Af hverju kasta mótmælendur eggjum í þingmenn?
1.10.2010 | 18:51
Fólki finnst það svikið.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda eftir að fyrri ríkisstjórn var hrint úr valdastól. Nýja ríkisstjórnin lofaði öllu fögru en hefur reynst copy/paste fyrri ríkisstjórnar og hjakkar í nákvæmlega sama farinu.
Fólk er að tapa heimilum sínum. Ég veit ekki hvort satt sé að verið sé að bera út heilu fjölskyldurnar, en sú breyting hefur þó orðið á högum fólks að það býr ekki lengur við það öryggi að eiga heimili sitt, og getur aðeins leigt húsnæði tímabundið. Leigt húsnæði er tímabundin lausn. Það þekkja allir sem leigja. Við finnum djúpt öryggi í því að eiga okkar eigin húsnæði og vita að þaðan verðum við ekki hrakin af einhverjum öðrum eiganda.
Hæfileikaríkt ungt fólk hefur horfið af landi brott og leitað sér leiða á erlendri grundu. Ég veit ekki hversu margir hafa horfið frá Íslandi með þessum hætti frá 6. október 2008, en reikna með að þeir skipti þúsundum. Þetta fólk hverfur af atvinnuleysisskrá þegar það tekur sér búsetu annars staðar, og virðist gleymast, eins og það sé ekki lengur til.
Fólk er reitt vegna landsdómsmálsins. Ekki vegna þess að Geir var ákærður, heldur vegna þess að þingið setti upp skjaldborg um sjálft sig um leið og því var ógnað, skjaldborg sem heimilum var fyrir löngu lofað, en reynst hefur innantómur frasi einhverra kviðlinga úr Samfylkingunni.
Þar sem ég bý og starfa í dag er mest lögð áhersla á tvennt: að fólk framkvæmi í samræmi við orð sín, og allt sé gert til að vernda fólk og umhverfi frá allri hugsanlegri hættu. Mér líður vel í slíku samfélagi. Mér þykir leitt að slíkt samfélag virðist ekki fyrirfinnast á Íslandi.
Það er móðgandi og særandi þegar maður hefur verið sannfærður um að treysta manneskju sem segist ætla að leggja á sig ferð til helvítis og aftur heim til að hjálpa þér út úr vandræðum þínum, að í ljós kemur að þessi manneskja hefur lagst upp í sófa heima hjá sér og leyst krossgátur í stað þess að það sem hún lofaði að gera. Að kasta eggi í slíka manneskju, sérstaklega ef hún virðir þig ekki viðlits eftir að þú hefur borgað henni með atkvæði þínu, virðist væg hefnd.
Að sjálfsögðu er hægt að gera lítið úr slíkum mótmælum, segja að þetta sé bara fólk sem hefur einhverja ákveðna skoðun og megi alveg hafa sína skoðun fyrir sig, það sé bara þeirra mál, það má segja að þetta fólk sé skiljanlega uppfullt af reiði og að það megi alveg tjá þessa reiði, en að reiðin sé út í marga ólíka hluti, en ekki sameiginlegan málstað.
Málstaðurinn er sameiginlegur.
Fólk er reitt út í spillingu og svik ráðamanna. Það reiðist þegar engin virðing er borin fyrir þeim. Það reiðist þegar ráðamenn svíkja orð sín. Það reiðist þegar ráðamenn sína vanhæfni. Það reiðist þegar spillingin grasserar sem aldrei fyrr. Það reiðist þegar réttlætiskröfu almennings er hafnað með skrípalátum.
Íslendingar eru búnir að fá upp í kok af spillingu. Spillingin sem slík er erfið viðureignar því hún er yfirleitt ósýnileg. Þingmönnum hefur tekist á síðustu dögum að gera spillinguna sýnilega og sjálfa sig að skotmörkum. Það þýðir lítið að kasta í þeim orðum, því fáir þeirra hlusta og skilja að heimurinn er stærri en það þrönga egg sem þeir búa sjálfir í.
Kannski er eggjum kastað á táknrænan hátt til að brjóta skurnina sem virðist hylja þetta furðulega fólk sem virðist lítið annað gera en gaspra skilningslaust í pontu og fyrir framan myndavélar, en geta ekki stigið fram fyrir múginn og spurt einfaldlega: "hvernig get ég orðið að liði?"
Þetta á þó ekki við um þau öll, en tilhneiging fjöldans er að dæma heild fyrir hluta, sérstaklega ef hlutinn kemst upp með ranglæti, og er varinn af meirihluta heildarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)