Af hverju skjóta þeir fótbrotna hesta, lóga hundum sem hafa bitið frá sér, en gefa spilltum bönkunum eilíft líf?

"Of mikil miskunnsemi... leiðir oftast til frekari glæpa sem reynast banvænir saklausum fórnarlömbum sem hefðu ekki þurft að vera fórnarlömb ef réttlætið hefði verið sett í forgang og miskunnsemi í annað sæti. (Agatha Christie)

Áður fyrr voru hestar einfaldlega skotnir í hausinn ef þeir voru svo óheppnir að fótbrotna. Í dag eru þeir í flestum tilfellum svæfðir. Ástæðan er einföld: það mun reynast of erfitt að bæta skaðann. Það yrði of mikið vandamál að sinna honum. Hann yrði til einskis nýtur.



Gömlum og veikum hundum er oft lógað, sérstaklega ef þeir eru farnir að þjást vegna veikinda eða elli. Það er vitað mál að þeir munu aldrei aftur verða frískir og skemmtilegir hvolpar. Óþægindin fyrir eigandann verða engu minni en fyrir hundinn. Því er þessi ákvörðun oft tekin, þó að hún sé ekki algild. Það má segja að hún sé réttlætanleg.



Einnig tíðkast það á Íslandi, rétt eins og fóstureyðingar, að eldra fólk sem þjáist mikið er hjálpað að nálgast dauðann á sársaukalítinn hátt, sérstaklega ef viðkomandi hefur ólæknandi krabbamein og fyrirsjáanlegt er ekkert annað en sársaukafullur tími til dauðadags. Viðkomandi verður þó að ákveða slíkan dauðadag sjálfur.



Íslensku bankarnir reyndust gjörspilltir og hafa gert þjóðinni meira ógagn en gagn. Samt á að halda þeim á lífi á kostnað almennings, sem veit ekki einu sinni hvað er í gangi innandyra, og þegar brotabrot af upplýsingum lekur út kemur í ljós að það er verið að vinna meira gegn almenningi heldur en með honum, og að allt skuli gera til að fela slíkar upplýsingar.

Af hverju er þessum bankastofnunum ekki einfaldlega lógað, enda eru þær ekki bara gamlar, fótbrotnar og veikar, heldur fullar grimmd og miskunnarleysis gagnvart viðskiptavinum sínum sem minna mega sín, og nýr ríkisbanki stofnaður sem byrjar einfaldlega á núlli?

Af hverju sýnir þjóðin og ríkið þessum bönkum og kúlulánaauðmönnum fyrst og fremst miskunnsemi og umburðarlyndi, en leita ekki réttlætis af sanngjarnri reiði?

Ef einhvern tíma hefur verið tími þar sem viðhorfið 'þetta reddast' á ekki við, ef einhvern tíma hefur þurft að verja þá sem minna mega sín, ef einhvern tíma hefur þurft að berjast gegn illu böli sem ógnar almannheill, bæði innanlands og erlendis frá, þá er það í dag.


Bloggfærslur 3. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband