Fer Ísland á hausinn í haust?

Í dag blogga ég fátæklega.

Ég játa og viðurkenni að ég er meira en sáttur við þann kipp sem íslenska ríkisstjórnin hefur tekið síðustu dagana. Hún hefur verið að vinna hlutina hratt og staðið allt annað en aðgerðarlaus. Á móti kemur að aðgerðirnar munu hafa afdrifaríkar afleiðingar.

ICESAVE getur brugðið til beggja vona. Í besta falli erum við að tala um skuld sem felld verður niður af alþjóðasamfélaginu. Í versta falli eru þetta skuldir sem erfingjar Íslands þurfa að borga með þrælkun í nokkrar kynslóðir.

Líklegt er að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Eðlilegast væri að þjóðin fengi að greiða atkvæði þegar landið hefur verið samþykkt í sambandið, og staðfesti þá vilja sinn til að vera með eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja eigi um er hrein della, enda myndi slík atkvæðagreiðsla virka sem niðurnjörfandi afl fyrir umsókn, hvort sem meirihluti væri fyrir henni eða ekki.

Niðurskurðarhnífurinn er á fullu, og fyrirtæki enn að fara á hausinn. Skuldir fjölskyldna aukast, verðtryggingin og gengið jafn hörð og fyrr. Stórum spurningum verður svarað í haust þegar krónunni verður fleytt á nýtt, bankar fá aftur heimild til að víkja fólk af heimilum sínum og í ljós kemur hvaða þjónusta ríkisins hverfur og hvernig hún hefur áhrif á líf fólksins í landinu.

Sumarið stendur sem hæst. Þá er bjart yfir húsum og fólki. Með haustinu lækkar sól og blákaldur veruleiki næsta veturs stendur innan seilingar. 

Segðu mér: förum við á hausinn í haust?


Bloggfærslur 11. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband