Star Trek (2009) ****

startrekposter11

Star Trek er algjör snilld. Þetta er skemmtilegasta geimópera sem gerð hefur verið síðan Star Wars: The Empire Strikes Back kom út árið 1980, og reyndar má segja að hérna er Star Trek og Star Wars heimunum púslað saman í eitt, enda fleira af furðuverum í þessari mynd en sést hefur áður í Star Trek heiminum.

Star Trek hefur fengið ýmislegt að láni frá Star Wars heiminum: frábærar tæknibrellur frá Lucasarts, furðulegar geimverur og Captain Kirk endurbættur sem hálfur William Shatner og hálfur Han Solo.

startrek081

Leikurinn er óaðfinnanlegur með einni undantekningu og sögufléttan eitursnjöll sem bæði upphaf og endir sem tekur tillit til þeirra hundruði þátta, kvikmynda og skáldsagna sem komið hafa út um Star Trek heiminn.

Hættu nú að lesa ef þú vilt ekkert vita um myndina áður en þú sérð hana.

Allir úr áhöfn U.S.S. Enterprise hafa fallið frá nema Spock (Leonard Nimoy), en þar sem hann er hálfpartinn geimvera frá Vulcan, lifir hann mun lengur en aðrar mannverur. Hann er virtur vísindamaður sem finnur upp tæki sem er ætlað að gjöreyða nýstirni sem ógnar plánetunni Rómúlus. Kannski vegna elliglapa vill ekki betur til en svo að hann er of seinn, og nýstirnið gjöreyðir plánetunni fyrir augum Nemo kafteins (Eric Bana) sem fyllist hefit og heitir að ná fram hefndum á Spock og gjöreyða öllum Vulcanbúum og mannverum fyrir að leyfa tortímingu Rómúlus. Sogast geimskip þeirra inn í svarthol sem gjöreyðingarvopn Spock hefur búið til og Spock sjálfur hverfur inn í það rétt á eftir þeim, sekúndum síðar í framtíðinni, 25 árum síðar í nútíðinni.

startrek041

Geimskip Rómúlanna lendir á stað og stund þar sem James T. Kirk er við það að fæðast inni í geimskipi sem faðir hans stjórnar, þegar það lendir í árás Rómúlanna úr framtíðinni sem breyta sögunni þannig að George Kirk er frepinn, en James T. Kirk tekst einhvern veginn að fæðast í heiminn á flótta undan árásarskipinu.

Þeir sem þekkja baksögu Star Trek og James Kirk vita að hann missti ekki föður sinn í eldri útgáfu, en málið er tímaferðalagið hefur búið til hliðstæðan veruleika, þannig að örlögum allra persóna er stokkað upp. Þannig hafa allar seríurnar sem á undan komið gerst, en eru samt ekki lengur hluti af veruleika þessara sömu persóna.

Í stað þess að vera skipstjóri U.S.S. Enterprise gerist James T. Kirk (Chris Pine) laumufarþegi sem reynist afar úrræðagóður á ögurstundu, og tekst að koma saman úrvalsliði vandræðagemlinga til að koma geimskipinu gegnum ófyrirsjáanleg vandamál.

Skipstjóri í upphafi ferðarinnar er Pike (Bruce Greenwood), en Pike þessi var skipstjóri fyrstu sjónvarpsþáttanna sem gerðir voru áður en William Shatner var ráðinn sem James T. Kirk á 6. áratugnum.

Ég ætla ekki að telja upp allar persónurnar sem eru reyndar hver annarri betur leiknar, fyrir utan kannski Keith Urban sem virðist hafa verið að ofleika í anda Jack Nickolson í hlutverki læknisins McCoy. Það má ekki heldur gleyma hinum stórskemmtilega Simon Pegg í hlutverki skoska vélstjórans Scotty, né skemmtilegum töktum John Cho sem skilmingameistarinn Hikaru Sulu, eða afar góður Zachary Quinto sem hinn ungi Spock, og kærustu hans Nyota Uhura sem leikin er af Zoe Saldana. Úps! Ég virðist vera búin að telja þau öll upp nema Chekov sjálfan, sem leikinn er skemmtilega af Anton Yelchi. Ben Cross og Wynona Ryder leika foreldra Spock.

startrek031

Kvikmyndin hefst á ungum Kirk sem kemur sér sífellt í vandræði vegna skorts á aga, og hinum unga Spock sem verður fyrir einelti á plánetunni Vulcan fyrir að vera öðruvísi en allir hinir, en móðir hans er mannvera og faðir hans frá Vulcan. Þegar þessir tveir hittast bræðast þeir saman eins og eldur og ís. Kirk er funheitur og virðist algjörlega stjórnað af tilfinningum sínum, en reynist síðan hafa gífurlega sterkan karakter og sannfæringu sem getur komið þeim gegnum hvaða erfiðleika sem er. Spock hins vegar á í óvenju miklum vandræðum með að hugsa rökrétt þrátt fyrir stranga þjálfun, en ástæður þess eru ágætlega rökstuddar í atburðarásinni.

Það er gaman að sjá Chris Pine negla James T. Kirk, nokkuð sem ég taldi ekki mögulegt. Ljóst er að Chris Pine verður eftir þessa viku stórstjarna í Hollywood og ég tel öruggt að hann verði kominn á A lista leikara innan árs. Hann á eftir að geta valið úr hlutverkum. Svo góður er hann.

startrek021

Rómúlarnir eru eiginlega svona aukasöguflétta, og ef eitthvað er, þá eru þeir frekar klisjukenndur þáttur í annars vel heppnaðri mynd. Það er eins og höfuðóvinurinn sé algjört aukaatriði, en aðalmálið er að láta þessa vini hittast í fyrsta sinn með góðri hjálp úr framtíðinni og ná að vinna saman í hliðstæðum veruleika við þann sem Trekkarar þekkja alltof vel. Í lok myndarinnar langaði mig í meira.

startrek071

Annars vil ég segja aðeins frá reynslu minni af kvikmyndahúsinu í Noregi. Það kom mér á óvart hversu miklu skýrari myndin var á tjaldinu heldur en ég hef séð heima á Íslandi, og hversu miklu betri hljómgæðin voru. Það var greinilegt að græjurnar voru rétt stilltar. Svo var kvikmyndahúsið sjálft tandurhreint og vel lyktandi, og sætin meira að segja merkt. Það var heldur ekkert hlé. Það finnst mér gott. Betri getur bíóskemmtun varla verið.

E.S. Ég ætlaði að fara á þessa mynd með vini mínum þegar ég kæmi heim til Íslands í lok maí, en stóðst ekki freistinguna. Vonandi verður mér fyrirgefið.


Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband