Af hverju mun ég kjósa X-O?
22.4.2009 | 10:21
Ég hef tapað miklu síðan í október: eignir mínar í heimili og bíl hafa fuðrað upp. Ég missti vinnunna í janúar fyrir að verja 10 vinnustundum í október og nóvember við að hvetja aðra Íslendinga áfram með að stofna bjartsyni.is ásamt forseta Íslands en í óþökk yfirmanns míns, og er að flytja úr landi. Með þessum skrifum vonast ég til að geta skilið eftir mig óeigingjarna og heiðarlega hugsun sem getur hjálpað fólki við að taka góða ákvörðun.
Frumforsenda þess að ég get hugsað mér að kjósa stjórnmálaflokk, er ef hann hefur staðist eðlilegar og sanngjarnar kröfur um heiðarleika. Því miður tel ég aðeins einn flokk standast þessar kröfur, og rökstyð mál mitt hér að neðan. Það er fyrst og fremst vegna andstöðu minnar við spillinguna sem birst hefur í hinni hefðbundnu flokkapólitík að ég sé mig knúinn til að berjast gegn þeim öflum, með fátæklegum skrifum mínum - ég hef ekkert annað - sem sýnt hafa að þeim sé ekki treystandi.

Árið 2007 lagðist ég í miklar pælingar á stefnum allra flokka, en uppgötvaði mér til skelfingar eftir rúmlega mánuð af samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að allt hélt áfram í sama farinu - Samfylkingin var búin að gleym að hún ætlaði að fella niður verðtrygginguna, hún var búin að gleyma að hún ætlaði í Evrópubandalagið, hún var búinn að gleyma að hún ætlaði að einbeita sér að lýðræðislegri stjórnmálum. Ég botnaði ekkert í hvað var að gerast. Nú þegar komið hefur í ljós að stjórnmálamenn hafa verið á launum hjá fyrirtækjum úti í bæ, fer maður að skilja hlutina aðeins betur.
Ég virði Framsókn sem og Sjálfstæðisflokk fyrir að reyna endurnýjun í sínum röðum, en held að slíkir hlutir þurfa að malla mun lengur en í fáeina mánuði til að skila sér. Fyrir endurnýjun voru þessir tveir flokkar á kafi í greiðslum frá fyrirtækjum og hafa ekki birt upplýsingar til að gera hreint fyrir sínum dyrum, og munu því alls ekki fá mitt atkvæði næstu helgi.
Hugsanlega aldrei aftur. En sjáum til.
Reyndar hef ég aldrei kosið annan þessara flokka. Málþófið, ofurstyrkir og leynd yfir fjárhagsvanda þjóðarinnar var Harakiri sjálfstæðisflokksins. Ég vil samt gefa Framsókn frí, enda er greinilegt að þeir eru að reyna að smeygja sér inn út um allar smugur með ansi loðnum en samt furðulega skýrum svörum um afstöðu. Skilyrðin eru bara svo mörg, eins og fyrir inngöngu í ESB að einfaldara væri að segja hreint Nei, en það er bara ekki jafn klókt.

Samfylkingin endurnýjaði ekkert nema formanninn, og stóð sig hræðilega í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en hefur hins vegar sýnt lit í stjórn með VG, en virðist samt frekar úrræðalaus þegar kemur að því að koma okkur út úr kreppu - heimilin eru að drukkna og þó þeim hafi verið réttur kútur og korkur, þá er langt í frá að verið sé að kenna fólki að synda. Einnig hafa verið að berast fréttir af háum greiðslum til flokksins og sumra einstaklinga, og þetta fólk hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum; þar af leiðandi er Samfylkingin útilokuð.
Lýðræðishreyfingin er því miður ekki trúverðug, þó að hún hafi háværan og duglegan forystusauð sem ég hef lúmskt gaman af, sem virðist þó sækja sér fólk á lista með frekar vafasömum hætti. Það er ekki heiðarlegt. Ég sá framboðsþátt á Stöð 2 í fyrradag, og ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar fulltrúi Lýðræðishreyfingarinnar hélt sína ræðu og svaraði sínum svörum, af virðingu við viðkomandi mun ég ekki nefna hann á nafn.
Vinstri Grænir hafa verið sigursælir við að sýna fram á að þeir séu heiðarlegir og með hreinan skjöld. Það er frumforsenda nokkurs stjórnmálaflokks. Fyrir það eitt kemur VG til greina. En til að fá atkvæði mitt er ekki nóg fyrir stjórnmálaflokk að sýna fram á heiðarleika - slíkt er að mínu mati einfaldlega frumforsenda sem fáránlegt er að allir geta ekki farið eftir.
Hinn flokkurinn sem kemur til greina þar sem hann hefur ekki sýnt óheiðarleika er Borgarahreyfingin, enda hefur hún reyndar ekki fengið tækifæri til spillingar - og hefur reyndar það skýr markmið og virðist reyndar ekki að taka afstöðu gagnvart málum sem ekki eru á dagskrá hjá þeim - en ég á reyndar erfitt fyrir mér að sjá Þráin Bertelson á Alþingi að ræða ekki eitthvað mál sem kemur upp og er ekki tengt stefnumálum Borgarahreyfingarinnar. Hann er einfaldlega búinn að sýna í gegnum árin að sem listamaður kemur honum allt við og hefur ríka þörf fyrir að tjá sig. Samt er Borgarahreyfingin álitlegur kostur, þar sem að ég sé ekkert að því að stjórnmálamenn hafi skoðanir á hinu og þessu og komi þeim á framfæri, bara alls ekki með málþófi vinsamlegast.
Hugsum okkur lítinn flokk komast á þing með tvo þingmenn. Viðkomandi flokkur gæti beitt sams konar málþófi og Sjálfstæðisflokkur gerði gegn stjórnlagaþingi og lamað þingið detti þeim það í hug að þvinga einungis sínum eigin málum í forgang.
Semsagt vegna skorts á trausti og heiðarleika koma aðeins tveir flokkar til greina fyrir mig: VG og Borgarahreyfingin. En ekki er allt sem sýnist.

VG virðist hafa sýnt heiðarleika og ekki hefur vissulega ekki brugðist sínum kjósendum. Aftur á móti líkar mér afar illa við hvernig VG misnotaði aðstöðu sína eftir að hafa komist í stjórn til bjargar efnahags þjóðarinnar, og komu í gegn gælumálum sem þau höfðu barist árangurslaust fyrir í tíu ár. Þó að það hafi verið góð mál, eins og að banna vændi á Íslandi, nokkuð sem ber reyndar að fagna - en átti ekki erindi á þessu augnabliki, og aukin vernd fyrir börn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi - sem voru reyndar ekki vel unnin lög að mínu mati, eins og ég hef áður útskýrt á blogginu, þá hefur VG ekki sýnt heiðarleika með því að misnota aðstöðu sína á þennan hátt. Troða sínum málum í gegn þegar björgun heimila hefði átt að vera í algjörum forgangi.
Einnig er ég ósáttur við hvernig Reykásinn var tekinn á fjármálaumræðuna strax og völdin voru komnar í þeirra hendur - allar kröfurnar sem gerðar voru í stjórnarandstöðu um skjaldborg fyrir heimilin virðast hafa snúist upp í andstöðu sína. Þeir mega eiga það að af svínunum í forarpyttinum, þá eru þau hreinust.
Samt skil ég að það er pólitískt að misnota aðstöðu sína og ég væri barnalegur ef ég sætti mig ekki við það. En ég er barnalegur og sætti mig ekki við slíkt. Reyndar falla skoðanir heldur ekki með öllum áherslumálum VG, því mér finnst þær sumar frekar öfgakenndar - en það er meginástæða þess að ég mun ekki kjósa þá. Hins vegar fyrir þá sem ætla að kjósa VG, eruð þið tilbúin að kjósa flokk sem lætur tilganginn helga meðölin, bara á annan hátt en hinir flokkarnir?
Þegar spillingin snýst um peninga hjá Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, en um pólitísk klókindi hjá Lýðveldishreyfingunni og Vinstri Grænum, þá með fullri virðingu fyrir þessum fimm flokkum sem ég treysti ekki til að fara með stjórn Íslands, kemur ekki til greina að greiða neinum þeirra atkvæði.
Þá er bara einn kostur eftir: Borgarahreyfingin. Reyndar gæti ég líka skilað auðu eða sleppt því að kjósa, en þá yrði atkvæði mitt ógilt og atkvæði þeirra sem kjósa einhvern af þessum fimm flokkum fengju aukinn styrk. Það vil ég forðast.
Ég vil taka fram að þó ég fordæmi þessa fimm flokka sem spillta, þá er fjöldi einstaklinga í þeim heiðarlegt og gott fólk - en ég fæ ekki að kjósa um einstaklinga, aðeins flokk - þess vegna kemur þetta fólk ekki til greina. Það eru einstaklingar í VG, Framsókn, Samfylkingu, og jafnvel Sjálfstæðisflokki sem kæmu til greina fyrir mig í persónukjöri, en ekki sem hluti af spilltum flokki.

Eini flokkurinn sem stendur eftir er semsagt Borgarahreyfingin eða ekkert. Það er X-O eða að skila auðu.
Þetta er grasrótarflokkur með venjulegu fólki sem ofbauð ástandið og mótmælti því með búsáhöldum og greinaskrifum. Þau ætla sér ekki að verða atvinnupólitíkusar og munu leggja flokkinn niður eftir að hafa náð markmiðum sínum, sem felast í stjórnlagaþingi, persónukjöri, leggja niður verðtryggingu og borga fólki til baka það sem búið er að dæla frá þeim með ofurvöxtum frá 1. janúar 2008 (eða með öðrum orðum gera verðtrygginguna afturvirka til 1. janúar 2008) en það tel ég að muni aldrei nást því að þá munu bankarnir hrynja aftur, því einu fæturnir sem þeir standa á eru einmitt þessir peningar sem verið er að dæla úr hjörtum þeirra sem skulda. Þrátt fyrir þessa óraunhæfu kröfu er hún réttlát, og ég styð hana.
Ég hef ákveðið að gefa þessum flokki tækifæri, einfaldlega vegna þess að hann sér sig ekki sem flokk og þar sem að hinir flokkarnir eru allir búnir að sýna afskræmda sál sína - og góðar ástæður til að berjast gegn þeim.
Þó að Borgarahreyfingin hafi ekki klækjarefi og reynslubolta stjórnmála í sínum förum, og þrátt fyrir að hafa fyrrverandi Framsóknarmann í forystu, þá held ég að ef einhver flokkur geti kynnt sig sem fulltrúa fólksins í landinu, þá er það hann. Þetta er fólkið sem sat úti í sal þegar Ingibjörg Sólrún sagði hátt og snjallt, oftar en einu sinni: "Þið eruð ekki þjóðin!"
Við erum víst þjóðin!
Þess vegna kýs ég X-O

Með fullri virðingu,
Hrannar Baldursson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (104)