Síðasta málsgrein 1. kafla rannsóknarskýrslu um efnahagshrunið endar á sérkennilegum, en skiljanlegum nótum. Þar er fólki bent á að auðvelt sé að vera vitur eftirá, og það þurfi að hafa í huga þegar skýrslan er lesin.
"Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin." (Úr fyrsta kafla rannsóknarskýrslunnar)
Er hins vegar ekki þeim sem taka ábyrgð borgað sérstaklega vel fyrir þessa visku, og þeim treyst til að vera vitrir fyrirfram, þannig að þeir skapi ekki ástand þar sem nauðsynlegt verður að vera vitur eftirá?
Það er ljóst að upplýsingar voru til og stjórnendur höfðu aðgang að þeim, sem sýndu skýrt og greinilega í hvað stefndi; og má segja að það þyrfti ansi þrjóska þverhausa til að loka eyrunum þegar viðvörunarbjöllur klingja yfir hausamótum þeirra. Kannski þeir hafi verið að hlusta á eitthvað allt annað en viðvaranirnar? Eitthvað sem hentaði betur?
Þegar ljóst er að fjöldi viðkomandi aðila hafði beinan fjárhagslegan gróða af þeim ákvörðunum sem "mistök eða vanræksla í starfi" höfðu áhrif á, þá er ekki við hæfi að benda á visku eða heimsku viðkomandi, heldur spyrja hvort að brotavilji hafi verið til staðar.
Smáþjófar fá varla sömu tækifæri til að vera vitrir eftirá og þeir sem eru gómaðir í meiri virðingarstöðum? Þessi viska rannsóknarnefndarinnar er sönn, en ég spyr hvort að hún sé viðeigandi. Eigum við að vera varkár eða vantreysta þeim sönnunargögnum sem felast í skýrslunni, eða nota þau til að mynda okkur traustar skoðanir á stöðu mála?
Eigum við að krefjast réttlætis þegar við sjáum að lög hafa verið brotin, sem beint og óbeint hafa komið öllum Íslendingum illa, og jafnvel orðið til þess að sumir örvænta og framkvæma í kjölfarið hluti sem aldrei er hægt að draga til baka. Eigum við að fyrirgefa fyrr en þeir sem eru að missa heimili sín vegna þessara voðaverka, hafa misst störf, hafa misst eigur; eigum við að fyrirgefa þrjótunum fyrr en búið er að laga hag þessa fólks?
Eiga þrjótarnir ekki að vinna samfélagsvinnu og beinlínis hjálpa með eigin vinnu öllu því fólki sem þjáist vegna þeirra? Fólki á Íslandi, í Hollandi, á Bretlandi, og víðar?
Sumar ákvarðanir er hægt að fyrirgefa, aðrar ekki, fyrr en búið er að bæta fyrir þær, leita fyrirgefningar og sýna raunverulega iðrun í verki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)

Rannsóknarskýrslan er afar merkilegt plagg. Ég er rétt byrjaður að lesa. Strax rekst ég á stóra spurningu sem ég tel mikilvægt að taka fyrir. Það er sjálft umfangið.
Skýrslan fjallaði fyrst og fremst um orsakir Hrunsins 6. október 2008 þegar Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing drógu íslenskt efnahagskerfi í djúpan pytt.
Það sem ég hef séð af þessari skýrslu, er að hún er opinská, hlífir engum og mun gera mikið gagn þegar einstaklingar verða dregnir til ábyrgðar. Mér þætti eðlilegt að það sama væri gert fyrir aðrar fjármálastofnanir sem farið hafa á hausinn og íþyngt þjóðinni óbærilega.
"Þótt allar íslenskar fjármálastofnanir hafi orðið fyrir einhverjum skakkaföllum samhliða þeim áföllum sem gengu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008 eru vandamál sparisjóðakerfisins um margt sérstök.Vegna hins mikla umfangs verkefnis nefndarinnar, að skýra meginorsakir falls bankanna 2008, vannst ekki tími til að taka hin sérstöku vandamál sparisjóðakerfisins til umfjöllunar þótt þau hafi verðskuldað það. Það er því undir Alþingi komið hvort þau verða tekin til sérstakrar rannsóknar."
Ég sé ekki betur en að skynsamlegt væri að bjóða rannsóknarnefndinni áframhaldandi störf og taka næst fyrir Sparisjóðina og málin í kringum þá. Held að það geti verið viðkvæmt mál þar sem margir áttu til dæmis hlut í BYR sem ákveðið var að styrkja frekar en að fella af einhverjum ástæðum, þegar tilefni virtist til, frá sjónarhorni leikmanns eins og mín, að taka alvarlega á málum þar.
Mér þætti eðlilegt að rannsóknarnefndin fengi strax grænt ljós um að rannsaka sparisjóðina, ekki seinna en í dag.
Sjálfur er ég afar sáttur við skýrsluna sem kom út en hún staðfestir að tilfinning mín fyrir þessum hörmulegu málum voru á rökum reistar, þó að ekki hafi ég haft aðgang að upplýsingum. Það er merkilegt hvað hægt er að komast langt á brjóstvitinu, en að sjálfsögðu ómetanlegt að fá þann stuðning og sönnunargagn sem þessi skýrsla er.
Sama hvað pólitíkusar munu spinna um að hún innihaldi bara eitthvað sem fram hefur komið áður, þá hefur hún þá sérstöðu að hún er áreiðanlegt sönnunargagn, fyrir þá sem hafa þurft að hugsa afar gagnrýnið um upplýsingar sem frá fjölmiðlum koma.
Búinn að hlaða niður 165 MB skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis!
12.4.2010 | 13:19

