Af hverju verður að setja Evrópuaðild í forgang?
27.4.2009 | 17:49

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ættum að ræða um aðild að Evrópusambandinu er álíka gáfuleg og að stofna rannsóknarnefnd til að finna grun um fjármálaglæpi.
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu virðist snúast um ótta við að sjálfstæði Íslendinga sé í hættu. Skiptast fylkingar í tvo andhópa, annar þeirra flýgur í V en hinn í S.
Þeir sem vilja inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Þeir sem vilja ekki inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Hvor hefur rétt fyrir sér?
Raddir sem eru á móti halda að samningar við Evrópusambandið þýði að við glötum auðlindum okkar umsvifalaust. Raddir sem eru með telja þetta tóma vitleysu, og óska eftir aðildarviðræðum til að geta sýnt fram á það. Annars verður inngangan í ESB aðeins byggð á fordómum og hindurvitnum.

Þegar við höfum ekki forsendur til að velja, þá er hvorki gott að segja af eða á, heldur leita sér frekari upplýsinga. Sé ákveðið að leita ekki frekari upplýsinga, er ljóst að verið er að hafna. Ef ákveðið er að kjósa um hvort eigi að leita upplýsinga er verið að kjósa á forsendum sem hafa ekkert sannleiksgildi og væri slík niðurstaða því byggð á fordómum einum.
Þessi umræða um Evrópumálin minnir mig svolítið á rifrildið um hvort að heimurinn sé hnöttóttur eða disklaga. Annar hópurinn óskar eftir að farið sé eftir rannsóknum og rökum, en hinn eftir trú og hindurvitnum. Hvora aðferðina ætlum við að nota? Hvor leiðin er sæmandi þjóðfélagi á 21. öldinni?
Ísland hefur þegar tapað sjálfstæði sínu. Það er bara ekki búið að gefa út sagnfræðibókina sem fullyrðir það og umræðan um glötun sjálfstæðisins er ekki farin almennilega í gang. Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn stjórnar framtíð landsins og mun gera það út frá sjónarmiði sem er alls ekki íslenskt, og ekki einu sinni evrópskt, heldur út frá viðmiði markaðshyggju, þeirri hugmyndi sem kom þjóðfélaginu á hvolf.

Ef við segjum okkur úr Alþjóða gjaldeyrissjóðnum verður hugsanlega valtað yfir okkur með hervaldi, eignir okkar gerðar upptækar og þjóðin gerð að ríki í því landi sem sigrar í stríðinu um íslensku auðlindirnar. Þetta hefur gerst víða um heim. Af hverju ekki hér? Þetta er lítill heimur og vegalengdir stuttar.
Ef við göngum í Evrópusambandið sem sjálfstjóð þjóð, fáum við staðfestingu á sjálfstæði okkar, nokkuð sem hægt er að deila um í dag. Við getum ekki gengið í Evrópusambandið með því hugarfari að "þeir" muni taka allt af okkur. Þannig virka hlutirnir ekki. Þegar við göngum í félag með öðrum, þá getum við ekki eingöngu ætlast til með hroka og vandfýsni að "þeir" eigi að gefa okkur eitthvað, að "þeir" ætli að taka auðlindirnar frá okkur, heldur líka um hvernig við getum hjálpað "þeim".
Miðað við umræðu síðustu daga mætti halda að Íslendingar séu eigingjarnasta þjóð í heimi. Það talar enginn um að gefa af sér, allt snýst um að fá sem mest út úr samningum. Það er ekki jafnslæmt að gefa af sér og sumir virðast halda. Það gæti nefnilega komið til baka síðar meir á óvæntan hátt.

Ég er ekki að segja að við eigum að vera barnaleg og einföld í samningsgerð, heldur ganga til samninga með opnum hug. Ekki allir í heiminum ganga með einkunnarorð íslensku þjóðarinnar í skauti sér: "Ég fyrst!" Það er fólk þarna úti sem sýnir umhyggju og hefur áhuga á að bæta samfélag manna um allan heim, og þeim þætti bara flott ef Ísland tæki þátt. Þetta er ekki allt einhver valdaklíka, þó að vissulega séu pólitískar hættur víða. Við getum einfaldlega ekki gert þá kröfu að Evrópusambandið sé Kardimommubærinn. Það er enginn slíkur fullkominn heimur, ekki einu sinni á Íslandi nútímans, framtíðar, né fortíðar.
Stóra spurningin er: getum við bjargað íslensku þjóðinni frá skuldum óreiðumanna án þess að tapa sjálfstæði okkar, öðruvísi en með því að ganga í Evrópusambandið? Ef þú þekkir þá leið þætti mér vænt um að heyra hana.
Ef við getum ekki borgað 2000 milljarða á þremur árum, og lánið skuldfellur, þá þurfum við að gefa eitthvað annað en peninga, og við munum ekki hafa val um hvað það verður og hversu mikils virði það verður metið - en öruggt er að þar verður um náttúruauðlindir að ræða til að byrja með. Þær munu fara úr höndum okkar, ein á fætur annarri, þar til aðeins ein auðlind verður eftir: mannauðurinn.

Með slakara menntakerfi þar sem við getum ekki viðhaldið sterku menntakerfi án peninga, munu íslensk börn ekki ná að mennta sig til að verða það sem þau langar, heldur hverfa aftur í það far að mennta sig til að gera eitthvað ákveðið alla ævi, eða jafnvel ná ekki svo langt, fær ekki menntun og starfar þess í stað sem verksmiðjuþrælar erlendra valdhafa sem sífellt leita eftir ódýru vinnuafli. Af hverju ekki á Íslandi?
Kreppan er ekki enn byrjuð. Hún skellur á næsta vetur.
Hef ég einhver haldbær rök? Það eina sem ég hef fyrir mér er einhvers konar hundsvit, óseðjandi forvitni og spænsk skýrsla sem ég fékk í hendurnar um daginn.
Um daginn fékk ég skýrslu sem hét því dramatíska nafni "Crisis en Islandia" eða "Kreppa á Íslandi" í hendurnar sem unnin var úr spænskri rannsókn á íslenska bankakerfinu af OCEI (Observatorio de Coyuntura Económica Internacional). Þar var spáð fyrir um kreppu á Íslandi, að íslenskir bankar hefðu síðustu tvö árin stækkað margfalt umfram getu og að hrun þeirra væri óumflýjanlegt, að kreppa á Íslandi myndi vara í 10-15 ár.
Þessi spænska skýrsla var skrifuð árið 2006! Höfundur hennar er Alejandro García Carrasco, skrifuð í Valencia, 22. mars 2006. Þetta er áhugaverður lestur fyrir leikmann eins og mig.
Til þessa hefur allt sem í skýrslunni kemur fram orðið að veruleika, nema árafjöldi kreppunnar, af augljósum ástæðum.
Samkvæmt eigin áhættumati eru ógnirnar og veikleikarnir á það alvarlegu stigi að mikilvægt er að gera alvarlegar ráðstafanir. Besta ráðstöfunin fyrir þjóðina tel ég vera þá að ganga í Evrópusambandið. Besta ráðstöfunin fyrir mig og mína fjölskyldu er að flytja úr landi og reyna að byggja mér bækistöð erlendis frá og koma þjóð minni einhvern veginn að gagni þaðan, sjálfsagt með greinaskrifum, pælingum og vonandi sífellt betri gagnrýnni hugsun.

Mér var bent á fyrir nokkrum mínútum af einum af mínum allra bestu vinum að það er ein smá villa í þessum pælingum: Evrópubúar hafa verið okkur mjög fjandsamir undanfarið vegna ICESAVE og vilja hugsanlega ekkert með okkur gera. Hann spurði, af hverju ræðum við ekki líka við Bandaríkjamenn um upptöku dollarans, enda hefur Obama ekki sýnt annað en mikla vinsemd gagnvart Íslendingum?
Þetta finnst mér góð spurning, en leyfi henni að liggja hérna í kryddblöndu um sinn, áður en ég byrja að móta rökstudda skoðun um hana.
Myndir:
Photos that came via email, Page 5
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Samsæri gegn Samfylkingu?
27.4.2009 | 09:00
Í raunveruleikaþáttum sjónvarpsins um íslensk stjórnmál hef ég tekið eftir svolítið merkilegum tjáskiptum milli VG og Sjálfstæðisflokks, og fannst Steingrímur gefa Sjálfstæðisflokknum undir fótinn á föstudagskvöld, og Þorgerður Katrín svo gefa VG undir fótinn í gær.
Mig grunar að VG og Sjálfstæðisflokkurinn séu eitthvað að brugga saman og ætli að taka Framsókn með sér.
Málið er að ef Samfylkingin og VG ná ekki saman, þá mun Framsóknarflokkurinn hafa úrslitaákvæði, þar sem hann er lykilflokkur eftir kosningarnar - getur smeygt sér inn hvar sem er. Framsókn er alls ekki á því að fara í aðildarviðræður, það er ég viss um. Til þess eru skilyrðin sem þeir gáfu of mörg og flókin, og fyrst og fremst ætluð til að tæla til sín kjósendur beggja megin frá - þeirra sem vildu og vildu ekki ganga í Evrópusambandið.
Þannig að það er rangt mat hjá Samfylkingunni að meirihluti Alþingis muni styðja Evrópumálin. Það þyrfti hins vegar að spyrja persónulega hvern og einn fulltrúa Borgarahreyfingarinnar hvert viðhorf þeirra er, enda hafa þeir gefið út að þeir muni ekki standa í hjarðmennsku, heldur hvert og eitt taka þá ákvörðun sem þau meta skynsamlega út frá gefnum forsendum. Það getur verið erfitt að vinna með fólki sem hugsar sjálfstætt, en er það ekki betra en að vinna með hópi sem hagar sér eins og blind hjörð bundin í leiðtoga? Hvar er sjálfstæð hugsun ef það þarf alltaf að fylgja flokkslínunni?
Vinstri grænir eru í mjög góðri stöðu við samningaborðið, enda klókt ef satt reynist, að þeir hafi verið að dúlla sér baktjaldamegin með Sjöllum og Frömmurum, og ákveðið að standa saman gegn Samfylkingunni.
Málið er að íslensk pólitísk snýst engan veginn um það sem kemur þjóðinni best, heldur snýst hún enn og aftur um hagsmuni einstaklinga innan flokka, sem og hagsmuni flokksins.
Það er ekki enn búið að mynda ríkisstjórn, en samt er hún komin að falli á fyrsta degi!
![]() |
Óbrúuð gjá í ESB-máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Önnur mynd sem ég verð að deila með ykkur
27.4.2009 | 00:36
Össur heldur í hönd Ögmundar til hughreystingar, en allir voru frekar vondir við Ögmund í Kosningasilfri Egils. Það eina sem hann gerði af sér var að rökstyðja skoðun sína í smá snú-snú, en hann gerði greinarmun að það væri lýðræðislegt að leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og síðan um hvort að samningurinn yrði samþykktur, og því að sækja strax um aðild og leggja samninginn svo undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Egill sagði að hann væri að fara í hringi, en Ögmundur sagði að Egill væri of þröngsýnn til að sjá út fyrir kassann.
Eftir áreiti frá öllum hinum í kappræðunni fær Ögmundur allt í einu hjálp úr óvæntri átt, frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu - en Össur grípur strax í lófa Ögmunds til að... ég veit ekki.
Myndin segir fleira en þúsund orð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)