Er hægt að mæla heimsku?
17.4.2009 | 17:44
HEIMSKA
"Djöfull ertu klikkaður," segir hann og reynir að finna veikan blett á sálarlífi viðmælanda þegar rök hans virðast standa af sér slagviðrið. Það furðulega er að persónuárásir virka oft ágætlega til að sannfæra fólk um ágæti eigin máls, en þær verða að vera svolítið lúmskari til að virka, þó að vissulega sé um rökvillu að ræða, og siðferðilega vafasama hegðun.
Þegar einhver segir annan heimskan eða klikkaðan, þá hlýtur viðkomandi að hafa ákveðin viðmið fyrir um hvað það þýðir að vera slíkum gáfum gæddur. Kannski hægt sé að vísa í greindarvísitölu eða hið svokallaða I.Q. (Intelligence Quotient) sem hinn endanlega dóm um hvort að viðkomandi sé yfir höfuð samræðufær eða ekki.
Greind er ofmetið fyrirbæri. Greindarpróf greina oftast rökleikni, stundum tengd tungumáli eða umhverfi, stundum er reynt að gera hlutina abstrakt, en þá spilar strax inn í hversu góða rök- eða stærðfræðiþjálfun viðkomandi hefur fengið. Reyndar er það stór spurning og erfitt að svara hvort að stærðfræðimenntun þjálfi rökhugsun, en það er önnur saga.
GREIND SKÁKMANNA
Í fyrradag hófst ágætis umræða um greind á umræðuhorni skákmanna. Þar sem að ég hef pælt í þessum málum og verið viðloðinn fræði sem kallast gagnrýnin hugsun þar sem þessar kenningar eru rýndar, hef ég ekki komist hjá því að mynda mér skoðun á hvað greind er, eða réttara sagt, hvað greind er ekki.
Hér er þráðurinn sem ég vísa í: Hver var greindarvísitala Bobby Fischers?
Skákgreind er spurning um einbeitingu og þjálfun fyrst og fremst. Þú þarft ekki að vera neitt sérstaklega klár til að verða góður skákmaður, heldur fyrst og fremst gefa þér mikinn tíma, þjálfa þig á góðan hátt og hafa sæmilegan skammt af heilbrigðri skynsemi. Reyndar er ólíklegt að skákmenn hafi mikið af heilbrigðri skynsemi, því ef svo væri myndu þeir hætta að eyða tímanum í þessa vitleysu.
Hvaða skákmaður sem er getur orðið mjög öflugur (eða öflug). Þetta snýst ekki um hæfileika sem gefnir eru af einhverju dularfullu afli, heldur hæfni sem hægt er að rækta. Þessi hæfni er margþætt og flókin.
Þegar fólk hefur fleiri áhugamál en skákina þá eru alltaf einhverjir aðrir sem komast lengra - því þeir setja hana einfaldlega hærra í forgangsröðina.
Hver sem er gæti orðið ógeðslega góður skákmaður ef hann eða hún nennti að æfa sig markvisst og stöðugt, og gæti hugsað sér skák sem atvinnu, og legði sig 110% fram. Þess vegna er grundvallaratriði í allri skákkennslu að koma inn áhuga hjá nemandanum sem vex og dafnar af sjálfsdáðum, en þarfnast bara smá vökvunar öðru hverju.
Skynsamlegustu leiðbeiningarnar sem ég hef rekist á um skáknám eru það sem þeir félagar Mark Dvoretsky og Yusupov skrifa, en ég beitti þeirra aðferðum í bland við aðrar við þjálfun á Salaskólakrökkunum, frá byrjendum og upp úr. Svínvirkar! Enda urðu þau heimsmeistarar.
Traustasta hæfnin kemur innanfrá, ekki með stanslausum fyrirlestrum og skákskýringum. Það verður að gera hlutina og hugsa um þá bæði með höndum og heila til að ná tökum á þeim. Hraðskákmenn þekkja vel hvernig hendurnar verða stundum huganum ofursterkari og finna stundum bestu leikina áður en maður áttar sig á þeim sjálfur.
Sumir öflugir menntunarfræðingar eins og til dæmis Robert Sternberg halda því fram að greindarpróf mæli aðeins eina af fjölmörgum gerðum greindar, og það er í stuttu máli sú greind að kunna að taka próf.
Mæli annars með þessari bók umfram aðrar langi þig til að þjálfa skákmenn:
GREINDARPRÓF
Ég hef notað greindarpróf við kennslu í rökfræði og val á nemendum, en átta mig vel á að slík próf, þó að þau greini vel rökgreind og próftökugreind, að það er margt sem vantar upp á til að þau mæli heildargreind viðkomandi manneskju.
Greindarpróf mæla ýmsa þætti, en segja nákvæmlega ekkert til um hvort að viðkomandi sé greind manneskja eða ekki. Þessi greinarmunur skiptir töluverðu máli. Hugurinn er nefnilega margfalt merkilegra fyrirbæri en margir átta sig á. Að tala um greindarpróf og greindarvísitölu er ofureinföldun sem segir okkur eitthvað ákveðið um tiltekinn þátt greindar, en ekkert um það hversu vel viðkomandi manneskja er gefin.
Til dæmis getur einstaklingur verið snillingur í að tala og sannfæra aðra um eigin skoðanir, en er heyrnarlaus á aðrar skoðanir en eigin. Slíkur maður getur skorað vel á greindarprófi, en myndi seint teljast greindur í samfélagi manna.
Greind er yfirheiti yfir einhvers konar sálargáfu mannsins. Það má rökstyðja að greind flokkist í ákveðna milliflokka, og síðan er hægt að greina þætti í þessum milliflokkum.
Örfá dæmi um fyrirbæri sem hægt er að flokka sem greind, og hægt að greina í smærri þætti:
- Kennsla
- Nám
- Tilfinningar
- Ávanar
- Hlustun
- Ritun
- Tal
- Trú
- Lestur
- Lausnir
- Stjórnmál
- Hjúkrun
- Lækningar
- Heilsa
- Innsæi
- Sköpunargáfa
Ég held satt best að segja að greind sé ekki til frekar en Hamlet, þó að við höfum einhverjar hugmyndir, og jafnvel skýrar, um eitthvað sem við gætum kallað greind. Hún þarf ekki að vera raunveruleg þó að við sjáum hana fyrir okkur.

FJÖLGREIND
Í samræðunni skýtur Björn Þorfinnsson að þeirri hugmynd að ekki sé hægt að þjálfa hvern sem er til að verða dúndurgóður skákmaður, og tekur fyrir ágætis dæmi: "Þrátt fyrir gríðarlegan áhuga á fótbolta þá hefði ég aldrei getað orðið leikmaður Arsenal," sagði Björn.
Reyndar halda sumir 'fjölgreindarfræðingar' því fram að ólíkar tegundir greindar henti fólki misjafnlega. Þessu hefur í þessum fræðum verið skipt í eftirfarandi þætti:
- Tungumálagreind
- Rökgreind
- Sjóngreind
- Líkamsgreind
- Tónlistargreind
- Manngreind
- Sjálfsgreind
- Eðlisgreind
Það er svo spurning hvort að fólk finni það sem henti þeim best í lífinu. Það er oft reynt að þröngva einstaklingum eftir leiðum sem hentar þeim engan veginn, og veldur slíkt oft miklu böli í samfélaginu. Ætli góðir skákmenn séu ekki yfirleitt með góða blöndu af rökgreind og sjóngreind, á meðan knattspyrnumaður þarf líkamsgreind og sjóngreind til að ná góðum árangri? Til að verða snillingur þarftu sjálfsagt líka þessa dularfullu eðlisgreind.

Skemmtileg fræði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hefurðu prófað kosningakompás Moggans?
17.4.2009 | 15:56

Smelltu hér til að vera með og birtu niðurstöður þínar (ef þig langar í athugasemdakerfinu) og látta vita hvort mælingin sé marktæk að einhverju leyti.
Ég tók þessa könnun. Það kom mér á óvart hversu nákvæmar niðurstöðurnar eru miðað við mínar pælingar undanfarið, en ég átti þó ekki von á jafn skýrri greiningu og birtist hérna
Flokkur | Samsvörun | |
![]() | Borgarahreyfingin (O) | 86% |
![]() | Samfylkingin (S) | 81% |
![]() | Framsóknarflokkur (B) | 75% |
![]() | Frjálslyndi flokkurinn (F) | 73% |
![]() | Lýðræðishreyfingin (P) | 73% |
![]() | Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) | 68% |
![]() | Sjálfstæðisflokkur (D) | 51% |
Það er nokkuð ljóst að fátt stoppar mig frá því að merkja við X-O úr þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)