Ástæðan fyrir lengd skýrslunnar er ekki að fela hlutina, heldur að koma þeim upp á yfirborðið. Það er afar góð frétt.
Þetta er ansi stór skammtur í einum bita og má reikna með að unnið verði úr þessu á einhverjum árum. Ég velti fyrir mér fyrningu á þeirri vanrækslu og glæpum sem skýrslan lýsir. Vonandi verða sett neyðarlög sem segja til um að þessi mál fyrnist ekki frekar en morð.
Frábært að fá loks aðgang að skýrum upplýsingum um krosseignatengsl og hvernig hrægammar þjóðfélagsins kroppuðu allt til sín, hvernig stjórnendur brugðust, bæði vegna styrkja (eða múta) og vanhæfni í starfi.
Ég skil vel að erfitt hafi verið að rannsaka þetta efni og ég sé hvers vegna rannsóknaraðilar hafi nánast tárast yfir þessum grátlega harmleik sem skapaður var af eigingirni, græðgi og óhófi fjölda fólks. Það lítur út fyrir að lög og reglur hafi verið viðmið frekar en takmarkanir, og farið eins langt og fólk komst upp með.
Siðferði virðist hafa verið dulrænt hugtak í meðförum þeirra sem héldu blint í efnishyggjuna, þar sem hið rétta varð að öllu því sem hægt var að komast upp með og græða á, án þess að vera gómaður. Að vera háll sem áll, sleipur og útsmoginn, virðast hafa verið markmið og kröfur Hrunkynslóðarinnar.
Ég vil hrósa rannsóknarnefnd Alþingis fyrir augljóslega afar vel unna skýrslu. Það er auðskiljanlegt af hverju þurfti að fresta útgáfu hennar nokkrum sinnum. Nú verður bara að halda þessu góða starfi áfram og vona að saksóknarar taki við kyndlunum og beri hann hátt.
Þessi skýrsla er nauðsynlegt skref í endurreisninni, og ég er einn af þeim sem varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Reyndar mætti auka bandvíddina á vefnum, en það tók mig um 5 tíma (reyndar voru þeir ekki nema 3 - ruglaðist vegna tímamismunar) að hlaða allri skýrslunni niður, þrátt fyrir mjög gott netsamband hérna í Noregi.
Ég reikna með að lesa hana til fróðleiks næstu árin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvernig á að refsa skipstjórum þjóðarskútunnar?
12.4.2010 | 12:21

Þar sem að rannsóknarnefndin hefur metið mikinn fjölda þeirra sem stjórnuðu þjóðarfleyinu fyrir Hrun brotlega um vanrækslu í starfi, fór ég að velta fyrir mér hvernig væri við hæfi að refsa slíku fólki. Því fór ég að sjálfsögðu í siglingalögin og fann þar hvað gert er við skipstjóra sem sýna vanrækslu í starfi.
238. gr. Siglingalaga: Ef skipstjóri hefur orðið valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi sínu varðar það sektum, [fangelsi allt að fjórum árum].
Væri kannski eðlilegt að taka þessi viðurlög og margfalda með hundrað þúsund, þar sem þjóðarskútan er að sjálfsögðu mörg þúsund sinnum verðmætari og mikilvægari fyrir lífið í landi en dallur úti á hafi?
"Við skulum ekki leita að sökudólgum," sagði einn þeirra sem sýndi vanrækslu í starfi.
Það er kominn tími til að svara: "Jú, víst! Drögum þau fyrir dómstóla. Komum þeim frá völdum. En gefum þeim tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Þetta fólk á alls ekki að vera við völd í dag."
Mynd: Jean-Michel Cousteau Ocean Adventures
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)