Trunt trunt og tröllin í bloggheimum
4.9.2009 | 09:30

Á netmáli eru tröll þeir einstaklingar sem blanda sér inn í athugasemdakerfi og ræna umræðunni, ráðast á ákveðna einstaklinga eða reyna að kveikja elda. Þeim finnst nefnilega gaman að sjá logana eftir sig. Einnig finnst sumum einfaldlega spennandi að sjá dramað sem verður til þegar fólk með gjörólíkar skoðanir, og fólk sem þolir greinilega ekki hvort annað, og væri hollast að hittast aldrei eða ræða saman, eiga samskipti sem skilja eftir sig sviðna jörð.
Ég þekki þrjár leiðir til að taka á tröllum:
- Láta þau eiga sig. Virkar best.
- Rökræða við þau. Má alltaf reyna.
- Banna þau til dæmis með því að blokkera IP tölu þeirra. Virkar oft en getur gert þau brjáluð og þú getur fengið langvarandi ofsóknir kláru tröllanna sem kunna að smeygja sér í gegnum IP tölu bann og nenna því.

Hægt er að ofsækja bloggara á margan annan hátt en með því að tröllast í athugasemdakerfi þeirra, til dæmis með því að reka þá úr vinnu, ráðast á þá með hnúum og hnefum, eyðileggja eignir þeirra, þá minnist ég helst Nornabúðarinnar, og gera ýmsan miska sem fólk þarf að upplifa fyrir skoðanir sínar. Bloggarar eru í dag eins og minnihlutahópur í samfélaginu sem á mikla hættu á að verða fordæmdur fyrir það eitt að blogga, og flokkast þar af leiðandi sem bloggari.
Ég hef heyrt samræðu sem hófst einhvern veginn svona: "Ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að blogga, það fær ekkert fyrir þetta annað en ónæði og streitu. Samt bloggar það áfram eins og fátt annað skipti máli."

Um daginn skrifaði ég greinina Af hverju eru þeir ofsóttir sem hafa skoðanir og vilja ræða málin? sem skilað hefur 76 athugasemdum, sumum afar áhugaverðum og nokkrum sem virðast vera sönnun á máli mínu í þeirri grein, að sú tilhneiging sé vissulega til staðar að sumir bloggarar séu ofsóttir, en einnig varð trölla vart sem kveiktu í mér til að skrifa þessa grein.
Niðurstaðan af þessu bloggi virðist vera eftirfarandi, þegar á við skrif um viðkvæm þjóðfélagsmál og persónur:
Í fyrsta lagi, þegar manneskja sem skrifar undir nafni og vandar sín skrif - þá gæti viðkomandi orðið fyrir einhvers konar ofsóknum, einfaldlega vegna þess að sumir einstaklingar skilja ekki mikilvægi þess að skoðanir þeirra sem eru ósammála.
Í öðru lagi, þegar manneskja skrifar undir nafni og vandar ekki sín skrif - notar kannski upphrópanir og uppnefnir einstaklinga, þá er hún afar líkleg til að skapa sér óvini - hvort sem að einstaklingar séu sammála eða ekki.

Í þriðja lagi, þegar nafnlaus bloggari vandar sín skrif, þá fær viðkomandi að halda sínu einkalífi í friði og eitthvað mark er tekið á skrifum viðkomandi, en sá hinn sami verður fyrir því að aðgengi að skrifum hans eru takmörkuð - til dæmis geta nafnlausir ekki skrifað á blog.is eða eyjan.is, annað en athugasemdir, og er ekki tekið mark á athugasemdum nema þær séu afar vel skrifaðar. Þar að auki er engin trygging til staðar fyrir því að einhver annar fari að skrifa undir sama nafni og eyðileggi þannig orðstýr hins nafnlausa.
Í fjórða lagi, þegar bloggari er nafnlaus og vandar ekki sitt blogg er einfaldlega ekki tekið mark á viðkomandi.
Nokkuð skemmtilegt myndband um hvernig taka má á veftröllum:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)