Hvað er Hr. Ólafur Ragnar eiginlega að hugsa?

Það er hárrétt hjá Ólafi Ragnari að taka sér umhugsunartíma, en það er ómögulegt að segja til um hver ákvörðun hans verður, hann veit það sjálfsagt ekki sjálfur; til þess er umhugsunartíminn. Eftir mín afar stuttu kynni við hann trúi ég að hann vilji þjóðinni það besta, sé heiðursmaður, og sé ekki í vinsældaleit. Ég vona að hann sé af heilindum að leita farsælla leiða um málalyktir eftir höfnun þessa máls, því að stjórnarslit með öðru stjórnarmynstri mun ekki skila neinu öðru en þrátefli.

Hann virðist í það minnsta vera að gera nákvæmlega það sem ég hefði gert í hans sporum, og ég er tilbúinn að gefa honum tækifæri til að rannsaka málið, þó að slík völd séu reyndar ekki á mínu færi, og taka afstöðu með almannaheill að viðmiði. Það er vandasamt að leysa þetta mál svo að vel verði, og ef tekst að koma á tímabundinni þjóðstjórn virtra einstaklinga, er slagurinn engan veginn unninn, og það engin silfurkúla sem leysir allan vanda, en það hlýtur að vera skref í rétta átt að gefa stjórnmálahreyfingunum tímabundið frí frá störfum, því að í augnablikinu eru þær vita gagnslausar, eins og reyndar alltaf, þó að að þær séu sjálfsagt nauðsynlegar fyrir tilfinningu fólks um stöðugleika. Stjórnmálahreyfingar eru hins vegar vita gagnslausar þegar kemur að því að leysa vandamál á neyðartímum. Það er bara í eðli þeirra. Ekkert við frambjóðendur eða fulltrúa að sakast. Þeir ráða ekkert við þetta kerfisbákn frekar en aðrir, og verða að leika sín hlutverk.

Það er bara á jafnvægistímum sem stjórnmál eiga að komast upp með eigið gagnsleysi, og þá mættu vera skýr skil á milli Ríkisstjórnar sem fer með framkvæmdavald, og Alþingis sem fer með löggjafavald, en ekki hafa þetta allt í einum hrærigraut þar sem ein höndin er upp á móti annarri.

Stjórnarliðar virðast trúa því staðfast að ICESAVE lögin eins og þau eru séu ekki bara ásættanleg, heldur góð, einfaldlega vegna þess að þau gætu verið miklu verri. Stjórnarandstæðingar sjá að þessir samningar gætu verið miklu betri. Svona eru stjórnmál. Hrærigrautur.

Það sem helst er hægt að gagnrýna eru vinnubrögð ríkisstjórnar, að senda mann til samninga sem virðist ekki verkinu hæfur, og reyna síðan af sannfæringarkrafti að festa þennan samning sem lög, og auk þess standa ekki við eigin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna mikilvægra mála, og reyna síðan að þvinga samningum í gegn þrátt fyrir skýran vilja gegn því, eins og ofvirkur sölumaður sem þú hefur boðið inn á heimili þitt.

Himnarnir hrynja ekki, hvort sem málinu verður hafnað eða það samþykkt, svo framarlega sem að fólk lagfæri eigin vinnubrögð, sýni viðsemjendum að vilji er til að ná fram réttlæti og að réttlæti snúist ekki bara um peningagreiðslur sem rangt fólk á að greiða, og hætti svo að snúa öllu upp í pólitískar deilur.

Öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir, en það er eins og harðsvíraður flokkur veiðiþjófa hafi flogið yfir í þyrlu og dritað á dýrin með vélbyssukjöftum og eldsprengjum. Síðan fljúga veiðiþjófarnir burt og ætlast er til að dýrin verði sátt með því að laga umhverfið og hjúkra hinum sáru, í stað þess að koma í veg fyrir að sömu hlutir gerist aftur.

Það eru ýmis merki á lofti um að ekkert hafi breyst í viðskiptaumhverfinu, og ef það er satt, af hverju ætti þjóðin þá að borga, þegar sams konar vitleysa gæti endurtekið sig aftur, og aftur? Það verður að stoppa þá einstaklinga sem réðust gegn þjóðinni, og sýna fólki sem er í sams konar þankagangi að það komist ekki upp með að gera þjóð sína gjaldþrota að kostnaðarlausu, þó að þeir hafi gert það af gáleysi eða til skemmtunar, en það er einfaldlega svo gaman að telja sig eiga billjón trilljónir.

 

Mér þætti vænt um að fá athugasemdir við þessum pælingum, en ekki búast við að ég snúist á þína skoðun án þess að hugsa mig um og velta rökum þínum fyrir mér.


Bloggfærslur 4. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband