Er tapið sem skuldarar taka á sig til að verja innistæður eigenda mannréttindabrot?

 

 

Úrræði Ríkisins virðast því miður vera skammtímaúrræði, fyrir langtímavandamál. 

Svona eins og að fá sér í glas til að verða glaður, frekar en að gleðjast án áhrifa vímuefna.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn virðist vera að gera Ríkinu það sama og Ríkið gerir þegnunum. 

Þegar lengt er í hengingarólinni höldum við nefnilega að við getum með smá heppni lent á jörðinni, en áttum okkur ekki á því að þegar hleranum verður kippt undan okkur, þá munum við ekki kafna smá saman, heldur mun hálsinn brotna. 

Ég skil vel ef Ríkið sér þetta ekki. Þetta er ekki augljóst fyrir starfsfólk sem vinnur á grundvelli hámarks fjögurra ára í senn. Ábyrgðin nær ekki út fyrir kjörtímabil. Þess vegna finnur Ríkið ekki hversu óþægilegt ástandið er. Starfsmenn þess telja sig nefnilega geta losnað þegar þeim dettur það í hug.

Þegnar Ríkisins geta hins vegar ekki losnað hvenær sem er. Kjörtímabilið er lífið sjálft og nær hugsanlega yfir líf barna þeirra. Þeim finnst þjarmað að sér þegar í ljós kemur að aldrei muni takast að greiða fyrir húsnæði sem það taldi sig eiga mikið í fyrir aðeins tæpu ári síðan. Fólk skuldbindur sig nefnilega ekki að gamni sínu. Það vill klára að borga sínar skuldir og er ekki sátt við ef 20 milljónirnar sem átti að borga verða 30 milljónir, 40 eða meira.

Hugsanlega á nafni minn erfitt með að setja sig í spor skuldara, einfaldlega vegna þess að hann sjálfur er ekki í slíkum sporum? Hverjir af þeim sem voru kosnir í þessum síðustu Alþingiskosningum eru annars í þeirri stöðu að heimili þeirra séu í hættu vegna kreppunnar? Og hvernig var það annars með styrkjamálin? Hvernig geta þeir sem taka greiðslur frá fyrirtækjum til að borga sínar skuldir sett sig í spor einstaklinga sem sjá sig sem fórnarlömb þeirra fyrirtækja sem styrktu stjórnmálamennina sjálfa?

Það er ekki sanngjarnt að skuldarar eigi að bjarga kerfinu og að þeir skuli blóðmjólkaðir, og að þeim skuli haldið góðum með úrræðum sem með smá umhugsun sést að eru óhugsandi fyrir manneskju sem vill lifa sómasamlegu lífi og búa að velferð fyrir framtíð eigin barna. 

  • Er það skylda Ríkisins og þjóðarinnar allrar að verja þau sjálfsögðu mannréttindi að allir hafi tryggt þak yfir höfuðið, að allir hafi í sig og á?
  • Verður þjóðin að standa saman í lífinu sjálfu? Ekki bara á íþróttaviðburðum?
  • Er bilið á milli ríkra og fátækra kannski orðið það mikið að íslenska þjóðin hefur skipst upp í andstæðar fylkingar?
  • Getur það verið að Íslendingum sé orðið sama um náunga sinn?
Góða og nákvæma úttekt Marinós G. Njálssonar á úrræðum Ríkisins má finna hér. Marinó skrifar ekki undir rós og af nákvæmni.
mbl.is Aðgerðirnar eru taldar duga flestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband