta. Oft hef ég heyrt þá skoðun að þessi eilífðarmál verði aldrei skilin til fullnustu og því er tilgangslaust að pæla í þeim. Ég sætti mig ekki við þetta álit, leita annars álits og tel einmitt að ef ómögulegt sé að vita hvort tilgangslaust sé að pæla í þessum hlutum þá sé tilefnið til að grafast fyrir um hlutina enn brýnna.

Ég kannast við það hjá sjálfum mér, að mér hefur oft þótt þessi heimur afar flókinn og margbreytilegur, og stöðugt komið auga á hugtök og hluti sem ég skil ekki að fullnustu, og reynt að átta mig á hvernig mikilvæg málefni tengjast, og reyni síðan að læra sífellt meira um það sem er tímans virði að rannsaka. Eftir miklar pælingar og hugurinn orðinn þreyttur á þessum pælingum, þá gerist svolítið undarlegt, í skamma stund, kannski ekki nema augnablik - sér maður hlutina í miklu stærra og skýrara samhengi en áður. Maður reynir að skrá þessar hugmyndir en heildarmyndin raknar upp jafnhratt og draumur sem reynt er að rifja upp snemma morguns yfir morgunkorninu.

Mig grunar að við séum öll á ferðalagi sem við köllum þroska. Hægt er að greina þroskastigin í einingar, þar sem síðasta og æðsta einingin er viska, en samhliða henni sem andstæða á þessu síðasta stígi er örvænting. Þeir sem aldrei hafa undirbúið sig undir dauðann og talið sig ódauðlega eru þeir sem líklegastir eru til að fyllast örvæntingu á síðustu metrunum. Þessi viska er mönnum nauðsynleg þegar þeir sjá fram á eigin dauða. Þeir sem höndla eigin dauða gera það með visku, þeir sem geta ekki höndlað slíkan veruleika falla í djúpa örvæntingu. Ég get ekki séð fyrir mér nein verri örlög. Þeir sem eru hvað uppteknastir af öllu heimsins prjáli eru einmitt í mestri hættu með að lenda í mestri örvæntingu, því auðævi eða fagnaður ná skammt þegar þeir mæta manninum með ljáinn.

Það er freistandi að alhæfa og segja fólk fyrst takast á við eigin dauða þegar það finnur hann nálgast, og ég get vel trúað að það sé satt um flest fólk sem nennir ekki eða gefur sér ekki tíma til að velta fyrir sér heimspekilegum viðfangsefnum, og vill frekar láta aðra gera það fyrir sig. En hvað gerist ef við veltum ábyrgð pælinga um líf og dauða yfir á annað fólk?

Jú, þá verða sjálfsagt til kenningar. Þessar kenningar verða samþykktar eða þeim hafnað. Séu þær samþykktar verða þær varðar. Hverjir verja þær? Sjálfsagt fólk sem menntar sig sérstaklega til þess, og fórnar lífi og limum til að vernda þær fyrir þá sem þurfa á þeim að halda, þá sem nenna ekki eða gefa sér ekki tíma. Þessar kenningar taka smám saman á sig traustara form, og loks gleymist upphaflegur tilgangur þeirra, og í stað þess að velta fyrir sér eigin dauða á opinskáan hátt, hefur safnast saman heilmikil viska í ritmáli, sem síðan þarf að dæla í allar þær kynslóðir sem ekki hafa tíma eða nennu til að hugsa hlutina frá upphafi til enda.

Að trúa á eitthvað slíkt hljómar í hugum einhverra sjálfsagt sem bull. En það er viska í þessu. Við getum ekki öll verið gagnrýnin og trúlaus. Við þurfum að treysta öðrum til að samfélagið virki. Og trúin virkar, eins hallærislega og það kann að hljóma, hún virkar fyrir þá sem þurfa á henni að halda, fyrir þá sem velta ekki fyrir sér hinu góða en kannast samt við það og lifa í samræmi við það.

Þannig að jú, ég skil af hverju þeir sem eru gagnrýnir gagnrýninnar vegna, gagnrýna trúarbrögð og þær stofnanir sem virðast hafa glatað upphaflegum tilgangi sínum, en ég þykist líka hafa hugmynd um af hverju betra er að hafa þessar stofnanir í gangi en að leyfa þeim að hrynja til grunna. Þegar samfélög hafa náð ákveðinni stærð, þurfa þau á þessum stofnunum að halda til að líma saman aðrar grunneiningar og viðhalda vinnufriðnum.

Hins vegar er gagnrýnin hugsun ekki bara það að kryfja hluti í sundur og skilja þá eftir í tætlum á borðinu, undir smásjá. Gagnrýnin hugsun þarf einnig að vera skapandi og hún þarf einnig að sýna umhyggju, annars fellur hún um sjálfa sig. Það sama á við um umhyggju; án gagnrýnnar og skapandi hugsunar er hún einskis virði. Og það sama má segja um skapandi hugsun; án gagnrýnnar hugsunar og umhyggju er hún einskis virði.

Það er þegar þú finnur jafnvægi í gagnrýnni hugsun gagnvart viðfangsefninu að þér tekst að öðlast meiri dýpt, og hvort það þýði að þú komist nær markmiðinu eða hvort þú rétt skjótist undir yfirborðið og fáir smá nasasjón af svörtu dýpi sem nær lengra en þú hafðir áður ímyndað þér, þá hefur þú í það minnsta reynt, ert reynslunni ríkari, og getur deilt þinni sögu með öðrum, og hugsanlega á þann hátt komist aðeins nær einhverjum sannleika.

Annars sýnist mér tvennt greina að hina trúuðu og trúlausu. Annars vegar að trúlausir skilgreina trú á annan hátt en hinir trúuðu gera. Og hins vegar að í umræðum um trú og trúleysi, sérstaklega þegar þeim er blandað saman við gildi vísindalegrar sönnunar, að þá gleymist stundum að trúin fæst við sannleikann, á meðan vísindin gera það alls ekki, heldur fást þau við að finna hið sanna.

Sannleikurinn og hið sanna eru gjörólík hugtök þó þau virðist vera nauðalík. Sannleikur er stóra heildarmyndin, nokkuð sem vísindamenn vita að hver og einn túlkar fyrir sig útfrá þeirri þekkingu sem þeir hafa öðlast af þeim brotum heimsins sem þeir þekkja sem sanna. Trúin byrjar hins vegar á hinum endanum, og telur sannleikann vera þekktan óháð því sem er satt í einstaka atriðum. 

Auðvitað veldur svona misskilningur átökum og enn meiri misskilningi. Það felst í hlutarins eðli.

Ég er ekki búinn að svara spurningunni sem ég spyr í titlinum þráðbeint, heldur með pælingum í kringum svörin. Dugar það sem svar, eða sem spurning?

 

Fyrri færslur um guðleysi og trú:

 


Bloggfærslur 19. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband