Er fátækt sjálfsagður hlutur?

Í mínum huga hefur Ísland fyrir sýndargóðæristímann alltaf notið ákveðinnar sérstöðu. Þá var Ísland land þar sem fátækt var í lágmarki og ríkidæmi ekki jafn öfgafullt og í dag. Eftir góðæri hefur ríkidæmi fárra aukist gífurlega og fátækt fjöldans stækkað hratt og er enn að stækka. Margt ríkidæmið hefur einnig reynst orðið til með sýndarmennsku og kerfisbundnum svikamyllum, og er kostnaðurinn hefur þegar étið margar fjölskyldur og byrjað að narta í aðrar.

Þetta er ekki eðlilegt.

Víða um heim verður mikill fjöldi fólks undir í samfélögum, verða fátækir og eiga um sárt að binda. Rísa þá gjarnan upp trúarbrögð sem hjálpa þeim þjáðu að sætta sig við lífsins táradal. Kapphlaupið um lífsgæðin snýst um að lenda ekki í undirmálshópnum, sem þræll fyrir hinar æðru stéttir auðmanna, og komast frekar í hópinn þar sem hinir vinna fyrir þig.

Mér þætti áhugavert að vera fluga á vegg hjá ráðgjöfum AGS og jafnvel skimast inn í viðhorf þeirra um hvernig þjóðfélög ættu að vera þegar málið snýr að fátækt. Einnig þætti mér áhugavert að heyra hvað stjórnmálamenn, þingmenn og fólk almennt hugsar þegar kemur að þessu máli.

Finnst okkur fátækt sjálfsagður hlutur, eitthvað sem einkennir hvert einasta samfélag, nánast nauðsynlegur hluti þess að lifa í þessum heimi? Finnst okkur fátækt bara allt í lagi? Erum við meðvituð um hvað hinir ríku, þeir sem völdin hafa, fá gífurlega mikil aukin völd og auð þegar fátæktin breiðir úr sér? Erum við meðvituð um að fátækt er val samfélagsins, að hægt er að komast hjá slíkum vanda með samstöðu? Erum við meðvituð um að slík samstaða verður alltaf úthrópuð af þeim sem telja veldi sínu ógnað?

Þetta viðhorf. Þessi trú. Að fátækt sé bara veruleiki. Sú trú virðist óhagganlegri en kirkjan.

Deilum við þessari trú? Viljum við samfélag þar sem ákveðinn hópur fólks er dæmdur frá fæðingu til dauða, nema með einstaka undantekningum, til fátæktar, undirgefni og lífs án raunverulegra tækifæra?

Meta mætti gildisgapið á milli ráðgjafavalds AGS og íslensku þjóðarinnar, því mig grunar að þessir ráðgjafar lifi í heimi þar sem fátækt þykir sjálfsagður hlutur - einfaldlega kostnaður vegna uppbyggingar, en slíkt viðhorf hef ég ekki sjálfur.

Neyð eins hluta samfélags á kostnað annars hluta hins litla Íslands er ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við.


Bloggfærslur 8. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband