Viltu lögleiða fjölkvæni á Íslandi?
5.9.2009 | 06:10

Í gærkvöldi átti ég ansi líflegar samræður við vini mína um félagslega frjálshyggju og afleiðingar hennar. Ein kenningin sem kom upp var að frjálshyggjan muni leiða til fjölkvæni eða fjölkörlun, en þar sem að fjölskylduímyndin: karl, kona og börn, væri grunvöllur vestrænna þjóðfélaga, þá væru vestræn þjóðfélög í mikilli hættu. Athugið að þarna er verið að tala um orsakatengingu, eitthvað sem hlýtur að gerast, en ekki eitthvað sem gæti gerst.
Ein manneskja í samræðunni hélt því fram að ákveðin og vel skipulögð alþjóðleg hreyfing væri í gangi sem ynni látlaust að því að grafa undan traustum grunni vestrænna samfélaga, eins og heimspekilegur hryðjuverkahópur, og hélt því fram að fyrsta skrefið væri að gefa samkynhneigðum rétt til að ættleiða börn, þá fyrst færi skriðan í gang og engin leið væri til að koma í veg fyrir að ein stúlka giftist hópi stúlkna, eða að vinahópur myndi giftast þar sem allir svæfu saman og gætu eignast börn, eða að hið klassíska fjölkvæni þar sem einn maður tekur sér margar konur, fær sér bara nýja þegar honum finnst sú síðasta vera orðin of gömul eða þrasgjörn.

Gengi þetta eftir, væri vegið að vestræna fjölskylduhugtakinu, en vestræn samfélög hafa verið byggð á samstöðu fjölskyldunnar fyrst og fremst. Ef við hefðum ekki slíka samstöðu lengur, hvað yrði þá um börnin? Hvað yrði þá um einstaklinginn sem finnur yfirleitt merkingu með lífinu þegar hann eignast maka og með honum börn?
Mér fannst þetta áhugaverð pæling, en hef ekki mótað mér skoðun enn, og leyfi mér að fresta því að mynda mér skoðun þar til ég veit meira, þar sem mér hafði ekki einu sinni dottið það í hug fyrr. Getur verið að umburðarlyndisfasismi sé eitt af hættulegri fyrirbærum sem skotist hefur upp í vestrænum heimi, að umburðarlyndi sé gott og gilt, en ætti að hafa sín takmörk?
Þegar frjálshyggjan fer út í öfgar og ofbýður siðferði fólks, þá rís ávallt upp bylting gegn slíku. Það má rökstyðja ris nasismans, fasismans og jafnvel kommúnismans sem baráttu gegn vafasömu siðferði, en þar hefur þá ein illska skapað enn verri illsku.

Nú fór Ísland algjörlega úr böndunum í fjárhagslegri frjálshyggju. Hefur Ísland líka farið úr böndunum í félagslegri frjálshyggju? Höfum við gleymt að setja okkur sjálfum takmarkanir þar sem að ofurtrúin á sjálf okkur hefur vaxið okkur yfir höfuð? Mun kreppan hjálpa okkur að ná áttum, eða munum við sitja áfram í fyrri hugmyndafræði og hjakka í sama farinu bara vegna þess að okkur líkaði einhvern tíma þetta far sem við komumst hvort eð er ekki upp úr?
Hugmyndin er svona:
- Fyrsta skref: lögleiða sambúð samkynhneigðra
- Annað skref: lögleiða rétt samkynhneigðra til ættleiðingar barna
- Þriðja skref: þegar skref eitt og tvö eru komin, þá verður vegna jafnréttishugsjóna ekki hægt að koma í veg fyrir fleiri afbrigði af hjónaböndum, enda verður ekki lengur hægt að halda í þá skilgreiningu að hjónaband sé blessun á sambúð og barneignum karls og konu.
Ég vildi endilega deila þessu með bloggheimum, og sjá hvort að lesendur geti stutt mig til myndunar á traustum skoðunum þegar kemur að þessu málefni.
Ætli stóra spurningin sé ekki hvort rétt sé að orsakasamband sé á milli hjónabands samkynhneigða annars vegar og fjölkvænis hins vegar, og ef hvort tveggja væri leyft, hefði það alvarleg áhrif á uppbyggingu samfélagsins?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)