Hver er kjarninn í þessu óskemmtilega ICESAVE máli?
3.1.2010 | 15:30
Í samantekt:
- Neyðarlög voru sett sem tryggðu allar íslenskar innistæður í bönkum. Ranglát aðgerð, en annars hefði allt orðið vitlaust.
- Erlendir aðilar kröfðust sömu tryggingar - sem þýddi meðal annars að endurgreiða þyrftir innistæður í ICESAVE útibúi Landsbankans, sem hafði verið skilið eftir í algjörri óreiðu.
- Gengið var til samninga með óhæfu samningafólki.
- Þingið samþykkti ekki þessa samninga án fyrirvera.
- Samningnum er verið að þvinga í gegn.
- InDefense og rúmlega 60.000 skrifa undir undirskriftarsöfnun sem afhent er forseta.
- Hann gefur sér góðan tíma til að hugsa sig um.
Af meiri nákvæmni:
1. Vafasamir viðskiptahættir urðu íslensku bönkunum að falli.
2. Þegar bankarnir féllu óttuðust innistæðueigendur um peninginn sinn.
3. Ríkisstjórn Íslands lofaði íslenskum innistæðieigendum að þeir myndu ekki tapa innistæðum sínum.
4. Ein af hliðarverkunum þessarar ákvörðunar var að gengið féll og verðbólgan jókst, þannig að skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja uxu hratt.
5. Þegar erlendir innistæðueigendur sáu fram á að íslenska ríkisstjórnin hafði eytt öllum sínum peningi í að borga íslenskum innistæðueigendum peninginn sinn til baka, og fengu ekki einu sinni lágmarkstryggingu á eignum sínum endurgreidda, reiddust þeir ógurlega, höfðu áhrif á eigin ríki - sem ákváðu að styðja við bakið á sínu fólki, og krafðist þess að íslenska Ríkið borgaði hluta, enda virðist enginn hafa áttað sig á því að þessi íslensku einkabankar voru ekki reknir af þjóðinni, né með starfsháttum sem réttlætanlegir væru fyrir ríkisbanka. Flestum virðist sama um þetta smáatriði.
6. Íslenska ríkið ákvað að taka á sig eitthvað af þessum skuldum einkafyrirtækjanna og sendu því sendiherra einn og gamlan vin forsætisráðherra til að semja við útlendingana.
7. Kom sendiherrann með hræðilegan samning til baka, sem af fjármálaráðherra var dásamaður.
8. Samningurinn var samþykktur af Alþingi, en með fyrirvörum, og "fyrirvarar" þýðir að samningurinn sé einungis samþykktur ef gengið er að ákveðnum skilmálum.
9. Fyrirvörunum var hafnað af Bretum og Hollendingum.
10. Þá var ákveðið að þvinga samningnum til samþykktar í þinginu. Stjórnarandstæðan hélt málþóf þar sem hún var ósátt við að þvinga átti málið í gegn með aflsmunum. Stjórnin var ekki tilbúin að rökstyðja sitt mál frekar og ætlaði einfaldlega að þvinga málinu í gegn. Blöskrar almenningi slík vinnubrögð. Þess má geta að í kosningaloforðum bæði VG og Samfylkingar er kveðið á um að stefna á beinna lýðræði, þar sem þjóðin gæti tekið ákvarðanir í málum sem varða þjóðarhag, en af einhverjum annarlegum ástæðum á það ekki að eiga við í þessu máli.
11. Málinu var þvingað í gegn með minnsta mun.
12. Á meðan allt þetta hafði gerjast og þegnum blöskrað, ákvað InDefense hópurinn að safna saman undirskriftum ætluðum að hafna því algjörlega að íslenskir þegnar þyrftu að borga fyrir glæpi fámenns hóps, sem stendur enn í dag með pálmann í höndunum, á sama tíma og fjölskyldur eru að leysast upp, flytja af landi, og sumir tekið eigin líf vegna þeirra vandamála sem sprottið hafa upp vegna svindls og svínarís. Þessi fámenni hópur heldur uppteknum hætti á meðan réttlætiskennd fólks segir að þeir ættu að sitja bakvið lás og slá.
13. Forseti Íslands, hefur á elleftu stund reynst síðasta vonarglæta Íslendinga um réttlæti, að almenningur Íslands verði ekki þvingaður til að taka á sig að borga til baka ránsfé sem hann stal aldrei upphaflega.
