Er predikun guðleysis klám?

"Ég er ekki viss um hvernig það byrjaði, en fljótlega eftir mikla fjölgun á framboði frá höfundum Nýguðleysis, byrjaði einhver að kalla bækur þeirra 'klám guðleysingja". Ég hló fyrst þegar ég heyrði þetta, líklega vegna þess að þetta er ekki fjarri sanni. Klám getur verið æsandi og skemmtilegt - en það hlutgerir líka fólk, fjarlægir hið mannlega frá fólkinu sem er til sýnis og sýnir það á falskan hátt með eigin hagnað að leiðarljósi sem og að fullnægja lesendum sínum."

Þannig hefst mögnuð grein sem ég rakst á í gær, sem nálgast skyndilegar vinsældir á nokkuð óvæntan hátt. Mér hafði ekki dottið þetta í hug, en get ekki annað en tekið undir þessar skoðanir, skrifaðar af Dr. John R. Mabry í grein þar sem hann mótmælir því hvernig Nýguðleysið teiknar upp of einfalda mynd af trúarbrögðum.

Sjálfur hef ég mjög gaman af Nýguðleysinu þar sem Richard Dawkins fer í fararbroddi og heldur því fram að trúarbrögð séu beinlínis skaðleg og ætti helst að leggja þau af með öllu, enda skapa þau bakland fyrir brjálæðum hugmyndum hryðjuverkamanna og sjálfsmorðsvígamanna. Vandinn er ekki að í baklandinu felist skaðlegar hugmyndir, en í þeim leynist margt mjög gott sem reyndar er hægt að snúa upp í hreina illsku með afbökuðum og skældum ofsatrúartöktum.

Ég get ekki annað sagt en að ég hafi samúð með báðum sjónarmiðum. Ég skil hvernig trúarbrögð geta fóstrað brjálæðinga, rétt eins og stjórnmál, kvikmyndir, skólar og tölvuleikir geta fóstrað brjálæðinga og ýtt þeim út í ofbeldisverk; en það þýðir ekki að ég vilji leggja niður stjórnmál, kvikmyndir, skóla og tölvuleiki. 

Vandamálið virðist vera það sama hvert sem þú ferð. Smár minnihluti eyðileggur orðspor hópsins. Þetta gerist stöðugt með hverri einustu kynslóð unglinga. Einhverjir krakkar gera einhvern óskunda sem hinir fullorðnu hneykslast yfir og yfirfæra ruglið á allan hópinn. Það sama gerist þegar fáeinir einstaklingar af öðru þjóðerni haga sér illa og valda skaða, eftir það getur reynst erfitt að líta fólk frá sömu þjóð fordómalausum augum. 

Málið er að það er auðvelt að trúa eigin fordómum, og þegar þeir virðast sannir og maður leyfir sér ekki að efast um sanngildi þeirra, kannski vegna þess að þeir virðast svo augljósir og ef maður efast, þá gætu einhverjar frumforsendur í eigin heimsmynd hrunið til grunna. 

Ég held að þeir sem fordæma trúarbrögð sem slík séu á næsta stig fyrir ofan þá sem fordæma kynþætti, hörundslit og skoðanir annarra, en eiga samt ennþá langt í land með að takast á við veruleikann. Það sama má segja um þá sem fordæma guðleysingja eða nýguðleysingja.

En ef skrif nýguðleysingja er klám, þá hlýtur öll orðræða og rit sem er í eðli sínu ómanneskjuleg og gerir lítið úr manneskju, líka klám; og þá getum við í raun skoðað flestar ræður Alþingis, sjálfsagt frá upphafi þings og flokkað þær sem klám. Það sama má segja um fréttamennsku flestra fjölmiðla og hugsanlega megnið af öllum tilkynningum frá fyrirtækjum. Sjálfsagt á það sama við um skilaboð sem koma frá stofnunum eins og kirkjum og skólum.

Væri ekki réttast að bjarga fjárhag íslenska ríkisins með því að skattleggja allt þetta klám?

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Bloggfærslur 12. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband