Af hverju siðfræðifyrirlestrar eru dæmdir til að mistakast
15.5.2009 | 12:54

Jóhann Björnsson gaf alþingismönnum kost á að mæta á siðfræðifyrirlestur í stað messu fyrir setningu Alþingis í dag. Mér finnst þetta áhugaverð viðleitni hjá honum. Ég er hins vegar að snúast á þá skoðun að siðfræðifyrirlestrar sem og heimspekifyrirlestrar séu fyrirfram dæmdir til að missa marks.
Af hverju?
Siðfræði og heimspeki eru samræðugreinar. Heimspekin leitar vel rökstuddra svara við öllum þeim spurningum sem kunna að skipta okkur máli, jafnvel við spurningum sem kunna ekki að skipta máli. Siðfræðin er sú grein heimspekinnar sem fjallar um spurningar tengdum samlífi mannfólksins, um réttlæti og ranglæti, hið góða og hið illa, greinarmun á manneskjum og hlutum, og svo fram eftir götunum.
Þegar haldinn er fyrirlestur um siðfræðileg mál, þá er í raun verið að rjúfa það lögmál heimspekinnar að um samræðu sé að ræða. Þessari niðurstöðu komst ég að eftir að hafa setið á bókasafni í gær og lesið um Platón á norsku. Ég er ekkert sérlega sleipur í norskunni, en fór allt í einu að velta fyrir mér hvort að hugmyndir Platóns um form og hugmyndir séu mun jarðbundnari en mér hafði áður dottið í hug.
Ég spurði sjálfan mig hvort að hugsanlegt sé að þegar Platón talar um form, þá sé hann að tala um samræðuformið, enda var honum tíðrætt um hvernig kappræður og samræður væru af ólíkum meiði, þar sem kappræður leitast við að sannfæra fólk um eitthvað sem kann að vera satt eða ósatt, en sannleikurinn er ekki aðalatriðið þar, heldur hagsmunir - og hins vegar samræður sem leita sannleikans með því að fylgja ákveðnu formi, þar sem spurt er og svarað af einlægni.
Ég fór að hugsa um kennarastörf. Þegar ég starfaði sem heimspekikennari í FB og Iðnskólanum á síðasta áratug lagði ég gífurlega áherslu á að heimspekin vaknaði aðeins til lífsins með virkri þátttöku nemanda í öguðum samræðum, og ég forðaðist vísvitandi að halda langar ræður - þó að stundum hafi ég vissulega freistast til þess. Þessir áfangar lukkuðust afar vel.
Þegar ég flutti til Mexíkó fékk ég stöðu við framhaldsskóla, en gallinn var sá að þar mátti ekki ræða hlutina á sama hátt. Ég þurfti að setja mig í stöðu einvalds í skólastofunni sem verkstýrði nemendum frekar en að hvetja þá áfram til að skapa með eigin hugmyndum.
Ég hef semsagt upplifað báðar hliðarnar, að kenna heimspeki og siðfræði sem grein þar sem nemendur þurfa að læra staðreyndir, og hins vegar að kenna heimspeki og siðfræði í samræðuformi. Það er engin spurning hvor hefur vinninginn. Væri hægt að kenna þingmönnum agaðar samræður til að þeir kæmust að vönduðum niðurstöðum sem þeir gætu rökstutt út frá mikilvægi þeirra frekar en annarlegum hagsmunum?
Fyrirlestra má túlka sem hluta af samræðu í stóru samhengi, en þeir eru ekki samræður nema að ímynduðu leiti þess sem fyrirlesturinn flytur, því að viðkomandi þarf að ímynda sér möguleg mótsvör, í stað þess að bregðast við hverri og einni hugmynd sem flutt eru í fyrirlestrinum sjálfum. Fyrirlestrar ættu helst ekki að vera lengri en 10-15 mínútur, til að kynna hugmyndirnar sem eru til umræðu, og svo má fylgja þeim eftir með öguðum samræðum.
Ég er ansi ánægður með þessa túlkun mína á hugmyndum Platóns um form og samræður, og ætla að leyfa mér að leika við þær í eigin huga eitthvað lengur, en einnig væri gaman að heyra hvað aðrir hafa um málið að segja hér í athugasemdakerfinu.
Annars er blogg með opnu athugasemdakerfi fínt form fyrir góðar samræður.
Mynd: Emotional Competency
Bloggar | Breytt 16.5.2009 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)