"Eggið sem át hænuna" eða "egóið sem át okkur"?

Borgarahreyfingin átti að vera litla þúfan sem velti stóra hlassinu, Ríkinu sjálfu, en í dag lítur út fyrir að hreyfingin hafi sogast innan í hugsunarleysishátt Ríkisins og þar af leiðandi látið það velta sér og velta síðan aftur til baka yfir þúfuna sléttu.

Borgarahreyfingin lofaði að breytast ekki í hefðbundinn stjórnmálaflokk sem léti tilganginn helga meðalið. Þráinn stóð við þetta og var alls ekki sáttur þegar félagar hans í þingflokknum ákváðu að láta tilganginn helga meðalið með því að ganga gegn eigin sannfæringu, að ákveðnu marki, og kjósa gegn aðildarviðræðum til Evrópusambandsins, en fyrst og fremst til að mótmæla ICESAVE. Tilgangurinn var góður. Engin spurning. Meðalið var hins vegar slæmt.

Þannig má segja að ICESAVE hafi velt Borgarahreyfingunni og sundrað honum, reyndar innanfrá eins og nauðsynlegt er í slíkum málum. Þráinn vildi ekki sætta sig við hefðbundnar pólitískar þvingunaraðferðir til að ná fram sínum málum, og enginn virðist skilja hvað Þráinn er að meina; á meðan það virðist nokkuð augljóst. Ég skil Þráinn vel.

Með þvingunarfléttunni var nefnilega ekki aðeins brotið gegn einu kosningaloforði hreyfingarinnar, heldur þremur:

  1. styðja aðildarviðræður á Evrópusambandinu
  2. engin klækjapólitík
  3. falla ekki inn í kerfið

Ég leit á þetta sem mannleg mistök og reiknaði með að hópurinn kæmist yfir þetta með smá samræðum og heilbrigðri skynsemi. Það hefur ekki gengið eftir.

Helsti veikleiki Þráins Bertelssonar er stórt egó, enda einn besti kvikmyndaleikstjóri Íslandssögunnar, birti eigin dagbók í Fréttablaðinu í marga mánuði og hefur skrifað bækur sem ganga út frá þessu egói sem meginforsendu: Ég ef mig skyldi kalla : seinþroskasaga og Einhvers konar ég. Þetta var gefið.

Andstæðingar Borgarahreyfingarinnar virðast hafa misnotað þennan veikleika miskunnarlaust með því að birta stanslausar fréttir um deilumál þessara einstaklinga, hvort sem að slíkt mætti kalla raunverulegar fréttir eða ekki. Þetta hlaut að enda með sprengingu, sem hlyti að spretta úr einhverjum mistökum sem einhver hefur gert og þannig væri hægt að gera viðkomandi að blóraböggli.

Allir þekkja framhaldið.

Borgarahreyfingin er í mikilli hættu við að lognast út af, aðeins þremur mánuðum eftir að hún komst á þing. Það er mikið um klækjarefi á þing og í pólitík almennt sem fá mikið út úr því að blása málin upp, og óska einskis frekar en að skíðlogi á milli fólks. Svoleiðis fólk er yfirleitt sett á 'ignore' á netinu, en getur verið vonlaust að forðast í lifandi lífi.

Vonandi er ekki of seint fyrir þingflokkinn að sjá hvað er í gangi og gera eitthvað í málunum áður en það verður of seint. Pólitíkin er miskunnarlaus skepna og bítur miskunnarlaust hausinn af þeim sem eru ekki tilbúnir að leika sér með henni.

Staðan í dag:

Ríkjandi stjórnskipunarfyrirkomulag 1 - Borgarahreyfingin 0

Er leikurinn rétt að byrja?


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband