Er ICESAVE málið að tapast vegna þreytu?
12.1.2010 | 13:50
Faðir minn gaf mér það ágæta ráð að mikilvægt sé að bera hæfilega virðingu fyrir andstæðingnum, hvorki of mikla sé hann sterkur, né of litla sé hann veikur. Maður eigi ekki að hreykja sér yfir eigin sigrum, né kenna öðrum um eigin ósigra og læra af þeim. Þetta ráð hefur lengi verið kjarninn í minni tilraun til visku um heiminn.
Ég hef lent á móti andstæðingi í hraðskák sem hefur ekki trúað að hann gæti unnið mig. Hann orðaði oft þessa skoðun bæði fyrir og eftir skákir. Hann sagðist ekki eiga séns gegn svona "hákörlum". Ég held að honum hafi þó loks tekist að vinna eina af um 100 skákum sem við tefldum. Þrátt fyrir að fá upp ágætar stöður, hristi hann hausinn mæðulega, lék með uppgjafarsvip leikjum sem áttu alls ekki við í viðkomandi stöðu, tókst að auka eigin vanda og tapa upp á eigið sjálfdæmi.
Hvað eftir annað leikur hún alvarlega af sér, eins og hún telji mótið fyrirfram tapað, þar sem að eftir byrjunina var staðan næstum töpuð, en hún sér ekki möguleikana í miðtaflinu og virðist ætla að fella eigin kóng áður en að endataflinu kemur.
Ríkisstjórn Íslands í dag minnir mig á slíka taflmennsku. Mig grunar að þessi ríkisstjórn sé ekkert endilega huglaus, mig grunar að hún sé einfaldlega dauðþreytt, en þingmann hafa vart unnt sér hvíldar í heilt ár. Stjórnin vill bara klára málið sama hvað það kostar, eins og unglingur sem vill ekki vakna á köldum morgni og fara í skólann vegna þess að svefninn er svo miklu þægilegri.
Einnig kannast ég við úr skákinni hversu erfitt getur verið að snúa eigin trú um að maður sé einfaldlega ekki jafn sterkur og einhver annar, upp í þá trú að maður geti unnið hvern sem er, og farið eftir þeirri trú. Án slíkrar trúar er tilgangslaust að tefla. Slík trú gefur manni nógu mikla sjálfsvirðingu til að treysta á sjálfan sig til að vinna hvern sem er. Ég hef slíka trú. Hún hefur skilað mér árangri í stöðum sem sumir gefa, og reyndar er ég svolítið þekktur í hinum íslenska skákheimi fyrir þá þrjósku að vilja aldrei gefast upp eða semja um jafntefli, án þess að hafa fundið til öll tiltekin ráð til að klára viðkomandi stöðu. Reyndar samdi ég einu sinni stutt jafntefli við Sævar Bjarnason í lok erfiðs móts, bæði af því að staðan var jafnteflisleg, en aðallega vegna þess að ég var dauðþreyttur.
Það eru ófrávíkjanleg sannindi að sama hvað bloggarar skrifa, sama hversu hátt er slegið í potta og pönnur, sama hvað er satt og rétt, þá er það ríkisstjórn Íslands sem er að tefla skákina - bloggarar eru aðeins hugsanir sem hlustað er á og hampað þóknist þær ríkisstjórninni. Allt annað virðist látið sem vind um eyru þjóta, treyst á blinda trú um að staðan hafi verið rétt metin og ekkert gefið eftir til að víkja frá þeirri trú.
Þannig er þessi ríkisstjórn bæði eins og skákmaður sem getur ekki trúað öðru en því sem hann hefur upplifað áður, að sama sagan muni ávallt endurtaka sig og skákmaður sem er dauðþreyttur eftir erfitt mót, vill bara klára síðustu skákina, fá smá hvíld til undirbúnings fyrir næsta mót.
Þó að kunnátta, þekking og völd komi úr fortíðinni, þá kemur viska úr umhyggju fyir framtíðinni. Það væri óskandi að fólk opnaði augun og vaknaði, og hætti að leika afleikjum sem gera stöðugt stöðu þjóðarinnar verri gagnvart umheiminum, sem og stöðu þeirra sem eru í svipuðum málum og munu þurfa á góðu fordæmi að halda frá okkur. Maður þarf alltaf að hafa í huga að sigur er mögulegur, að það séu til leiðir sem maður hefur ekki sjálfur áttað sig á, og að stefnt sé að sigri; en ekki að tapi eins og ríkisstjórnin virðist gera, og telja sig vera að samþykkja jafntefli, þegar ekkert annað en sigur ætti að koma til greina.
![]() |
Torsótt sátt um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)