14. Nú eru spunameistarar að telja fólki trú um að þetta mál sé eitthvað flókið, eða að þegar sé búið að samþykkja að borga; en það er bara ekki rétt. Málið er að fyrirvararnir með fyrsta samningnum þýða einfaldlega að ef fyrirvararnir verða ekki samþykktir, verður samningurinn heldur ekki samþykktur. Fyrirvararnir voru ekki samþykktir, en samt var reynt að troða samningnum í gegn, gegn vilja þeirra sem kröfðust fyrirvaranna.
15. Hræðslurök eru notuð til að knýja samningnum í gegn, og mikið talað um að himnarnir hrynji eða eitthvað sem maður getur ekki ímyndað sér eða sé tilbúinn að færa í orð muni gerast ef samningnum verði hafnað. Sannleikurinn er líklega mun einfaldari. Ef samningnum er hafnað, hefur trúverðugleika fjármálaráðherra og sendimanns hans í samninganefnd einfaldlega verið hafnað, og semja verður upp á nýtt. Það er örugglega pirrandi fyrir stjórn sem vill halda völdum og halda stjórnarandstöðu frá völdum, og gerir þeim örugglega erfitt fyrir. En að allt muni fara til fjandans bara vegna þess að við viljum ekki samþykkja ómögulegan samning er hrein fjarstæða.
Það er enn tími til að breyta rétt, og óskað er eftir því að forseti lýðveldisins nýti neitunarvald sitt og geri þjóðinni fært að taka ákvörðun um þetta afar mikilvæga málefni.
Vonandi er þessi samantekt einföld, sönn og nákvæm.
Ef ekki er þér velkomið að leiðrétta mig í athugasemdakerfinu. Þú þarf ekki að skrá þig eða nota eigið nafn frekar en þér sýnist, en mér þykir afar áhugavert að sjá skoðanir á þeim málum sem eru mér hugleikin, og sérstaklega skoðanir sem eru andstæðar mínum og vel rökstuddar, því þá fæ ég ástæðu til að rannsaka málið af meiri dýpt, rannsaka eigin hug og velta fyrir mér hvort ég hafi hugsanlega haft rétt eða rangt fyrir mér, og að lokum fágað mínar skoðanir enn betur en fyrr.
Ég hef engin pólitísk markmið, vil einfaldlega þjóð minni vel og hef áhyggjur af þeim sem minnst mega sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Spilla völd, og spilla algjör völd algjörlega?
3.1.2010 | 10:12
Hugsanir um hræsni, svik og spillingu blossa upp þegar maður ber saman loforð VG og Samfylkingar við veruleikann; ICESAVE málið. Blossar þetta upp við lestur á frétt Eyjunnar VG fyrir kosningar: 15-20% gætu knúið fram þjóðaratkvæði. Nú flestir andvígir eigin stefnu
Af hverju þjóðinni er ekki treyst fyrir jafn erfiðu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu er mér hulin ráðgáta, enda innbyggt í grundvallarloforð VG og Samfylkingar að fara með mikilvæg mál fyrir þjóðaratkvæði.
Þú getur smellt á fyrirsagnirnar til að lesa stefnuskrá flokkanna af þeirra eigin vefsíðum:
LOFORÐIN:
Kosningaáherslur VG, Vegur til framtíðar
"Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga."
Kosningaáherslur Samfylkingar, Umbætur á stjórnkerfi og ný stjórnarskrá:
Milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins.
- Tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Minnihluti þingmanna, t.d. 30 % þingmanna, getur kallað eftir þjóðaratkvæði um samþykkt lög áður en forseti hefur staðfest þau.
- Reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.
VERULEIKINN
Stjórnarflokkarnir hafna að setja ICESAVE málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan sú að þetta þyki of flókið og erfitt mál til þess. Einnig harma forystumenn að þannig sé veruleikinn.
Ekki hefur þó verið útskýrt af hverju þetta er svona flókið og erfitt mál.
Voru kannski Landsbankinn, Glitnir og/eða Kaupþing í eigu hryðjuverkamanna eða alþjóðlegra glæpasamtaka, og með neyðarlögunum þjóðin öll gerð samsek að slíkri glæpastarfsemi?
Mér þætti vænt um ef þú tækir þér nokkrar sekúndur til að skrifa athugasemd við þessa grein. Þú þarft ekki að skrifa undir með eigin nafni né skrá þig sérstaklega til að láta heyra hvað þér finnst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)