Hvar er auðmýktin?

Á mánudaginn var fylgdist ég dolfallinn með mótmælum á Austurvelli gegnum Netið frá Noregi. Á einum skjá sést brenna á Austurvelli og fólk tromma á tunnur. Víggirðing hefur verið reist umhverfis Alþingi og ræðurnar sýndar beint.

Það lítur út eins og ræðumenn séu staddir innan í gríðarstórri tómri tunnu, sem verið er að berja utanfrá. En enginn bumbusláttur heyrist, aðeins innantómar ræður, tómari en nokkur tunna - og ég get ekki annað en hugsað með mér hversu hátt bylur í þeim tómu.

Átta til tíuþúsund manns stóðu fyrir utan Alþingi og öskruðu eins og hungrað barn sem ekki getur tjáð sig öðruvísi. Íslenska þjóðin er barn. Móðir þess og faðir hefur yfirgefið hana. Skilið hana eftir. Þegar venjulegt fólk notar tungumál og reynir að tjá sig í rólegheitum, er ekki hlustað. Þetta fólk þykir kannski ekki nógu merkilegt til að ná eyrum hinna háttvirtu. 

Og ég velti fyrir mér hvað getur náð þessum háttvirtu eyrum. Út frá ræðunum að dæma, ósköp fátt. Það þarf að berja á hinum háttvirtu hlustum til að þær hlusti. Enginn af þeim sem ræður, stjórnar, drottnar eða sér sig sem lítinn guð talar beint til fólksins sem stendur úti í kuldanum og skapar hávaða. Nei. Höfðingjarnir fela sig á bakvið þykka múra, lögregluvegg og sérhannaðan mótmælavegg, og þeir voga sér ekki að tala við þá sem vilja það eitt að á þá sé hlustað, tekið mark, að unnið sé saman að markmiðum og lausnum. Er beðið um of mikið?

Ég velti þessu fyrir mér. Hvað ef Jóhanna eða Steingrímur og flestöll hin hefðu sleppt því að halda sínar innantómu ræður og þess í stað vogað sér að opna svaladyrnar, gengið fram á svalir, veifað og sýnt að þau hafi áhuga á að hlusta á fólkið? Hefðu þau fengið í sig egg eða flösku? Eða hefði slík athöfn verið túlkuð sem hugrekki af fjöldanum og ráðamönnum hugsanlega tekist að vinna sér inn vott af virðingu á ný? Það fáum við aldrei að vita því tækifærið rann þeim úr greipum.

Ég velti fyrir mér auðmýktinni. Hvernig hún virðist hverfa úr hjarta stjórnmálamannsins, rétt eftir að hann eða hún lýsir yfir auðmjúku þakklæti eftir kosningar. Kannski auðmýkt sé bara einnota græja notuð á tyllidögum?

Að lokum, eitt af þeim lögmálum sem ég reyni að fylgja hvern einasta dag í mínu lífi:

Vitræn auðmýkt: Að vera meðvitaður um takmarkanir eigin þekkingar, þar með talið tilfinningu fyrir aðstæðum þar sem manns eigin sjálfhverfa er líkleg til að blekkja mann sjálfan; tilfinningu fyrir hlutdrægni, fordómum og takmörkunum eigin sjónarhorns. Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Hún er ekki merki um hugleysi eða þrælslund. Hún hefur í för með sér skort á vitrænni tilgerð, stolti eða svikulli lund, og styrkir innsæi í rökrænar undirstöður eigin skoðana, eða skort á slíkum undirstöðum. (Foundation for Critical Thinking)


Bloggfærslur 6. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband