Bestu Pixar teiknimyndir frá upphafi?

Í tilefni af frumsýningu á UP (2009) má rifja upp þær myndir sem Pixar hefur sent frá sér. Það er kannski hálf marklaust að setja þær í einhverja röð, þar sem að þær eru flestar hrein snilld. Því hlýtur eigin smekkur og upplifun að spila stórt hlutverk í endanlegri röð. Þó að myndir eins og Ratatoille og Wall-E hafi verið afar vel gerðar, flytji góð skilaboð og séu í raun nokkuð djúpar, finnst mér ýmislegt vanta upp á skemmtanagildi þeirra, þó að ég mæli hiklaust með þeim. 1. The Incredibles **** (2004) Kraftmikil ofurhetjumynd um ofurfjölskyldu sem berst gegn illum snillingi með minnimáttarkennd í samfélagi sem kann hvorki að meta ofurhetjur né hetjulund yfir höfuð.

theincredibles2

2. Toy Story **** (1995) Saga um vináttu tveggja leikfanga sem vilja báðir vera eftirlætisleikfang stráksins sem á þá.

toystory

3. Toy Story 2 **** (1999) Hvað gerist þegar eigendur leikfanga eldast, hvað verður um leikföngin þá? Það má yfirfæra söguna sem spurningar um þroska, og líf eftir þetta líf.

toystory2

4. Cars **** (2006) Kappakstursbíll uppgötvar að tilveran snýst ekki bara um keppni.

cars

5. Finding Nemo **** (2003) Lítill fiskur er veiddur og komið fyrir í fiskabúri á tannlæknastofu í Ástralíu. Pabbi fisksins er staðráðinn í að endurheimta son sinn, og sonurinn staðráðinn í að finna pabba sinn aftur.

findingnemo

6. A Bug's Life **** (1998) Uppfinningasöm padda villist og safnar að sér góðum hópi vina á leiðinni heim.

abugslife

7. Monsters, Inc. **** (2001) Lítil stúlka uppgötvar tvö skrímsli og kemst að því að skrímslin eru miklu hræddari við börnin en börnin við skrímslin.

monstersinc

8. WALL-E ***1/2 (2008) Vélmenni uppgötvar að til er fólk í heiminum, strandaglópar á geimstöð. Wall-E þarf að berjast við öflugt vélmenni sem stjórnar skipinu til að koma upplýsingum um mögulegt líf á jörðinni til mannfólksins, svo það geti snúið heim.

walle

9. Ratatouille *** (2007) Rotta gerist meistarakokkur í frönsku eldhúsi.

ratatouille

Ég geri mér fulla grein fyrir að ólíkt fólk hefur ólíkan smekk. Ef þig langar að gera athugasemd, væri skemmtilegra að sjá þinn eigin lista heldur en að gagnrýna mína röð, enda er smekkur nokkuð sem tilgangslaust er að gagnrýna, enda algjörlega huglægt fyrirbæri. Það er eins og að gagnrýna einhvern fyrir að finnast banani betri á pizzu en pepperoni.

Minn smekkur fyrir góðri kvikmynd snýst ætíð að sögunni sjálfri, hvort hún höfði til mín, snerti mig, og hvort ég geti mælt með henni. Sumar myndir eru svo vel gerðar að manni finnst að þær ætti að snerta mann, en gera það samt ekki. Þá vel ég þá leið að fara frekar eftir tilfinningu, heldur en ímyndun um hvað mér ætti að finnast. Mér þætti gaman að heyra um þinn smekk.


Bloggfærslur 14. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband