Hvernig gjöreyðum við fordómum?

1199537116_6650

Að hafa fordóma er afar eðlilegur hlutur. Að vinna ekki úr þeim er alvarlegt mál. Sumir sem hafa fordóma hafa fengið þá frá uppalendum sínum, úr skólastofunni, sjónvarpinu, tölvuleikjum, Internetinu - það er hægt að fá þá úr hvaða áreiti sem er. 

Það þarf að vinna úr slíkum málum með gagnrýnni hugsun, þar sem viðkomandi meltir vísvitandi eigin skoðanir í opinni samræðu með öðrum einstaklingum, og lærir samtímis um aðferðir gagnrýnnar hugsunar. 

Það er hægt að læra gagnrýna hugsun með því að beita henni, en hún er ekki eitthvað sem að einn daginn skilar algjörlega fordómalausum einstaklingi út í þjóðfélagið, heldur manneskju sem er tilbúin að hlusta á ólíkar skoðanir og velta þeim fyrir sér. 

Að vilja ekki vinna úr fordómum og vera ekki tilbúinn að hlusta á önnur sjónarmið er hins vegar frekar alvarlegt viðhorf sem við stöndum ráðalaus frammi fyrir.

Ef við krefjumst þess að allir virði skoðanir og lífsviðhorf annarra, erum við að þvinga eigin skoðunum upp á þá, og það mun einfaldlega aldrei virka.

Bjóðum við upp á gagnrýnar samræður um viðkomandi málefni sem við teljum vera fordóma, tilbúin til að ræða málið á algjörlega hlutlausan hátt, þó að við trúum og vitum að fordómarnir séu rangir, þá er möguleiki á að viðhorfin breytist, því að í slíkum samræðum kemst fólk ekki hjá því að sjá gildin sem felast í gagnrýnni hugsun - ef það beitir henni líka á aðra hluti, það er að segja.

Ákveði fólk að ganga út af fundi vegna þess að það veit að maður með fordóma mun ávarpa þingið, þá er þetta fólk ekki að virða skoðanir viðkomandi, þó að skoðanir hans séu illa mótaðar og óafsakanlegar í alþjóðasamfélaginu. Það að ganga út er ekki beinlínis í anda mannréttinda þar sem eitt ákvæðið kveður á um rétt til skoðanafrelsis og annað til tjáningarfrelsis. 

Þarna mætast greinilega stálin stinn.

Eina færa leiðin til að eyða fordómum er með samræðum á hlutlausum grundvelli, en þar sem allir verða að fara eftir lögmálum gagnrýnnar hugsunar. Það er eina leiðin.

Er það fordómur gagnvart fordómum að fordæma þá alla fyrirfram sem illa?


mbl.is Þrír Íslendingar á Durban II ráðstefnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband