Þekkir þú muninn á ríkidæmi og fátækt?

 

g-081120-wld-mexico-3p.hmedium
 

Sönn saga:

Einu sinni var ég á ferð í Mexíkó ásamt eiginkonu minni og börnum á leið frá Chiapas til Merida, á tímum þegar Marcos, hinn grímuklæddi uppreisnarmaður, var alræmdur á svæðinu, og vitað að mikið væri um bandíta að nóttu til á þessum vegi. 

Svo illa vildi til að það sauð upp úr á vatnskassa bílsins. Tappinn bókstaflega sprakk, og var ónýtur. Við fórum á verkstæði, og þrátt fyrir að það væri laugardags eftirmiðdagur, fengum við bifvélavirkja sem var að horfa á knattspyrnuleik með félaga sínum til að hjálpa okkur. Hann reyndi að festa nýjan tappa á vatnskassann, en sagði okkur að hann myndi ekki duga lengi. Við þyrftum að fara með bílinn í alvöru viðgerð. 

Við áttum 12 klukkustunda akstur fyrir okkur til næstu borgar með eðlilegum hraða, en með ónýtan vatnskassa þurftum við að stoppa á 15 mínútna fresti og fylla vatnskassann af vatni. Við keyptum 10 tveggja lítra kókflöskur á bensínstöð, tæmdum þær og fylltum af vatni. Við þurftum að fylla á þessar flöskur á klukkutíma fresti. 

Það var um 40 stiga hiti og langt í næstu borg. Við héldum áfram til klukkan níu að kvöldi, og þegar ég var farinn að heyra í einhverjum dýrum á skokki í nágrenninu á meðan ég fyllti á vatnskassann, og mér sýndist ég sjá einhverjar útlínur var mér hætt að standa á sama, auk þess að myrkrið varð kolsvart vegna skorts á lýsingu. Þetta gátu ekki verið hestar því það var ekki hófhljóð sem ég heyrði, og kýr skokkuðu ekki svona hratt. Við ákváðum að leita hælis á sveitabæ. Keyrðum inn heimreiðina og áður en við fórum út úr bílnum kom bóndinn út úr litlu húsi sínu.

Hann bauð okkur velkomin. Við spurðum hann hvort við gætum lagt bílnum þarna í öryggi frá bandítum, og sofið í honum yfir nótt. Bóndinn gerði betur. Hann bauð okkur inn á heimili sitt. Hann sagði okkur að þessi dýr sem ég hefði heyrt í væru dádýr, að það væri gífurlega mikið af þeim á þessum slóðum, að þau væru villt.

Eiginkona hans bauð okkur í mat, og sonur þeirra lék við börn okkar. Við tókum eftir að sonur þeirra átti engin leikföng né bækur, aðeins eitt tímarit sem hann hafði greinilega lesið margoft. Hann náði góðu sambandi við börn okkar og nutum við þess að vera með þessu góða fólki, sem lifði afar fátæklega. Þau sváfu í hengirúmum, og virtust nánast engar eigur hafa hjá sér. Þau störfuðu fyrir eiganda býlisins, sem bjó í borginni, en þau unnu fyrir hann á daginn og fengu í staðinn að búa í þessu húsnæði. Þau voru honum þakklát. 

Þau útveguðu okkur dýnur sem við sváfum á yfir nóttina. 

Næsta dag buðu þau okkur í morgunverð og kvöddu okkur. Við báðum þau um heimilisfang þeirra og nöfn áður en við fórum aftur af stað, og ákváðum að senda þeim kassa af barnabókum þegar við næðum á leiðarenda. Sem og við gerðum. 

Bóndinn heimsótti okkur í borgina nokkrum mánuðum síðar, og þakkaði okkur fyrir bækurnar. Þessi bóndi, sem átti nánast enga eign, er ein ríkasta manneskja sem ég hef kynnst á minni ævi. 

 

Þægileg alhæfing:

Ég held að ríkidæmið felist ekki í því sem þú átt, heldur í viðmóti þínu. Það er sama hversu lítið eða mikið þú átt, ef þú hefur enga gjafmildi, þá ertu ekki ríkur. Og sá sem hefur enga gjafmildi er fátækastur þeirra allra, sama þó að hann eigi milljarða á bankabók.

 

Vafasöm alhæfing:

Eins furðulega og það kann að hljóma, þá er fátækasta fólkið sem ég kynnst á mínum ferðum, fólk sem hefur átt svo mikið af peningum að það veit ekki hvað skal gera við þá, og telur þessa eign upphefja eigin manngildi yfir annarra. Þessir einstaklingar eru oft hrokafullir, sviksamir, þjófóttir og hinir mestu bragðarefir, og telja slíka hegðun vera góða. Það er nánast vonlaust að ná mannlegu sambandi við slíka einstaklinga.

Þetta á alls ekki við um alla þá sem ég hef kynnst og eiga mikið af peningum, heldur um stóran hluta þeirra sem hafa eignast sitt án þess að gera það á heiðarlegan hátt. Fólk sem hefur erft peninginn eða eignast hann með vafasömum hætti. Svona einstaklingar hafa ekki áhuga á að þroskast og bæta sig, vegna þess að þeim finnst allt vera eins og það eigi að vera og sjá ekki tilgang með því að hugsa lengra eða dýpra. Nám í slíkum huga hefur aðeins eitt markmið: að eignast meira. Annað fólk er bara tilfallandi hluti af tilverunni.

Þetta er fátækt fólk. Wink

 

 

Mynd: msnbc.com

E.S. Tók eftir að verið er að fjalla um fátækt á mbl.is eftir að ég skrifaði þessa grein, þannig að ég ákvað að tengja greinina við fréttina.  


mbl.is Fjallað um íslenska fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband