Hvar kennum við siðferðileg viðmið, ef ekki með trúarbrögðum?

 

443909a-i1.0

 

Ég læt ekki uppi hver mín skoðun er á þessum málum, enda reynslan sýnt mér að þá er maður bara flokkaður í annan hópinn og útilokaður af hinum, og því nennir helmingurinn ekki að hlusta á mann. Því reyni ég að skilja þá báða og setja mig í skó þeirra beggja og jafnvel ganga einhverja vegalengd í þeim báðum.

Ég held að við séum að nálgast málið frá svipuðum forsendum, en ég er líka að hugsa um heiminn út frá reynslu minni í öðrum samfélögum en Íslandi, það er þá helst Mexíkó og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum eru trúarbrögð nokkurs konar söluvara eða viðskipti, þar sem ríkið styrkir ekki trúarbrögð, en samt eru hvergi fleiri kirkjur í hverjum bæ í heiminum heldur en í Bandaríkjunum, enda er þar í flestum ríkjum trúfrelsi, að minnsta kosti á yfirborðinu.

Ég bjó sex ár í Mexíkó. Þar er kaþólsk trú ansi sterk, en einnig mikið af smærri trúarbrögðum meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Þar er mikil samanbræðsla menningarheima, en Evrópumenn réðust inn á svæðið fyrir um 500 árum og lögðu fyrri heimsmynd í rúst, en þá tíðkuðust meðal annars mannfórnir á ungmennum til að blíðka guðina.

Það sem Kristnin gerði, hvort sem það er til góðs eða ills, þá sameinaði hún Evrópumenn undir sama hatti, og var tæki til að snúa hinum innfæddu yfir í heimsmynd hinna evrópsku. Mér dettur ekki í hug að réttlæta þetta sem eitthvað góðverk, en svona var þetta.

Á Íslandi var þetta einfaldara árið 1000 þegar Þorgils lagðist undir feld og ákvað að Íslendingar skyldu formlega taka Kristni en mættu blóta í leyni. Það ætti að vera frekar einfalt fyrir einsleita þjóð eins og okkar, ef hún er ennþá jafn einsleit og hún var, að vera trúlaus.

Ég geri ráð fyrir að trúarbrögðin séu til, fyrst og fremst til að varðveita eina menningu gagnvart ytri áhrifum. Það er þessi eining sem fólk finnur í trúnni sem skiptir þarna miklu máli. Og ég er alls ekki að leggja dóm á hvort það sé gott eða slæmt, eða hafi góðar afleiðingar eða slæmar. Hins vegar felst miklu meira vald í trúarbrögðum en í trúleysi.

Þetta vald sameinar þá sem að nenna eða vilja ekki að hugsa djúpt um hlutina án forsendanna sem trúarbrögðin gefa þeim. Samfélag þar sem trúarbrögð eru virk virðast einnig hafa þau áhrif að skilgreining á umfangi hins rétta miðast ekki bara við sérhagsmuni einstaklings, heldur hagsmuni hópsins.

Ég er ekki að segja að þannig eigi þetta að vera. Þannig er þetta bara. Held ég.

Svo eru til nokkrir einstaklingar sem hugsa djúpt, taka siðferðilega góðar ákvarðanir, hafa skýr og heilbrigð viðmið fyrir ákvarðanir og líta heiminn heilbrigðum augum, og fylgja ekki trúarbrögðum. Þessir einstaklingar eru undantekning frekar en regla, held ég, og vissulega væri gaman að vera til í samfélagi þar sem allir væru þannig.

Ég neita því engan veginn að í nafni trúarbragða hafa verið unnin illvirki. Styrjaldir hafa verið háðar í nafni þeirra, og völdin sem fylgja slíkri sameiningu hafa verið misnotuð oft og illa, og er enn gert í dag. Þarna tel ég misviturt fólk hafa misnotað sér mikil völd, en það dæmi ekki trúarbrögðin sjálf sem eitthvað illt, heldur eru þau ógurlegt vald sem hægt er að beita til að bæta heiminn, eða fyrir eigin hagsmuni; rétt eins og tækni, þekkingu, upplýsingar, peninga, stjórnmál.

Ég held að öfgafólk verði áfram til og leiti valda þar sem þau eru tiltæk, hvort sem trúarbrögð eru til staðar eða ekki. 

Hvar varðveitum við og kennum siðferðileg viðmið þjóðarinnar, ef ekki með trúarbrögðum? Á að treysta foreldrum til þess? Hvar finna þeir stuðning fyrir siðferðisdóma sína?

Málið er að það er ekkert mál fyrir einstakling að vera trúlaus og vel upplýstur. Málið flækist hins vegar gífurlega þegar við skoðum það í stærra samhengi, á milli þjóðfélagsbrota, fyrir heilt þjóðfélag, og síðan fyrir sértækar aðstæður.

 

Mynd: Nature.com


Bloggfærslur 5. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband