ICESAVE: Er kjarni málsins hulinn lygafléttu?


Innlánatryggingasjóður er eitt, ríkisábyrgð er annað. Tvö aðskilin mál. Íslenska þjóðin ber ekki ábyrgð á innlánum sem lögð voru í einkafyrirtæki. Það er útilokað, ranglátt, ósanngjarnt og ólöglegt nema alþingi samþykki það sérstaklega. Þetta er ekkert flóknara.

Það sem flækir málið er fólk sem hefur hag af því að skuldir þeirra séu greiddar af íslensku þjóðinni, þó svo að íslenska þjóðin fari á hausinn fyrir vikið. Þetta fólk virðist stjórna fjölmiðlaumfjöllun að einhverju leyti og það heyrist hátt í því. Þetta fólk virðist greiða stjórnmálamönnum þóknun. Það kom í ljós fyrir síðustu kosningar en hefur verið þaggað niður. Það ætti að vera búið að frysta eigur og athafnir þessa fólks, en það hefur ekki verið gert. Réttlætinu hefur ekki verið framfylgt, og því eins og innbrotsþjófur sem látinn hefur verið laus og gengur einfaldlega beint til verks næstu nótt, en aðeins gætnari en áður, ganga hinir ranglátu lausir og vinna þjóðinni skaða eins lengi og þeir komast upp með það. Samviska mun aldrei stoppa þá.

Að rætt sé um að ríkið tryggi tryggingarsjóð innlána er absúrd í sjálfu sér, en slíkur tryggingasjóður ætti að vera byggður á þeim innlánum sem tekið var við, en ekki á mögulegri skattgreiðslu íslenskra þegna til framtíðar. Ef þú lætur mig hafa hundraðkall og ég lofa að láta þig fá hundrað og fimm krónur til baka, þýðir það ekki að þjóð minn beri ábyrgð á hundraðkallinum en enginn á fimm krónunum.

Hvaða einkarekni alþjóðabanki getur beintengt sig í framtíðarskatta sjálfstæðrar þjóðar? Þeir eru víst bara þrír til í heiminum: Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir.

Það er einfaldlega verið að svipta þá ábyrgð sem ábyrgðina eiga og verið er að koma henni yfir á íslenska þjóð. Þetta verður að stöðva.


Bloggfærslur 12. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband