Á að banna fóstureyðingar?

 

abortion_2

 

Það kæmi mér ekki á óvart ef fóstureyðingar yrðu bannaðar með öllu í næstu ríkisstjórn, bæði með þeim rökum að fóstureyðingar séu líkamlegt ofbeldi gegn börnum, í samræmi við lög sem sett voru um líkamlega og andlega refsingu í vikunni, sem fjallað hefur verið töluvert um í þessu bloggi hérna: Ný lög í boði VG: Foreldrum eða forsjáraðilum er óheimilt að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum, þ.m.t. refsingum í uppeldisskyni, en það fór út í heitar umræður um fóstureyðingar - samband sem ég áttaði mig ekki á í fyrstu, en get séð fyrir mér að þessi lög geti einmitt haft slíkar afleiðingar í för með sér - að fóstureyðingar verði bannaðar með öllu á Íslandi.

Annað er að bann við fóstureyðingum getur sparað Ríkinu allan þann kostnað sem fer í aðgerðirnar á hverjum degi, en sparnaðurinn gæti skipt milljónum króna fyrir hvern dag ársins.

 

 

Grundvallarspurningin sem þarf að spyrja er hvort að fóstrið hafi rétt til að lifa undir eðlilegum kringumstæðum.

Ef svarið er já, þá þurfum við að skoða hvaða kringumstæður það eru sem geti réttlætt það að hægt sé að svipta fóstur lífi.

Ef svarið er nei, sem mig grunar að sé viðmiðið þegar litið er á fóstureyðingar sem getnaðarvörn, þá er ekki hægt að rökræða málið frekar við viðkomandi, enda er fóstrið ekkert annað en aðskotahlutur eða óþægindi sem skiptir engu máli hvort er fjarlægður eða ekki.

Þegar við erum búin að skipta þessum skoðunum í tvo mögulega flokka, getum við einbeitt okkur að þeim sem er meira aðkallandi, og komið með nýja spurningu fyrir báða flokkana.

 

 

Ef fóstur hefur réttindi, þá spyr maður hvenær fóstureyðing sé réttlætanleg. Sumir munu taka þá afstöðu byggða á trúarlegri afstöðu að fóstureyðing sé aldrei réttlætanleg. Viðkomandi hefur fullan rétt á slíkri trú. Aðrir munu segja að slíkt fólk alhæfi of mikið um hluti og aðstæður sem þeir geta ekki upplifað sjálfir. Það fer sjálfsagt eftir siðferðisviðmiðum hvers og eins, hvaða samfélagslegar aðstæður geta réttlætt slíka framkvæmd.

Það er hægt að telja ýmislegt til (ástæðurnar eru ekki allar jafn góðar):

  • móðirin er geðveik og er líkleg til að beita barnið ofbeldi - jafnvel á meðan það er enn í móðurkviði,
  • móðurinni hefur verið nauðgað
  • annað foreldrið er með eyðni
  • foreldrar eru fátæk og geta ekki einu sinni sinnt sjálfum sér, hvað þá barni
  • móðirin verður í lífshætti gangi hún með barnið
  • foreldra hafa þá skoðun að barn eigi ekkert erindi í þennan grimma heim og það sé hrein grimmd að auka þjáningu í heiminum
  • foreldrana langar ekkert í barn, langar bara í meira áhyggjulaust og ábyrgðarlaust kynlíf 

Ef fóstur hefur ekki réttindi, hvenær hættir það að vera fóstur og verður barn? Viðmiðunin er yfirleitt sú að eftir 16 vikur frá getnaði þroskast fóstrið yfir í að vera barn. Þegar við hugsum til sams konar þroska í lífinu sjálfu, þegar barn hættir að vera barn og verður unglingur, þá breytist réttarstaða þess og þarf til dæmis að borga hærri gjöld í strætó, og þegar unglingur verður að fullorðinni manneskju. 

Málið er að þessi skil eru ekki mælanleg á neinn raunhæfan hátt. Einstaklingar eru svo gjörólíkir hverjum öðrum. Þetta sést best þegar börn eru að breytast í unglinga - þau þroskast á afar misjöfnum tíma. Það er ekki einhver líkamsklukka sem segir nákvæmlega hvenær þroski á sér stað. 

Þá vaknar spurningin hvort að þroski sé eðlisbreyting eða stigsbreyting. Sé þroski eðlisbreyting, þýðir það að viðkomandi hættir að vera eitt og byrjar að vera annað. Sé um stigsbreytingu að ræða, breytast eiginleikar viðkomandi smám saman. Ég er viss um að það síðarnefnda á við mig þegar ég breyttist úr barni í ungling og síðan úr unglingi í fullorðinn mann. Þessi breyting er ekki dramatísk.

Af hverju er þá haldið fram að breyting úr fóstri í barn sé eðlisbreyting, en ekki stigsbreyting, eins og allar aðrar þroskabreytingar?

Ég held að þetta séu þau rök sem fólk þarf að velta fyrir sér reyni þau að réttlæta fóstureyðingar á þeim grundvelli að fóstur hafi ekki réttindi vegna þess að þau eru ekki orðin nógu þroskuð. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum ekkert gáfulagt sagt um muninn á fóstri og barni. Mér dettur að minnsta kosti ekkert í hug.

Málið er að það er mun hættulegra að fjarlægja fóstur úr móðurkviði eftir að sextán vikur hafa liðið, fyrst og fremst vegna stærðar þess, grunar mig og því er megin viðmiðið heilsa móðurinnar, en þessi rök hafa hins vegar ekkert að gera með eðli fóstursins.

 

Niðurstaða

Ég þykist ekki vera neinn stóridómur í þessu máli, en tel þó að ekki sé hægt að gera greinarmun á fóstri og barni sem stenst gagnrýni heilbrigðrar skynsemi. Einnig held ég að algjört bann við fóstureyðingum sé slæmur kostur, enda geta komið upp aðstæður sem réttlæta slíkt siðferðislega, kannski ekki í huga allra, en að minnsta kosti þeirra sem standa frammi fyrir slíkri ákvörðun um líf og dauða einstaklings.

Það er afar alvarleg ákvörðun að svipta einstakling lífi, og krefst að minnsta kosti þess að viðkomandi hafi hugsað um hvað þetta þýðir. Mér finns fráleitt að taka þennan rétt frá fólki, en þætti sjálfsagt að fólk sem hugleiðir fóstureyðingar ætti að sitja námskeið í gagnrýnni hugsun um fóstureyðingar fyrst, þannig geti það komist að niðurstöðu sem byggir á vel mótuðum skoðunum, frekar en tilfinningu og yfirborðskenndri réttlætingu.

 

Myndir:

Barn eða fóstur milli handa: SCHotline

Barnshönd: The Parent Spot

Fóstur: Deliberate Engagement

Fóstur í lófa: Camino Nuevo Public Radio

Fóstur á tveimur fingrum: Youth 4 Life Australia


Bloggfærslur 18. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband