Er fólk virkilega svona sofandi yfir framtíðinni?

Ríkisstjórnin er búin að taka lán út á nýjasta loforðið um að borga ICESAVE þvert á vilja þjóðarinnar, og hafa þar af leiðandi komið Íslandi í raunverulega skuldbindingu til að borga til baka. Undir þessa viljayfirlýsingu skrifuðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri.

Það er engin leið út úr þessu nema ríkisstjórnin verði felld, og ég sé það ekki gerast í bráð. Ísland mun þurfa að glíma við erfiða fátækt í minnst 100 ár eftir þessa samþykkt. Þetta fer hins vegar ekki að bíta fyrr en á fyrstu dögum endurgreiðslu. Það er að sjálfsögðu eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá og flestir ábyrgðarmenn komnir á eftirlaun.

Það er fjarlægur draumur að ímynda sér Breta og Hollendinga gefa eftir þessa "skuld" sem var ekki "skuld" fyrr en fjórmenningarnir tóku stórt alþjóðlegt lán með viljayfirlýsingu yfir að borga allt til baka á fullum vöxtum. Þetta eru sambærileg svik og að lofa í upphafi að greiða allar innistæður í bönkum til baka. Enginn mun bera ábyrgð.

Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Gylfi Magnússon og Már Sigurðsson tefldu skákina vel gegn þjóðinni sem nú hefur verið mátuð kæfingarmáti af ríkisstjórninni sjálfri - og það gegn þeim vilja sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það gerist þegar eigin liðsmenn eru illa staðsettir og vinna ekki saman.

Eina leiðin út úr þessu hefði verið uppreisn þjóðarinnar við undirskrift þessa samnings og algjör afneitun hans, en fyrst svo var ekki, hafa núlifandi Íslendingar nú þegar dæmt börn sín í annað hvort ævilangt skuldafangelsi eða útlegð frá þessari fallegu eyju.

Við erum fallin á tíma. Taflið er tapað. Leikurinn búinn. Svikin af eigin liði.


mbl.is Íslendingar „geta ekki borgað Icesave"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband