Árásin á Marinó: Viljum við búa við þægilegt ranglæti frekar en óþægilegt réttlæti?

Bankar rændir innanfrá. Afleiðingin flókin: þeir komust undan með allt ránsféð og skildu bankana eftir sem rjúkandi rúst. Misvitrir ráðamenn hymdu yfir glæpinn og létu eins og ekkert hafði gerst með því að tryggja innistöðu á öllum reikningum bankanna. Þetta þýddi að þeir fáu sem áttu marga milljarða inni á reikningum fengu þennan pening tryggðan. Þar sem bankarnir voru gjaldþrota þurfti að finna pening til að borga þessum einstaklingum og stofnunum til baka, og ekki bara það, heldur með vöxtum, enda voru þetta verðtryggðir reikningar.

Þjóðin hefur þurft að borga þennan reikning. Flestir þegnar landsins hafa þegar kynnst hækkandi sköttum og verðlagi, minni tækifærum til atvinnu,  tapað peningum; en engir jafn miklu og þeir sem fjárfestu í húsnæði fyrir sjálfa sig og fjölskyldu sína og tóku lán til að fjármagna kaupin. Það segir sig sjálft að fólk sem fjárfestir í húsnæði gerir það yfirleitt að vel íhuguðu máli, fer í greiðslumat og veit að það þarf að vinna af heilindum til að endar nái saman, jafnvel í einhverja áratugi, og þetta fólk ætlaði sér að gera það.

En síðan kemur í ljós að helsta leiðin til að borga reikningshöfum til baka er með því að hækka þessi húsnæðislán og höfuðstóla þeirra - stökkbreyta þeim - og hverjum hugsandi manni er ljóst hversu ósanngjarnt er að þessi hópur fólks, sem hefur tekið lán fyrir húsnæði, er fólkið sem þarf að standa undir tryggum greiðslum og vöxtum á bankareikninga.  Því miður virðist ekki nógu mikið af hugsandi fólki á Íslandi.

Marinó G. Njálsson áttaði sig strax á þessu ranglæti og tók þátt í stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna, félagasamtökum sem spruttu upp úr þessari þörf, félagasamtökum sem hafa engan rekstrargrundvöll annan en málefnið, enda stunda stjórnarmenn störf sín í sjálfboðaliðsvinnu. Þeir eru ekki að fá laun eins og "andstæðingar" þeirra: þingmenn, forstjórar lífeyrissjóða, verkalýðs(ekki)leiðtogar, útrásarvíkingar og fleiri.

Marinó hefur ekki lagst á hnén, heldur staðið traustur í báðar fætur með góðan félagsskap sem bakland og bogað í burtu af elju og réttsýni bæði þeirri þoku sem stjórnvöld hafa stöðugt kallað fram til að blinda þegna þessa lands. Hann hefur gert þetta með gagnrýnni hugsun. Spurt þegar hlutir eru óljósir. Kannað heimildir. Hugsað. Reiknað út. Og síðast en ekki síst skrifað og tjáð sig um niðurstöður sínar.

Nú er ráðist á fjölskyldu hans og árásin réttlætt með því að segja hann opinbera persónu. Eru semsagt allir þeir sem tjá sig á bloggi og tekið er viðtal við í fjölmiðlum allt í einu opinberar persónur og fjölskyldur þeirra orðnar að réttmætu skotmarki? Verðurðu opinber persóna ef þú skráir þig í félagasamtök sem berst fyrir sameiginlegu markmiði? Er ekki nóg að Marinó hefur skýrt á eigin bloggi hver hans eigin staða er? Þarf virkilega að ráðast gegn eiginkonu hans og börnum líka?

Það var rétt hjá Marinó að skrá sig úr Hagsmunasamtökum heimilanna til að verja eigin fjölskyldu, enda sýnir það þann þrýsting sem heiðarleg vinnubrögð verða fyrir þegar ranglæti er blessað af stjórnvöldum í samfélaginu. Það sýnir líka að hann markmið hans og viðmið hafa ekki breyst.

Athugið að þetta er maður sem fær ekki eina einustu krónu fyrir vinnu sína. Hann er að berjast til að vernda heimili sitt og fjölskyldu, og í leiðinni öll þau heimili og fjölskyldur sem lent hafa í sama ranglæti eftir hrun; og aðeins skynjað skilningsleysi frá flestum þeim sem ekki eru í sams konar stöðu, fólkinu sem þegar hefur greitt sín háu laun og laust er úr klóm slíkra fjárfestinga - sem einkennir að sjálfsögðu flesta þá sem standa gegn þeim hugmyndum að finna réttláta lausn og lagfæra ranglætið - þar sem að slíkar lausnir geta komið þeim sjálfum í vanda. 

Hugsaðu þér gildismatið: frekar að verja eigin hag umfram hag heildarinnar og láta eins og þessi fórnarlömb hrunsins eigi þetta skilið, og jafnvel að þau séu ekki til. Það er ljóst að verði ranglætið leiðrétt mun það kosta þjóðina mikið, en það þýðir líka að fólk horfist í augu við það sem þurfi að gera til að reka réttlátt samfélag. Það verður hins vegar margfalt dýrara að láta ranglæti líðast.

Viljum við búa við þægilegt ranglæti frekar en óþægilegt réttlæti?


Bloggfærslur 19. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband