Nei, ég borga ekki!

Um daginn fékk ég rukkun inn á heimabanka minn frá tryggingarfyrirtæki upp á rúmar 130.000 krónur. Ég hef aldrei verið viðskiptavinur þessa fyrirtækis og var það ekki þennan dag sem heimabanki minn sýndi rukkunina.

Hefði ég verið ríkisstjórn, hefði ég sjálfsagt stofnað nefnd sem fengi það verkefni að leysa málið.  Þar sem að ég er ekki ríkisstjórn, sendi ég kurteisislega orðaðan tölvupóst á fyrirtækið þar sem fram kom að ég ætlaði ekki að borga þennan pening, einfaldlega vegna þess að ég hafði aldrei átt viðskipti við þá. Ættingi minn hringdi einnig í fyrirtækið fyrir mig, þar sem ég vildi ekki eyða millilandasímtali í þetta. Fljótt kom í ljós að mannleg mistök höfðu átt sér stað, og hefur rukkunin verið strokuð út úr þessari tilvist og sjálfsagt komið inn í líf einhvers annars.

Hefði ég verið ríkisstjórn, hefði ég verið búinn að eyða gífurlegum fjármunum í nefndarstörf og samningsgerð, og sjálfsagt væri búið að samþykkja að greiða þessar rúmu 130.000 krónur að sjö árum með 5.5% vöxtum. Hefði ég opinberlega neitað að borga, reikna ég með að vera útkallaður sem siðferðileg raggeit án manndóms og heiðurs.

Svona rugl á ekkert að vera flókið. Þegar verið er að rukka þig fyrir eitthvað sem þú skuldar ekki, á að vera nóg að segja: "Nei, ég borga ekki."

Og málið dautt.


Bloggfærslur 23. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband