Er Jón Gnarr og flokkur hans bestur?

 

georg

 

Besti flokkurinn er ekki bara grín. Hann er líka háð. Háð er ekki bara grín. Háð er gagnrýnið grín.

Jón Gnarr hefur háð stríð með háði gegn fjórflokknum. Hann er að sigra.

Fjórflokkurinn svarar fyrir sig með skotum á Jón Gnarr um að einhvern tíma hafi hann skráð sig á lista til stuðnings sjálfstæðismönnum, hann sé trúaður, sé ekki alltaf fyndinn, sé ekki hægt að taka hann alvarlega og þar fram eftir götunum.

Ég ólst upp í Breiðholtinu. Í fellahverfinu. Mér þykir vænt um Reykjavík. Síðasta kjörtímabil var óhugnanlegt. Þeir sem komust að kjötkötlum borgarinnar stálu ekki bara öllu kjötinu úr kötlunum, heldur seldu líka katlana og skepnurnar sem nota áttu til næstu áratuga. Þeim fannst þeir bara standa sig nokkuð vel.

Hefðbundinn kosningaáróður hófst með innihaldslausum loforðum, sæmilega mjúkum og loðnum, einhverju sem hægt væri að geyma þar til stutt væri í næstu kosningar og sýna þá einhvern lit til að setja verkefni í gang sem hægt væri síðan að slá á frest eftir næstu kosningar.

Nú kemur Jón Gnarr fram og gefur verstu hugsanlegu kosningaloforð sem hægt er að gefa. Þau snúa að hlutum sem fáir vilja, en loforðin eru það fáránleg að enginn trúir að manninum sé alvara. Ég trúi því ekki heldur. En hvað ef honum er alvara?

  • Hvað ef hann vill tollahlið frá Garðabæ til Reykjavíkur?
  • Hvað ef hann vill slátra skepnum í húsdýragarðinum til að gefa ísbirni að éta?
  • Hvað ef hann vill láta ættleiða róna?

Væri ekki fyndið ef hann stæði við öll kosningaloforðin, fyrsti stjórnmálamaður Íslendinga til að gera slíkt?

Mig grunar að markmið framboðsins sé að sýna fram á fáránleika flokka og hefðbundinna kosninga, en hvað ef ég hef rangt fyrir mér? Hvað ef Jón Gnarr vill einfaldlega fá það sem hann hefur sagt, þægilegt skrifstofustarf þar sem hann hefur nóg af frítíma og getur gert það sem honum sýnist? 

Hvað ef markmiðið er að styrkja leikhúslíf í Reykjavík? Hvað ef raunveruleg uppspretta bakvið framboðið er atvinnuleysið sem bíður listafólks þar sem Páll Magnússon sjónvarpsstjóri hefur boðað niðurskurð á íslensku sjónvarpsefni? Hvað ef þetta er svarið við þeim niðurskurði, og hefur í raun ekkert með gagnrýni á pólitík að gera?

Ég myndi kjósa Besta flokkinn umfram allt hitt sem í boði er, aðallega vegna þess að þetta er eini flokkurinn sem inniheldur engan atvinnupólitíkus. Það er nóg fyrir mig, því ég tel atvinnupólitíkusa vera eina mestu meinsemd þjóðarinnar og starfstétt sem ætti ekki einu sinni að vera til.

Svo er svolítið skondið að þegar fólk kýs Besta flokkinn er það í raun að kjósa Jón Gnarr, og er nokkuð sama um alla þá sem geta streymt inn í stjórnkerfið í kjölfar hans. Það virðist nóg fyrir heilan flokk að hafa eina fyndna manneskju í framboði. Ekkert annað skiptir máli.


Bloggfærslur 23. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband