Eru trúarbrögð nauðsynleg?

 


Trúarbrögðin virðast vera það fyrirbæri í heiminum sem hefur mestan sameiningarkraft. Engin trúarbrögð, eða trúleysi, held ég að gangi ekki upp fyrir samfélagsheildina, því miður - til þess þarf vel menntað, gagnrýnið fólk sem hefur óeigingjarnan áhuga á almannaheill. Ég hef ekki orðið var við að svoleiðis fólk komist nokkurs staðar í meirihluta, og sýnist alltof langt í að slíkt samfélag verði að veruleika, sem væri reyndar sönn útópía. Trúarbrögð eru líklegri til árangurs, einfaldlega vegna þess að þau eru miklu auðveldari í framkvæmd. Einnig er fólk trúgjarnara þegar kemur að dæmisögum en vísindalegum kenningum sem krefjast jákveðins viðmóts til þekkingarleitar, ófullkomleika og óvissu.

Hefur fólk snúist gegn trúarbrögðum vegna þess að þau eru ekki sönn eða vegna þess að fólk telur of mikla illsku hafa sprottið úr misnotkun á trúarbrögðum? Ég tel hið síðarnefnda vera satt, og viðurkenni fúslega að ég get ekkert vitað með vissu um hvort að trúarbrögð séu sönn eða ekki. Það þarf töluverðan hroka um eigin óskeikulleika til að fullyrða að þau séu ósönn. Reyndar er það jafn dularfullt og óskiljanlegt að trúarbrögð geti verið ósönn og að Guð geti eða geti ekki verið til.

Hver er munurinn á 'ósannur' og 'ótrúlegur'? Hið ósanna er eitthvað sem ekki er satt óháð þekkingu okkar eða vitneskju um það. Hið 'ótrúlega' er hins vegar mat okkar á sannleikanum.

Ef lútersk trú hefur ekki verið í baráttu gegn nýfrjálshyggjunni, þá hefur hún kannski bara tapað stríðinu án þess að gera sér grein fyrir að það hafi verið háð?

Trú tel ég ekki vera andstæðan pól við almenna skynsemi og þekkingu. Hins vegar er henni oft stillt upp sem slíkri, og það finnst mér nokkuð ósanngjarnt. Trú er persónulegt val. Trúarbrögð eru val hóps sem er við völd. Lýðurinn fylgirforingjanum. Sé foringinn kristinn verður lýðurinn kristinn. Sé foringinn fylgjandi íslam, verður lýðurinn að vera það líka, og þar fram eftir götunum. Sé foringinn trúlaus og lýðurinn líka, þá detta stefnur og straumar einfaldlega í daunilla lognmollu, allir hafa skoðun á hvað er upp og hvað niður, en enginn veit það lengur.

Við erum siðferðilega slipp og snauð, ekki vegna þess að nýfrjálshyggjan sigraði trúarbrögðin, heldur vegna þess að nýfrjálshyggjan sigraði gegn sjálfsvirðingu mannsins. Peningar urðu mikilvægari en sjálfsvirðing, fyrir fjöldann - peningar urðu að mikilvægara viðmiði en manneskjan sem slík. Það felst ákveðið gjaldþrot í því.

Trúarbrögð þurfa ekki að gefa okkur falska von. Þau geta vissulega gefið okkur von, til dæmis þá von að ólíkir einstaklingar eigi sitthvað sameiginlegt og beri virðingu hver fyrir öðrum og vilji í samvinnu byggja betra ból. Hvað slík von er kölluð eða hvaðan hún kemur skiptir ekki öllu máli, og algjörlega skaðlaust að skálda upp sögur um hana. Nema þessum skáldverkum sé trúað bókstaflega? Það þarf ákveðnar öfgar til slíks.
Það er ekki trúin sem leysir vandann, það ert þú sem getur gert það, með því að vera ekki bitur vegna þess að ekki allar sögur um Guð séu sannanlegar.
 
Þegar þú segist trúa á hið góða í manninum, geturðu útskýrt hvaðan þetta góða kemur, og af hverju þú trúir frekar á hið góða en hið illa? Ég held að kristin trúarbrögð séu í raun ekkert annað en trú á hið góða í manninum, en svo hefur hópur fólks spunnið sögur í kringum þetta sem síðan hafa verið teknar alvarlegri en þessi trú á hið góða í manninum. Reyndar trúa sumir kristnir hópar að maðurinn sé illur í eðli sínu og þurfi að frelsa hann undan hinu illa. Þarna er fólk strax farið að flækja ósköp einföldum hlutum saman og fljótt fer allt í hnút.
 
Ég held satt best að segja að kærleikur sé eitthvað sem hvert og eitt okkar hefur, en til að kærleikur verði hluti af samfélaginu er þörf á trúarbrögðum. Trúarbrögðin eru vettvangur fyrir skoðanaskipti sem bera virðingu fyrir hversdagslegum fyrirbærum eins og kærleika, og fyrirfram dæma slík hugtök ekki sem væmni eða dellu.
 
Ég er ekki að halda því fram að einhver ein trúarbrögð séu betri en önnur, og að trúleysingjar eða þeir sem hafa enga skoðun á þessu eigi að vera skyldir útundan einhvers staðar í kuldahríð. Hins vegar held ég að trúarbrögð séu nauðsynleg fyrir samfélög sem vilja byggja á einhverju sameiginlegu. Trúarbrögð eru í raun nauðsynleg til að hjálpa okkur að ná sameiginlegum tökum á tilverunni, skilning á henni, merkingu, óháð því hvað einstaklingur getur gert. Einstaklingar þurfa nefnilega ekkert endilega á trúarbrögðum að halda. Samfélög gera það.


Hvað getur sameinað okkur?

Ég upplifði Ísland ekki sem stéttaskipta þjóð á mínum uppvaxtarárum, en held að það hafi breyst fyrir nokkrum árum þegar velmegun varð gífurleg og sumir urðu miklu ríkari en aðrir. Eftir Hrunið skiptist þjóðin upp í enn fleiri stéttir:
  1. Fólk sem á gífurlega mikið.
  2. Fólk sem á eitthvað.
  3. Fólk sem á ekki neitt en skuldar ekki neitt.
  4. Fólk sem skuldar vegna húsnæðisláns, bílaláns og námsláns.
  5. Fólk sem skuldar vegna kúlulána, lánum fyrir lánum, lánum fyrir hlutabréfakaupum. 

Búið er að fella niður skuldir fjölmargra í hóp 5. Hópur 3 hefur ekki þurft að hafa miklar áhyggjur, en skattar og vöruverð fara hækkandi, þjónusta ríkisstofnana lækkandi. Hópar 2 og 1 voru tryggðir í bak og fyrir af Ríkinu við Hrunið.

Hópur 4 hefur verið skilinn algjörlega eftir í kuldanum, og oft flokkaður eins og viðkomandi væri í hópi 5, af þeim sem eru í hópum 1-3 og eru ekki tilbúnir að tapa einhverju af því sem þeir hafa, og hafna algjörlega að bera einhvern kostnað af þeirri leiðréttingu lána sem hópur 4 krefst, með þeirri hótun 'að allt verði vitlaust' ef farið verði að hafa fé af þeim sem það eiga til að bjarga þeim sem fóru illa að ráði sínu.

Hvernig er hægt að finna sanngjarna og réttláta leið í þessari pattstöðu?

Ef allar stéttir verða sameinaðar að nýju í einu mun fólk sem hefur eignir og völd rísa upp og öskra 'ranglæti', 'vanhæf ríkisstjórn' og 'kommúnismi', og þar að auki gæti orðið annað Hrun vegna slíks ósættis. Ef ástandið verður látið ríkja áfram mun í það minnsta þriðjungur þjóðarinnar tapa öllu sínu. Það tap verður á kostnað allra hinna og gæti líka þýtt annað Hrun.

Ríkisstjórnin í dag er í vandræðalegri stöðu, með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak og hefur ákveðið að yfirgefa eigin stefnu þar sem hún skilur að stefna VG og Samfylkingar virka ekki við þessar aðstæður. Stjórnmálaleg hugmyndafræði hefur hlotið gjaldþrot, sama hvert þú lítur.

Eina hreyfingin sem ætlaði sér að brjóta upp hugmyndafræðileysið, Borgarahreyfingin, ákvað síðan á aðalfundi að taka upp hugmyndafræði eins og allir hinir flokkarnir og sigla sjálfa sig í strand. Reyndar standa þingmenn hreyfingarinnar eftir, en hreyfingarlausir og án baklands eru þeir einfaldlega á reki á reginsjó.

Staðan er erfið. Þjóðin á ekki aðeins í efnahagskreppu. Þjóðin á einnig við mannúðarkreppu að stríða. 

Eina lausnin er ef fólk stendur og þraukar saman, og í stað þess að leyfa fjölskyldum að gjöreyðast vegna fátæktar og skuldar að hjálpa þeim að rísa upp, en til þess þarf vilja og mannúð. Það þarf sameiningarkraft til sem hægt er að finna í trúarbrögðum.

En þjóðin virðist orðin trúlaus, lúterska kirkjan þykir ekki lengur svöl, og þjóðin hætt að hugsa sem 'við' og er þess í stað orðin að mörg þúsund sundruðum 'ég'. Satt best að segja held ég að eina lausnin fyrir okkur eins og staðan sé í dag er að vekja kristin trúarbrögð aftur til lífsins, hvort sem að fólk sé trúað eða ekki. Við þurfum eitthvað sem sameinar okkur á þessum erfiðu tímum. Því miður hafa fjölmargir Íslendingar snúist gegn trúarbrögðum eins og þau séu upphaf alls ills í heiminum, aðallega vegna þess að sumir forsprakkar þeirra hafa reynst eiginhagsmunaseggir, stífir pólitíkusar, kynferðisbrotamenn og tækifærissinnar, sem og vegna þess að gömlum kreddum virðist fylgt í blindi sem ekkert erindi virðist eiga í samtímanum. Veruleikinn getur hins vegar verið sá að samtíminn á ekki heima í gömlu kreddunum og að þær séu í raun margar hverjar góðar og gildar.

Okkur vantar sameiningarafl og sama hversu auðvelt og réttlætanlegt er að gagnrýna trúarbrögð, þá er sameining það raunverulega gildi sem trúarbrögð geta gefið, þó að þau séu ótrúleg.

Veit einhver hvað orðið hefur af okkar frægð?

Lútersk trú hefur tapað trúverðugleika sínum á Íslandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju, og nýfrjálshyggja hefur tapað öllu sínu gildi. Eftir stöndum við slipp og snauð, í fjárhagslegri, mannúðarlegri og siðferðilegri kreppu sem hótar að leggja landið í eyði.

Hvað getur sameinað okkur?


Bloggfærslur 22. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband