Hvernig ber að túlka niðurstöður í Reykjavík?
30.5.2010 | 06:56
Sjálfstæðisflokkurinn hefur níu líf. Þó að þeir tapi tveimur borgarfulltrúum, þá tekst þeim að halda lykilstöðu í borginni með fimm fulltrúum, þar á meðal Gísla Marteini, sem hefur með þessum árangri sjálfsagt fengið leyfi til að fara aftur til útlanda í meira framhaldsnám fyrir næstu kosningar. Ég er ekki að grínast.
Samfylkingin gerði líka vel með að ná inn þremur fulltrúum. Dagur finnst mér reyndar að ætti að vera félagsmálaráðherra miðað við áhuga hans og baráttu fyrir betra atvinnulífi. Hann hefur stærri köllun í ríkisstjórn en borgarstjórn. Sjálfsagt á að nota hann sem tromp í næstu alþingiskosningum, á meðan hið rétta væri að nota eldmóð hans, skynsemi og starfskrafta strax í þágu þjóðarinnar.
VG stóð sig mun betur en ég átti von á. Sóley komst inn.
Framsókn og aðrir flokkar dissaðir algjörlega. Reykjavíkurframboðið hafði góð málefni en hefði betur mátt sameinast Besta flokknum, enda nauðalíkir flokkar, fyrir utan að Reykjavíkurframboðið hafði stefnu.
Besti flokkurinn er stóri sigurvegarinn. Aðrir flokkar munu samt túlka þetta sem eigin sigra, þrátt fyrir bla bla bla... BF kemur inn sex borgarfulltrúum, sem er mjög gott en samt minna en spár gerðu ráð fyrir. Mig grunar að mikil smölun hafi verið í gangi hjá stærri flokkum sem hafa haft áhrif á niðurstöðurnar, enda dræm þátttaka í upphafi kosningadags sem síðar skánaði eftir því sem á leið. Þannig grunar mig að Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hafi tekist að lifa af.
Eðlilegt væri að Jón Gnarr yrði næsti borgarstjóri, enda virðist hann afar næmur fyrir að hvetja fólk til samvinnu og skilja hvað það er sem gerir fjórflokkinn að meini sem er að murka líftóruna úr íslensku þjóðinni vegna hagsmunabaráttu fyrir fámennar auðklíkur og hugarfari sem líkist meira kappleik heldur en samvinnu. Hann er ekki pólitískur andstæðingur eins eða neins, sem er gott.
Næststærsti sigurvegurinn eru vel smurðar áróðursmaskínur fjölmiðla. Þeim tókst að sannfæra mikinn fjölda fólks um að Besta flokkinn skyldi ekki taka alvarlega, að Hanna Birna væri Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig og að hún hafi staðið sig vel sem borgarstjóri og eigi skilið að vera það áfram. Samfylkingin átti erfiðara uppdráttar í fjölmiðlum en tókst að nota vefmiðla og bloggið til að koma sér og sínum málefnum á framfæri.
Annars hefur mikil orka farið í að beita hugtakinu 'fjórflokkur' við ýmsar aðstæður. Mér sýnist merking hugtaksins ekki vera ljós. Ég lít á 'fjórflokkinn' sem samsteypu þeirra flokka sem hafa stjórnað íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Þetta eru fjögur lið sem öll berjast fyrir ákveðnum hagsmunum, ekki fyrir hugsjónum. Þau líta á hvert annað sem andstæðinga og að þau séu að fylkja liði gegn þessum andstæðingum.
Það er svo mikil fáfræði spunnin í þennan hugsunarhátt að það er varla hægt að kalla þetta hugsun, kannski væri betra að flokka þetta sem hegðun, sem brýst út sem viðbrögð gegn andstæðum viðhorfum sem gætu hugsanlega ógnað hagsmunum þeirra sem styrkja viðkomandi flokk.
Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn eru flokkar sem berjast fyrir þessum ákveðnu hagsmunum, en VG hefur hins vegar verið ógn gegn þessum flokkum þrátt fyrir að berjast ekki beint fyrir hagsmunum, heldur fyrst og fremst gegn þeim hagsmunum sem hinir flokkarnir standa fyrir. Þannig spinnst VG inn í fjórflokkinn, og festir sig síðan almennilega í sessi þegar í ljós kemur þegar inn í ríkisstjórn er komið að enginn munur virðist á VG og hinum þremur, þar sem að upp spretta hagsmunaaðilar sem VG byrjar að verja og koma í stöður innan stjórnkerfisins.
Besti flokkurinn er ferskur vegna þess að hann hefur ekki enn fallið í þá gildru að setja sig upp sem flokk sem berst gegn hagsmunum vernduðum af öðrum flokkum, heldur sem hóp af fólki sem vill berjast fyrir almannaheill. Það að þeir noti háð og spott til að koma sér á framfæri er hið besta mál. Fólk sem hugsar ekki út frá flokkspólitískum forsendum er nauðsynlegt til að koma stjórnkerfinu í lag. Flokkspólitíkin er krabbamein sem er að ganga frá stjórnkerfi Íslands dauðu.
Vonandi fer fjórflokkurinn í meðferð og áttar sig á hvað þeir hafa verið að gera þjóð sinni mikinn skaða með ábyrgðarleysi og flokkadráttum. Vonandi fara meðlimir þeirra að hlusta á þjóðina. Vonandi fara þeir að skilja að það er ekki flokksrígur sem fólkið vill, heldur samvinna og samstaða gegn meinum og glæpum, að heiðarlegt fólk sé stutt áfram, að duglegt fólk fái vinnu sem skilar gæðum til samfélagsins.
Vonandi fattar fjórflokkurinn að hann fékk spark í rassinn á landsvísu, en snýr ekki út úr með því að þykjast hafa runnið til í hálku eða að sparkið hafi ekki verið nógu harkalegt.
Fjórflokkurinn er mein sem þarf að reka út, með góðu eða illu. Og með fjórflokknum meina ég ekki bara Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Framsókn og Vinstri græna, heldur þann hegðunarhátt sem þessir flokkar standa fyrir í dag. Þeir gætu hæglega breyst í þríflokk eða fimmflokk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)