Up In The Air (2009) ****
6.2.2010 | 09:09

George Clooney situr í þægilegu sæti á fyrsta farrými og flugfreyjan spyr hann: "Would you like a can, sir?"
Hann svarar undrandi: "Why would I want a cancer?"
Hún sýnir honum dós og hann fattar misskilninginn.
Þetta er lýsandi dæmi fyrir "Up In The Air" í heild. Maður sem telur sig vera með afar traust tök á lífinu, og kennir fólki hvernig það nær slíkum tökum, uppgötvar að trú hans um hans eigið líf er byggt á misskilningi og falsvonum, nákvæmlega því sem hann flúði undan þegar hann breytti um stefnu upphaflega.
Clooney leikur Ryan Bingham, afar orðheppinn og vel gefinn einstakling sem hefur atvinnu af því að segja upp fólki. Markmið fyrirtækis hans er að selja þjónustu. Markmið hans er að sinna starfi sínu það vel að þeim sem sagt verður upp finni ný tækifæri í uppsögninni. Og þá erum við ekki að tala um gamlan frasa, heldur leggur hann sig fram við að skoða starfsferil fólks og les þannig í ferlana að honum tekst að grafa upp gamla drauma þeirra sem missa starfið, og finna að líf þeirra þarf ekki að vera bundið einu fyrirtæki alla ævi.
Heimspeki Clooney er einföld. Ef þú þarft á einhverju fleiru að halda en því sem þú kemur ofan í bakpoka, þá ertu orðinn að einhvers konar þræl. Þetta á við um bæði hluti og manneskjur. Myndin fjallar um hvað gerist ef þú hugsar um manneskjur eins og hluti, og þá uppgötvun að sama spekin á ekki við um fjölskyldu þína og eigur þínar.
Það merkilegasta við þessa mynd er hvernig hún grípur augnablik í lífi manns sem telur sig hafa mótað pottþétta lífsspeki, er það viss um að hann hafi rétt fyrir sér að hann tekur þátt í að móta heilar kynslóðir í samræmi við þessa speki, og hvað hann gerir þegar rennur upp fyrir honum að spekin hans ristir grunnt og hefur í raun ekkert með lífið að gera, heldur fyrst og fremst hhvernig fólk vinnur.
Hugsaðu þér manneskju sem lifir fyrir starf sitt og hefur að starfi að segja upp fólki. Er ekki mótsögn í þessari setningu sem áhugavert er að rannsaka?
"Up In The Air" fjallar ekki bara um Clooney, heldur tekur á mjög merkilegri spurningu um tengsl samskiptatækninnar og mannlegra samskipta. Spurningin er hvort að tölvusamskipti geti komið í staðinn fyrir mannlega nærveru.
Í staðinn fyrir að ferðast um heiminn, er nóg að photoshoppa sig inn í ólík umhverfi? Er hægt að kerfisbinda mannleg samskipti? Hvaða munur er á að sitja í sama herbergi og manneskjan sem þú ræðir við um viðkvæm málefni, og að sitja í næsta herbergi með samskipti gegnum tölvuskjá?
Þetta gerir kvikmyndin vel. Afar vel.
Hún sýnir hvernig tilhneiging okkar til að kerfisbinda hið mannlega, gerir okkur ómanneskjulegri og í raun að verra fólki, þó svo að við séum hugsanlega fluggáfuð og vel meinandi. Þetta er viðeigandi pæling fyrir fjarnám og rafræna kennslu, þar sem stóra spurningin er:
Getur hugbúnaður nokkurn tíma leyst af manneskju sem væri á staðnum? Geta samskipti í gegnum tölvu nokkurn tíma komið í stað manneskju sem er á staðnum?
Þetta er eins og með misskilninginn í upphafi myndar, þetta með dósina. Hefðu þessi samskipti átt sér stað í gegnum tölvu er spurning hvort að flugfreyjan hefði getað sýnt farþeganum dósina. Nálægð skiptir máli.
Ekki nóg með að myndin fjalli um allt þetta, heldur líka um það limbó sem það er að missa vinnuna. Hvernig lifirðu áfram í sátt eftir uppsagnabréfið ógurlega? Persóna George Clooney er í raun stödd þarna í þessu limbó; alltaf á milli vinnustaða og hvergi rótföst, en það er þessi rótfesta sem margir þrá og aðrir hræðast.
Afar góðar pælingar og ég verð að viðurkenna að George Clooney og þessi mynd eiga skilið að fá fullt af óskarstilnefningum, þrátt fyrir að ég geti varla talist mikill Clooney aðdáandi, þar sem að hann rústaði Batman í "Batman & Robin". Það eru reyndar liðin 13 ár síðan. Ætli maður geti ekki farið að fyrirgefa manninum.
Aðrir leikarar koma við sögu, en allir í smærri hlutverkum. Þetta er fyrst og fremst mynd Clooney og Jason Reitman, sem leikstýrði einnig hinum ágætu "Juno" og "Thank You For Smoking". hann er sonur Ivan Reitman, sem var um tíma afar vinsæll og leikstýrði meðal annars hinum skemmtilegu grínmyndum "Ghostbusters" og "Twins".