Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?

Yfirleitt þegar mér dettur í hug að skrifa um trúmál og trúleysi spretta fram fjörugar umræður þar sem sérfræðingar með prófskírteini frá sjálfum sér eru duglegir að fræða mig um hvað ég hef rangt fyrir mér, án þess að ég þykist sjálfur átta mig fyllilega á öllum þeim blæbrigðum sem felast annars vegar í lífi trúaðra eða trúleysingja.

Mig grunar að vandamálið liggi í ólíku sjónarhorni. Sumir sjá manneskjur í mikilli fjarlægði, aðrir í mikilli nálægð, og ekkert eitt sjónarhorn er hið eina rétta, frekar en þegar þú skoðar pöddu eða píramída. 

Ég byggði tvær greinar á grein sem stuðaði mig skemmtilega í tímaritinu Philosophy Now, en þar voru prestar beðnir um að skrifa greinar um nýguðleysi. Annar presturinn var með svona klassísk svör, eitthvað sem maður hefði búist við, en hinn Dr. Mabry kom með frumlega nálgun á málið og vildi í gamansömum tón flokka rit nýguðleysingja sem klám, og gaf reyndar skýr rök fyrir skoðun sinni. Þessar fyrri greinar mínar og fjörugar umræður má skoða hérna: 

En það er eitt atriði til viðbótar í grein Dr. Mabry sem vakti áhuga minn, en það er flokkun hans á blæbrigðum trúar. Þannig er listinn:

  1. Hefðbundin trú - Traditional Believers - (þeir sem trúa að trú þeirra sé sú eina rétta)
  2. Frjálshyggja í trú - Liberal Believers - (þeir sem trúa að trú þeirra sé ein af mörgum gildum trúarlegum skoðunum)
  3. Andleg valkvæðni - Spiritual Electics - (þeir sem fylgja ekki einni trú, heldur velja og púsla saman eiginleikum trúar úr mörgum ólíkum trúarbrögðum)
  4. Efahyggja í trú - Religious Agnostics - (þeir sem njóta þess að vera í samvistum við andans fólk, en eru ekki sannfærðir um sannleiksgildi trúarinnar)
  5. Siðferðilegir húmanistar - Ethical Humanists - (guðleysingjar og trúleysingjar sem finna sig tilheyra og vera í sambandi við einhverja óskilgreinda reglu í heiminum (Cosmos))
  6. Hentitrú - Jack Believers - (þeir sem trúa hinu sama og fólk með hefðbundna trú, en geta ekki farið eftir siðferðilegum reglum trúarbragðanna) 

Það sem vekur mesta athygli mína í þessari flokkun er að samkvæmt skilgreiningu Dr. Mabry eru nýguðleysingjar trúaðir. Þó að þeir átti sig kannski ekki á því sjálfir og afneiti trúnni algjörlega, þá virðast þeir trúa á einhverja stærri mynd, og sjá mikilvægi þess að fólk hugsi á gagnrýninn hátt um lífið og tilveruna, án þess að falla fyrir ýmsum innihaldslausum blekkingum - og telja rótina að góðu siðferði felast í að fylgja trúarbrögðum alls ekki í blindni og stundum alls ekki yfir höfuð, heldur með skynsamlegum hætti móta eigin siðferðilegar skoðanir.

Ég er sammála þessari skilgreiningu Dr. Mabry, að minnsta kosti í bili, eins langt sem hún nær, og þar til eitthvað annað og betra kemur í ljós.

Auðvitað fjalla þessar skilgreiningar aðeins um blæbrigði hinna trúuðu, og sjálfsagt hafa hinir trúlausu einnig ýmis áhugaverð blæbrigði sem vert er að skoða, og þá er sjálfsagt meira viðeigandi að skoða slíkt út frá vísindalegri aðferðum.

Þetta styður þá kenningu mína í þá minnsta að vantrúarfólk á Íslandi sé í raun trúað, þó að það afneiti trúnni. Að sjálfsögðu eru einhverjir vantrúaðir sem eru ekki trúaðir, þeir sem bera enga virðingu fyrir ólíkum skoðunum og er nákvæmlega sama um siðferði eða mannleg gildi, en þeir sem hafa áhuga á að byggja betra samfélag, þeir eru trúaðir þó þeir viti það ekki sjálfir.

Ég bíð spenntur eftir athugasemdum úr öllum áttum. Jafnvel frá þeim sem ryðjast inn á moldugum fjallaskóm og hella kaffi í tebolla. Halo

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Bloggfærslur 16. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband