Hvað eiga Davíð Oddsson og Guð sameiginlegt?

 

 

Ég skil að fólk sé pirrað út í Davíð og Guð. Þeir eru hins vegar ekki sökudólgarnir. Það er verið að kenna þeim um það sem arftakar þeirra gerðu. Og það er einfaldlega ekki sami hluturinn.

Síðustu daga hef ég verið að skrifa greinar um sameiningarafl og stakk upp á að trúarbrögð væru slíkt afl, sem er ekki bara innbyggt í samfélög manna og þeim eðlilegt, heldur til góðs fyrir þjóðir á meðan valdið sem trúarbrögðunum sem fylgir, er ekki misnotað. Sem reyndar gerist ansi oft.

Nokkrir trúlausir bloggarar, sumir nafnlausir og aðrir með nafni, mótmæltu hástöfum og voru margir hverjir duglegir við að kalla skrif mín bull og vitleysu, einfaldlega vegna þess hugsanlega að ég hafði ekki lesið sömu kreddur og þeir, var að velta hlutunum fyrir mér á skapandi hátt, og gaf trúarbrögðum séns, eða með öðrum orðum: var á ólíkri skoðun.

Nú hefur verið tilkynnt að Davíð Oddsson verði ritstjóri Moggans, málgagni sjálfstæðismanna, og fjöldi bloggvina minna hefur í kjölfarið sent inn skilaboð um að þeir séu nú hættir á Moggablogginu og fluttir eitthvað annað. Einnig hafa margar færslur einmitt fjallað um það að viðkomandi sé að skrifa sína síðustu færslu.

Hvað er málið?

Mogginn hefur alla tíð verið málgagn sjálfstæðismanna. Rétt eins og kristni hafa verið viðfang íslensku þjóðkirkjunnar. Ég hef verið meðvitaður um þetta, og samt skrifað á Moggabloggið, þó að ég sé ekki sjálfstæðismaður. Ég samþykki samt tilvist þeirra og hef ekkert á móti því að fólk hafi ólíkar pólitískar skoðanir. Nú kemur inn maður sem allir vita hver er, og óttast að hann muni nú gera málgagnið að pólitískum pésa sem muni glata trúverðugleika sínum.

Með fullri virðingu fyrir Mogganum, þá hefur hann ekki verið trúverðugur um langa tíð, á meðan hann þykist vera pólitískt hlutlaus, starfar þannig en er það ekki.

Davíð Oddsson hefur verið gagnrýndur gífurlega fyrir að hafa verið Seðlabankastjóri og upphafsmaður nýfrjálshyggju á Íslandi, sem leiddi allt í kaldakol haustið 2008, og þjóðin er farin að finna verulega fyrir. Fólk keppist um að segja hann sekan um eitthvað misjafnt, hefur jafnvel skrifað nafn hans á kröfuspjöld og mótmælt opinberlega fyrir framan Seðlabankann. Ég mótmælti þessum mótmælum á sínum tíma í greininni Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?, og geri það enn.

Ég hef nefnilega ekki séð neina vísbendingu um að Davíð Oddsson sé sekur um eitt eða neitt. Hann hefur verið umdeildur, en deilurnar að miklu sprottnar upp vegna harðrar gagnrýni hans á starfsemi Baugs, og uppfrá því hafa Baugsmiðlar gert sitt besta til að ófrægja manninn, og tekist það ansi vel. Ég er eiginlega hissa á jafnaðargeði Davíðs, að hann skuli einfaldlega ekki brjálast, en þess í stað standa styrkur í báða fætur og í dag vonandi byrja að svara fyrir sig. Mogginn er kannski steinvarpan sem Davíð vantar til að sigrast á Golíati Baugs?

Davíð hefur gert margt gott, meðal þess er þessi umdeilda nýfrjálshyggja, en hún var einfaldlega skref í rétta átt á þeim tíma sem hún kom inn. Ég efast hins vegar um gildi einkavæðingar ýmissa stofnana og fyrirtækja í hendur misgáfaðra einstaklinga sem hugsuðu fyrst og fremst um eigin hag, frekar en þjóðarhag, en mig grunar að Davíð hafi gert þau mistök að trúa um of á hið góða í þessu fólki - að það myndi aldrei svíkja þjóð sína fyrir pening. Við vitum hvernig fór.

Um þessar mundir er afar vinsælt á Íslandi að vera á móti Davíð Oddssyni, og einnig á móti Guði. Þetta eiga þeir Davíð og Guð sameiginlegt. Þeir eiga líka það sameiginlegt að ímyndin sem fólk hefur almennt um Davíð og Guð er hugsanlega röng. Margir hverjir telja Davíð vera gjörspilltan, og aðrir að Guð sé einfaldlega ekki til. Hvort tveggja getur auðveldlega verið rangt, þar sem að ósköp auðvelt er að trúa á hvort tveggja, það er að segja að vald spillir fólki og að Davíð hafi haft mikil völd og þar af leiðandi spillst, og hins vegar að Guð sé ekki til. 

Hins vegar getur vel verið að sannleikurinn sé annar, að Davíð sé einmitt undantekningin frá reglunni um að vald spilli, og að Guð sé í raun og veru til. Kannski ekki á nákvæmlega sama hátt og við höldum, en séu samt sjálfstæður veruleiki óháðir þekkingu okkar um viðkomandi, þar sem að við getum í raun hvorki dæmt innri mann einhvers frekar en við getum dæmt Guð, þar sem hvort tveggja eru óþekktar víddir.

Ég er þakklátur Davíð fyrir að hafa vakið athygli á að hlutirnir voru langt frá því að vera í lagi, í mars árið 2008. Þar sagði hann farir sínar ekki sléttar. Fólkið sem var við völd hlustaði ekki á hann, og því reyndi hann að koma skilaboðum til þjóðarinnar. Hann hafði einfaldlega ekki nógu mikil völd sem Seðlabankastjóri til að gera eitthvað í málunum. Réttu valdhafarnir voru viðskipta-, fjármála- og forsætisráðherra, sem einfaldlega hlustuðu ekki á það sem Davíð hafði að segja. Davíð talaði til almennings, og í það minnsta ég hlustaði, og skrifaði út frá því greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Davíð og Guð eiga það sameiginlegt að vera ekki vinsælir á Íslandi í dag, og að þeim hefur verið gert upp sakir sem eru ekki þeirra, heldur arftaka þeirra.


Bloggfærslur 25. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband