Hver er munurinn á rannsóknarblaðamanni og bloggara?
7.9.2009 | 06:02
Ég heiti Hrannar og er bloggari. Bloggarar eru ekki allir eins. Sumir eru nafnlausir. Aðrir hafa nafn. Ég hef nafn. Sumir skrifa upphrópanir og gera mikið grín, og sumir taka bloggið alvarlega, eins og það skipti máli. Ég tek bloggið alvarlega. Skrifa greinar um mál sem ég tel skipta máli. Reyni að átta mig á hvernig staðreyndir mála tengjast saman, og reyni að beita bæði innsæi og rökum til að skilja hvað er í gangi.
En ég er ekki rannsóknarblaðamaður. Rannsóknarblaðamenn eru skörinni hærri en bloggarar í mínum virðingarstiga. Ástæðan er einföld. Þeir leggja sig í ákveðna hættu við leit að upplýsingum. Þeir uppljóstra um hluti. Bloggara grunar kannski að maðkur sé í mysunni, en rannsóknarblaðamaðurinn finnur maðkinn, tekur mynd af honum og skrifar lýsingu um hvernig hann hagaði sér.

Nú hefur hafist skothríð að bloggurum og rannsóknarblaðamönnum úr háloftum stjórnmála, hagsmunaaðila og ríkis. Að bloggurum fyrir að skrifa margir hverjir nafnlausir um opinberar persónur, útbreiða slúðri og níð. Fyrir vikið vill Björgvin G. Sigurðsson herða viðurlög við slíkum skrifum á Netinu. Þetta er hættuleg hugmynd. Þýðir þetta að sönnunarbyrgði þurfi að fylgja öllum pælingum og grunsemdum sem skrifuð eru á netsíður? Reyndar finnst mér undarleg dæmin sem Björgvin tekur um níð gegn sér, að talað hafi verið einhvers staðar um að hann hafi verið drukkinn og við konu kenndur, og það af einhverjum nafnlausum aðila. Enginn tekur mark á slíku, fyrr en slíkt rugl er tekið alvarlega. Þá fyrst fer fólk að velta fyrir sér hvort eitthvað sé til í þessu.
Árásin á rannsóknarblaðamenn eru enn alvarlegri, en þar ræðst sjálft Fjármálaeftirlitið gegn þeim fyrir að hafa komist að upplýsingum og lekið til þjóðfélagsins um bankamál. Þessar upplýsingar hafa haft þau áhrif að fólk er hneykslað á þeirri spillingu sem virðist hafa ríkt innan bankakerfisins, og ímynd bankanna er langt frá því að vera traustvekjandi. En hvernig getur nokkrum dottið í hug að ráðast á sendiboðann? Þeir sem stjórna eiga að leita uppi vandamálin sem á þá herja innanhúss, og vera ekki hræddir við að upplýsa um þau, enda eru einu hættulegu vandamálin, vandamálin sem eru falin, koma ekki fram. Það er nefnilega ekki hægt að taka á slíkum vandamálum.

Fráfarandi forstjóri Toyota, Katsuaki Watanabe, er þekktur fyrir að viðurkenna það þegar fyrirtækið hans átti við vandamál að stríða í stað þess að fela vandamálin, og rekstur þess fyrirtækis gengur reyndar að miklu leyti út á að finna vandamál og uppljóstra þau, en alls ekki hylma yfir þeim, því þá verður ekki hægt að leysa þau.
Það ætti að heiðra rannsóknarblaðamenn fyrir að leggja á sig þá sannleiksleit sem þeir lifa fyrir, og ég fyrir mitt leyti vil þakka þeim fyrir að vinna þessi óeigingjörnu störf sem uppskera oft ekkert annað en vanþakklæti vegna skorts á þroska og visku þeirra sem hugsa aðeins um eigin hag, en hafa ekki vit til að hugsa um vit hópsins síns, bankans, samfélagsins eða alþjóðasamfélagsins, sem vissulega er stór hluti af viðskiptavinum bankanna.

Rannsóknarblaðamenn og bloggarar verða að standa saman og styðja hvert annað. Rannsóknarblaðamenn með því að grafa upp staðreyndir. Bloggarar með því að velta fyrir sér hvað þessar staðreyndir þýða. Það er sjálfsögð krafa að þessir hópar verði verndaðir gagnvart þeim sem vilja þeim mein, þeim sem standa gegn útbreiðslu þekkingar og skoðanaskipta.
Skilaboð frá Reuters um siðferði rannsóknarblaðamanna og bloggara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)