ESB: Er aukið skrifræði af hinu illa?

 

bureaucracy

Skilgreining á skrifræði: Stjórnkerfi þar sem ferli eru sérhæfð, þeir hæfustu ráðnir í embætti, aðgerðir eru í samræmi við fastar reglur, skýr valdaskipting og miðlun valds.

Þannig ætti þetta að vera á Íslandi.

Vandinn felst í því að þegar skrifræðið er komið í fastan farveg og þeir valdameiri finna leiðir til að komast framhjá því, og nýta sér þessar leiðir óspart. Þannig verður spilling til. Lélegt skrifræði lætur menn komast upp með svona hegðun. Gott skrifræði kemur upp um svona hegðun.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið mun skrifræði aukast gífurlega. Þetta skrifræði er þungt og leiðinlegt í vöfum, en gerir spillingaröflum erfiðara fyrir, bæði smáum og stórum. Spillingin dafnar best þegar hægt er að taka ákvarðanir án þess að fara í stíf ferli, þegar hægt er að ráða vini og frændfólk til starfa án þess að auglýsa starfið laust fyrst eða fylla út skýrslur sem sanna að viðkomandi er sá hæfasti til viðkomandi starfs. Til að komast framhjá slíku við skriffinnskustjórnskipan þyrfti að ljúga, og lygarinn yrði síðan dreginn til ábyrgðar þegar lygin kemst upp.

Það sama á við um hagsmunaárekstra. Þingmönnum og ráðherrum getur verið settur stóll fyrir dyrnar þegar kemur að því að maka eigin krók með vafasömum ákvörðunum sem gagnast sumum en skaða aðra.

Málið er að lýðræðið sem slíkt er alls ekki fullkomið stjórnkerfi. Það hins vegar stuðlar að heiðarleika með því að gera ákvarðanir gagnsæjar. Gagnsæið kallar á skriffinnsku. Hægt er að halda vel utan um skriffinnskuna með nútíma upplýsingatækni, eða nota pappír og blýanta. Í dag höfum við slíkt val.

Segjum að upp komist um lygar og spillingu í stjórnkerfi þar sem ferli hafa verið skrásett. Þá verða ákveðin viðurlög og ábyrgð að taka við. Þetta virðist ekki virka rétt á Íslandi í dag, en væri hægt að kippa í lag með þátttöku í ESB þar sem viðurlög við reglubrotum eru vonandi strangari en á Íslandi.

Skriffinnska sem getur hjálpað og verndað þjóð gegn spillingu er ekki jafn slæm og andstæðan, þegar litið er til lengri tíma. Þegar málið um að ganga í ESB er farið að snúast um aukið skrifræði, er í raun verið að spyrja hvort við viljum fá farveg fyrir réttlæti.

Ég hef ekkert á móti slíkum farvegi.

 

Mynd: theinder.net


mbl.is Ný stofnun kostar milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband