Af hverju eru þeir ofsóttir sem hafa skoðanir og vilja ræða málin?

 

hush-300

 

Ég hef fengið þó nokkur viðbrögð við skrifum mínum um nafnleysi og nornaveiðar á auðmönnum, sem benda til að í gangi séu á Íslandi raunverulegar nornaveiðar, en ekki á fyrrgreindum hópi, heldur venjulegu fólki sem vill tjá skoðanir sínar og ræða málin: bloggurum!

Einstaklingar sem hafa bloggað um þjóðfélagsmál af gagnrýni undir nafni og einstaklingar sem mótmæltu á Austurvelli hafa margir hverjir þurft að þola ofsóknir af ýmsu tagi, sumir misst vinnuna vegna skrifa sinna, og sumir orðið fyrir beinu ofbeldi og barsmíðum vegna þátttöku sinnar.

 


 

Þetta er þekkt fyrirbæri úr mannkynssögunni, en hefur ætíð fylgt tímabilum sem þjóðir skammast sín fyrir. Rannsóknarrétturinn stundaði raunverulegar nornaveiðar - kaþólska kirkjan og þær þjóðir sem tóku virkan þátt í þessum veiðum skammast sín fyrir það í dag. Nasistar ofsóttu gyðinga, fatlaða og þá sem þeir töldu af óæðri kynstofnum eða þjóðerni, Þjóðverjar skammast sín gífurlega fyrir það enn í dag. Spænskir fasistar unnu með nasistum í seinni heimstyrjöldinni þannig að fjöldi fólks varð landflótta frá Spáni - Spánverjar eru að bæta fyrir það í dag með sérstökum lögum sem heimila afkomendum þeim sem fluttu í burtu að flytja aftur heim og fá spænskan ríkisborgararétt. Fólk sem hafði gagnrýndar skoðanir var ofsótt í Bandaríkjunum á McCarthy tímabilinu, og erlendir ríkisborgarar með óvinsælar skoðanir reknir úr landi. Upp kom hreyfing sem ætlaði að ofsækja allar skoðanir sem þóttu ó-amerískar, en kjósendum tókst að stöðva það ofsóknaræði með því að velja Barack Obama í forsetastólinn. Kristnir hafa verið ofsóttir síðan Jesús gagnrýndi ofríki, spillingu og ofbeldi samtíma síns og var krossfestur að launum.

 

 

Á Íslandi er verið að ofsækja fólk fyrir að hafa skoðanir og ræða þær. Það er ljóst. Og það er ótækt með öllu. Skilaboð hafa komið frá Ríkinu um að bloggarar séu óþægilegir, á meðan Ríkið ætti að þakka fyrir gagnrýna umræðu og styðja við hana. Þegar Eva Joly skrifar á gagnrýninn hátt um stöðu mála fær hún íhnýtingu frá aðstoðarmanni forsætisráðherra. Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, gagnrýndi bloggara af mikilli heift í Kastljósviðtali um daginn, og er ekki frá því að falskir söguskýrendur með gífurlegt fjármagn að baki sér ætli að endurskrifa söguna þannig að gagnrýnin umræða, bloggarar og mótmælendur verði gerðir að blórabögglum Hrunsins.

Ég hef skrifað af gagnrýni um málefni líðandi stundar og undir nafni. Hef neyðst til að flytja úr landi. Ekki veit ég hvort að skrif mín hafi haft einhver áhrif á stöðu mína í dag, en kæmi ekki á óvart þó að svo sé.

Ég er því böli háður að þola engan veginn að horfa upp á þá sem aflið hafa níðast á þeim sem hafa það ekki. Þegar ég sé eitthvað gagnrýnisvert, þá gagnrýni ég það, telji ég slíka gagnrýni mikilvæga og finnist skorta á umræðu.

 


 

Ég er viss um að ríkisstjórnin vill vel, en held að hún sé að kaffærast í verkefnum og sé hætt að sjá fólkið - sjái í dag bara verkefni og tölur sem erfitt er að eiga við. Hins vegar þarf ríkisstjórnin að sýna í verki að hún standi með fólkinu, hún verður að sýna í verki að það er ekki bara í lagi fyrir fólk að hafa skoðanir og vilja ræða málin, heldur að það sé skylda sérhvers einstaklings í lýðræðissamfélagi að einmitt hafa skoðanir og ræða málin, auka á þekkingu og skilning innan samfélagsins, og jafnvel út í heim þegar það á við.

Sú staða að fólk þarf að skrifa undir nafnleysi af ótta við ofsóknir, og sú staðreynd að fólk sem hefur skrifað gagnrýnið undir nafni hafi orðið fyrir ofsóknum, er algjörlega ótækt.

Gagnrýnin hugsun er nefnilega ekki réttur í lýðræðisþjóðfélagi, hún er skylda sérhvers einstaklings sem vill samfélaginu vel.

 

Góð lýsing á gagnrýnni hugsun, þó að mynd- og hljóðgæði séu ekki upp á marga fiska:
 
 

Skilaboð til þeirra sem vilja ekki hlusta og dettur ekki í hug að lesa langan texta eða skoða svona myndbönd:

 
 

Bloggfærslur 2. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband