Hvenær skal gagnrýna manninn og hvenær málefnið?

 

BartSimpson_GagnryninHugsun

 

Undanfarna mánuði hefur nafn Davíðs Oddssonar varla mátt birtast í fjölmiðlum án þess að maðurinn á bakvið nafnið sé gagnrýndur eða honum hælt, fyrir það eitt að vera sá maður sem hann er og að eiga sér þá sögu sem hann á. Sams konar hróp eru gerð að Ólafi Ragnari, Steingrími Joð, Jóni Ásgeiri, Björgólfsfeðgum, Pálma í Fons, Árna Páli, Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi, Bjarna Ármanns og þannig má lengi telja. Þetta virðist eiga helst við um stjórnmálamenn og auðglæframenn.

Sama hvað fólk hefur miklar tilfinningar gagnvart manneskju, hvort sem þessar tilfinningar eru jákvæðar eða neikvæðar, er afar varasamt að láta þær hafa afgerandi áhrif á samræður sem eru í gangi. Ég hef heyrt fólk nota orðalag eins og "nú óx hann í áliti hjá mér" eða "nú féll hún í álit hjá mér", eins og það komi málefnum eitthvað við.

Þegar gagnrýni er beint að manneskju frekar en málefni er verið að útskúfa viðkomandi úr samræðunni. Þó að viðkomandi hafi tækifæri til að svara fyrir sig, hefur þegar verið vegið að orðspor hans. Það getur dugað til að gera málið marklaust. Sé manneskjum fyrirfram útskúfað, glatar samræðan mikilvægum eiginleika gagnrýninnar: að taka öll sjónarhorn og allar skoðanir til athugunar, sama hvaðan þau eða þær koma, og svo framarlega sem þau koma málinu við og séu vel rökstudd.

Hróp að manneskju er merki um skort á hæfni til gagnrýnnar hugsunar. Stundum er þessi hæfileikaskortur tímabundinn og þá oft tengdur sterkum tilfinningum, eða langvarandi og hefur meira með slaka menntun, þroska eða uppeldi að gera heldur en skap. Gagnrýnir hugsuðir þurfa nefnilega ekki alltaf að vera yfirvegaðir og rólegir, þó að það sé oft æskilegt þegar verið er að ræða málin. Reiði er hægt að beita bæði á réttan hátt og rangan. 

Rangur farvegur er að gagnrýna manneskjuna frekar en málefnið.

Gagnrýni á manneskju er alvarlegt mál. Slíkt á aðeins við ef manneskjan hefur sannarlega brotið af sér, og þá verður gagnrýnin að ásökun og jafnvel ákæru fyrir dómi. Slíkt þarf að vera afar vel rökstutt, og helst þyrfti áreiðanlegur dómstóll að vera búinn að dæma í viðkomandi máli. Þegar reiði finnur sér hins vegar engan farveg, þegar ekki er hægt að gera upp mál, þegar dómstólar og lögin virka ekki, þá er eðlilegt að reiði brjótist fram gegn þeim manneskjum þar sem ekki tekst að ljúka málum. Sú umræða hefur fullan rétt á sér í samfélagi manna, en sú umræða verður aldrei gagnrýnin.

Svar mitt við spurningunni hér að ofan er: aldrei. Það skal aldrei gagnrýna manneskju á kostnað málefnis, sé þér annt um að málefni leiði til skynsamlegra ákvarðana eða skoðana, og sé þér annt um að málin endi í góðum farvegi. Hins vegar er skiljanlegt þegar engar úrlausnir eru til að reiði brýst út sem gagnrýni á manneskjur.

Á sama hátt er öll umræða þar sem stjórnmálaflokkur er gagnrýndur á kostnað málefnis, tilgangslaus fyrir gagnrýna hugsun. Gagnrýnin hugsun snýst um málefni. Ekki ætti að gagnrýna manneskjur á meðan málefnin eru rædd, jafnvel þó svo að málefnið sé manneskjan sem rætt er um.  

Það þarf að finna jafnvægi á milli tilfinninga og hugsunar. Til að koma á þessu jafnvægi þurfum við að finna leiðir til að réttlætið nái fram að ganga. Réttlætið er nefnilega ekki bara eitthvað óraunverulegt hugtak sem skiptir engu máli þegar lög eru annars vegar, heldur undirstaða bæði laga og siðferðis. Án réttlætis eru engin lög, án sanngirnis ekkert siðferði.

Mig grunar að réttlæti sé einhvers konar hugtak um jafnvægi í mannlegum samskiptum, en að sanngirni sé tilfinning um jafnvægi í mannlegum samskiptum. Grundvöllur samfélagssáttar felst í að jafnvægi verði á milli hugmynda fólks um sanngirni og réttlæti. Og til að samfélagssátt verði til þarf að finna útrás fyrir reiði fólks gagnvart einstaklingum sem talið er að hafi brotið alvarlega af sér gagnvart eigin þjóð.

Best er að þessar leiðir séu löglegar og framkvæmdar af opinberu valdi. Verði það ekki gert, mun þessi reiði auka ójafnvægi og vantraust þegna gagnvart bæði hinu opinbera valdi og þeim einstaklingum sem ekki þurfa að svara til saka fyrir gerðir sínar.


Bloggfærslur 26. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband