Er Ísland gjaldþrota?

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Það er ekkert réttlæti í því að heiðarlegt og duglegt fólk sitji tjóðrað í skuldafangelsi vegna stórtæks bankaráns og þátttöku eigenda, starfsmanna og ríkisvalds í ráninu, auk ribbalda sem nú vilja ráðast inn á heimilin í laganna nafni.

Þetta rán var orsök þess að gjaldeyrisforsendur brustu, ástæða þess að verðbólgan rauk upp, ástæða þess að verðtryggð jafnt sem gjaldeyrislán eru stjórnlaus.

Ránsfengnum var dreift til fárra hópa, í leyni. Sumir komu honum úr landi. Snúið var upp á reglur og með blekkingum varð hinu dýpsta ranglæti snúið upp í réttinn fyrir fáa til að eignast allar eigur þeirra sem minna mega sín. Varið af heilögum einkarétti. Minnir á rannsóknarrétt miðalda.

Nú grætur þjóðin beiskum tárum. Fólk sér vini, kunningja og ættingja í vandræðum. Venjulegt fólk. Sumir eiga varla fyrir mat. Fjölskylda og vinir redda þeim kannski í bili. Hversu lengi? Sumir eru fluttir úr landi - þetta eru oftast feður og mæður, synir og dætur, sjaldnar afar og ömmur. Sumar fjölskyldur eru sundraðar. Sum börn hafa ekki séð eigið foreldri svo mánuðum skiptir. Hvers eiga þessi börn að gjalda?

Fólk hefur verið rænt. Það hefur verið vaðið inn á heimili þeirra, þau bundin og kefluð, öllum þeirra eigum sópað í stóra svarta plastpoka og sent heim til kröfuhafa sem síðan kíkja gegnum þessar persónulegu eigur og brenna þær á báli, til að hlýja sér og gleðja sínar myrku sálir í neistafluginu.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Réttlætið felst í að leyfa réttlátu fólki að lifa í friði, í friði frá áreiti vegna skulda sem það vill greiða en getur það ekki vegna þess að skuldirnar margfölduðust umfram greiðslugetu. Þetta fólk þarf annað tækifæri. Þjóðin getur gefið þessu fólki annað tækifæri. En þjóðin vill það ekki. 

Réttlætið er dýrt og óþægilegt fyrir þá sem þurfa ekki á því að halda, fólki sem finnst það hafa sloppið vel, fólki sem heldur að skuldavandinn sé aðeins vandi fólks sem tók heimskulega áhættu, eins og að kaupa sér íbúð frekar en að leigja, kaupa sér bíl frekar en að hjóla eða fara með strætó. Það gleymist hratt að þetta fólk hefur verið rænt. Margir aleigu sinni. Og þegar þeir sem nóg eiga úthrópa fórnarlömb þessara glæpa sýna þeir hinir sömu ekkert annað en tómar sálir sem ekkert getur fyllt annað en neistaflug brennandi heimila.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.


Bloggfærslur 14. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband