Er verið að misnota íslenska fjölmiðla til að ráðast á einstaklinga eins og Björgólf Thor og Davíð?
28.7.2009 | 21:28

"Ég veit um fólk sem talar um að þjást fyrir almannaheill. Það eru aldrei helvítis þeir! Þegar þú heyrir mann öskra "Áfram, hugrökku félagar!" munt þú sjá að hann er sá sem situr bakvið helvíti stóran stein og er með eina hjálminn sem raunverulega virkar gegn örvum!" (Terry Pratchett, úr Áhugaverðir tímar)
Er þetta einhvers konar kappleikur eða stríð þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Mogginn eru KR og FH gegn Samfylkingunni og Baugsmiðlum sem eru þá Valur og Haukar? Og þeir Björgólfur Thor og Jón Ásgeir með sinn hjálminn hvor að öskra bakvið helvíti stóran stein?
Það er afar áhugavert að heyra hvað Björgólfur Thor hefur að segja, enda hefur lítið heyrst í honum síðan bankarnir fóru undir græna torfu, meðal annars nokkrir bankar í hans eigu. Það virðist vera sem að fjölmargir Íslendingar kunni honum helst þegjandi þörfina fyrir að vera einn af mest áberandi útrásarvíkingum Íslands, og ábyrgðarmaður ICESAVE, sem næstu kynslóðir Íslendinga verða líklegast að borga með sparifé sínu og verri lífsgæðum.
Hvort að það sé nóg til að ófrægja einstakling, vil ég ekki segja.
Nú hafa bæði Davíð Oddsson og Björgólfur Thor staðhæft að ófrægingarherferð hafi verið ýtt af stað og haldið uppi af íslenskum fjölmiðlum. Þessir fjölmiðlar eiga það sameiginlegt að vera í eign Baugs Jóns Ásgeirs.
Ímyndum okkur að Davíð og Björgólfur séu að segja satt og hafi rétt fyrir sér. Hvað þýðir það?
Jú, það þýðir að verið er að misnota 4. valdið á Íslandi af miskunnarleysi, og ef þeir hafa orðið fyrir þessu, þá hafa fleiri orðið fyrir þessu, og sjálfsagt verið logið að meirihluta þjóðarinnar í fjölmörgum málefnum, sem þýðir að fólk sem hefur treyst á fjölmiðla er stútfullt af upplýsingum sem einkennast af fordómum og lygum. Áhugavert, ekki satt?
Ef þessir herramenn hafa rétt fyrir sér, má vel vera að fjölmiðlar Baugs ógni þjóðaröryggi með því að villa fyrir þegnum landsins, og jafnvel með að birta þessar fréttir víða um heim.
En af hverju ættu Baugsmiðlar að skjóta sérstaklega á þá Davíð og Björgólf Thor?
Davíð er augljóst skotmark. Hann gagnrýndi Baug af hörku og var sannfærður um að þar færu tómir glæpamenn, og stóð fyrir rannsókn á fyrirtækinu. Fyrirtækið gæti hafa varið sig með því að setja af stað ófrægingarherferð á hendur Davíð, sem hafði fengið sín völd vegna vinsælda og trausts, og ef skipulagður óhróður fjölmiðils beinist skipulega gegn vinsældum og trausti einstaklings, þá er viðkomandi fyrirfram dæmdur til að tapa þessu trausti og vinsældum. Það má sig enginn gegn fjölmenni. Ekki einu sinni Davíð. Ein afleiðing þessa óhróður hefur hugsanlega verið að Davíð lét hrekja sig úr stjórnmálum og síðar úr Seðlabankanum, þrátt fyrir að hafa unnið gott starf, en sjálfsagt verið orðinn þreyttur og dapur vegna óhróðurstríðsins gegn hans persónu.
Af hverju að skjóta á Björgólf Thor með lygum (ef lygar eru)? Baugur liggur undir miklu ámæli og sjálfsagt er verið að rannsaka fyrirtækið gaumgæfulega. Ég get ímyndað mér að árás á Björgólf, sem er með óvinsælli mönnum sjálfvirkt, hvort sem hann hefur gert eitthvað af sér eða ekki, vegna þess að hann var og er einn af höfuðpaurum útrásarvíkinganna, og er því auðvelt skotmark og líklegt er að fjöldinn gleypi 'fréttina' hrátt þó að hún sé kannski ekki nákvæm, þá gæti þetta orðið til þess að þeir sem eru að rannsaka Baug, beini athygli sinni um stund að Björgólfi, en það vita allir að helsti veikleiki rannsóknarinnar felst í fámennum liðsafla og fjársvelti vegna kreppunnar, og að ef tekst að veikja rannsóknina með þessum hætti, er líklegt að Baugur nái að vinna sér inn dýrmætan tíma og geti þar með varið sig betur þegar að saksókn kemur.
Vissulega eru þetta bara tilgátur, en eru þær nokkuð út í hött?
Ég er ekki maður til að fella stóradóm um einn eða neinn. Björgólfur Thor þarf að útskýra ýmislegt, eins og hvernig hann fjármagnaði kaupin á Landsbankanum, og Davíð hefur reynt að útskýra að einkavæðingu bankanna var klúðrað í einhverjum klaufaskap, sem landsmenn reikna náttúrulega með að hafi verið upprunnin í spillingu. Það er auðvelt að tengja þá Björgólf og Davíð saman, sem og Björgólf og Geir Haarde, eða Sjálfstæðisflokkinn, þannig að árásin verður bara áhrifaríkari fyrir vikið, enda Geir og Davíð með óvinsælustu stjórnmálamönnum í dag, hvort sem þeir eiga það skilið eða ekki, og Sjálfstæðisflokkurinn aðeins skugginn af því sem hann var fyrir örfáum árum.
Ég vil minna á að kappræður eru notaðar til að villa fólki sýn, til að hafa áhrif á skoðanir þess, og það er sérstaklega auðvelt þegar kemur að ásökunum sem fólk vill trúa, hvort sem þær eru sannar eða ekki. Ég sé ekki betur en að Björgólfur Thor biðji um að mál hans verði tekið fyrir af sanngirni, og sé ekkert að því. Það verður erfitt fyrir hann að sanna að það sé samsæri í gangi frá höndum Baugs, en auðveldara að sýna fram á sannleikann í þessu máli - en samt ekki, því fólk er orðið svo tortryggið að það mun einfaldlega halda að honum hafi tekist að fela gögnin eða rífa þau í pappírstætara.
Ég vil ljúka þessu máli með kínverskum álögum: "Megir þú lifa áhugaverða tíma."
![]() |
Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)