Eru Íslendingar ekki lengur þjóð?
18.3.2009 | 10:49

"Það er ekki sanngjarnt að setja þetta upp sem baráttu milli þeirra sem vilja sama húsnæðisverð (og virðast í þínum augum vera góða fólkið) og svo þeirra sem vilja braska með íbúðir (vonda liðið). Þetta snýst miklu frekar um að ganga ekki á þá sem eiga sparnað eða hafa ekki skuldsett sig um of til að borga undir þá sem skulda mikið. Það er lítið réttlæti í því. (Landið)
Ég er ánægður með samræðuna sem birtist í athugasemdum greinarinnar "Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti", sérstaklega vakti þessi athugasemd áhuga minn, sem er svar við spurningu minni um hvort að hugsanlega séu ólíkir hagsmunir í húfi þegar kemur að lausn þess vanda sem snýr að skuldum íslenskra heimila.
Mér finnst áhugavert að setja þetta upp sem baráttu góðs og ills, en sjálfur sé ég þetta ekki þannig að tvö lið séu að berjast, annað gott og hitt illt, heldur að leikurinn sem slíkur geti endað með ósköpum ef við hugsum einungis út frá liðunum, en ekki útfrá framtíð leiksins sem slíks, þegar leikurinn er almannaheill. (Sem er reyndar langt frá því að vera léttvægur leikur í raun).

Mér þætti skynsamlegt að framkvæma 20% niðurskurð á skuldum heimila - og skil ekki alveg af hverju ýmsir fara að töfra fram tölur sem innihalda upphæðir tengdum fyrirtækjum. Það er allt annað mál.
Ég sé engan sem vonda eða góða aðilann í þessum málum, en hef hins vegar áttað mig á að fólk getur haft ólíkan hvata til að vera með eða á móti hugmyndum sem þessari. Þegar fólk skiptir sér í lið er hætta á að það tapi umhyggju fyrir öðrum sjónarmiðum en eigin. Annað hvort ertu með okkur eða á móti, eins og Bush sagði eða "Join us or die", eins og Svarthöfði sagði við Luke Skywalker.

Með eða á móti er ekkert val. Að sjá bæði sjónarhornin skýrt og sætta þau er hins vegar afar skynsamleg leið. Ráðamenn eiga ekki að skjóta hugmyndir í kaf vegna þess að þær koma frá "vitlausu" liði, heldur komast til botns í málinu, meta kalt og finna sanngjarnan flöt.
Ef hugarfarið sem leiddi þjóðina í gjaldþrot (staðreynd sem reyndar hefur ekki enn verið viðurkennd af öllum, hugsanlega vegna afneitunar, hugsanlega vegna þess að ég hef rangt fyrir mér) verður notað á þessi vandamál, þar sem fólk eða sérhagsmunahópar hugsa fyrst og fremst um hvernig það sjálft geti grætt á ástandinu og komið í veg fyrir að aðrir græði of mikið á því, þá erum við á villugötum og sjálfsagt glötuð.
Flestir hafa rétt fyrir sér út frá eigin sjónarmiðum, enda er leiðin til helvítis lögð með góðu malbiki, en séu þessi sjónarmið of þröng, og taka ekki til hagsmuna heildarinnar, tel ég að viðkomandi þurfa að kafa dýpra og sjá hlutina í víðara samhengi.

Þegar verið er að skipta verðmætum, þá virðist fólk hafa tilhneigingu til að verða gráðugt og gleyma náunganum. Svona eins og þegar þú kemur með of fáar pizzur í strákaafmæli og leyfir handalögmálum að ráða. Ef þú nálgast málið þannig, þá fáum við margar hendur upp á móti hverri annarri.
Ef við sjáum málið hins vegar sem björgunaraðgerð - eins og hrísgrjónum sem dreift er til nauðstaddra, sem reyndar er óhjákvæmilegt að einhverjir muni misnota og takast það sama hvaða ráðstafanir eru gerðar, þá verðum við að skilja að fórnarkostnaðurinn við björgunina lendir að einhverju marki á þeim sem telja sig stikkfrí og skuldlausa.
Það er enginn stikkfrí þegar þjóðin er í kreppu. Þeir sem halda það eru í afneitun. Kannski munu viðkomandi geta lifað lífinu eðlilega í nokkra mánuði til viðbótar, en það mun koma að skuldadögum þegar aðgerðirnar fara í gang innan fárra mánaða - og þá munu allir finna til og þegar fólk fer að finna til, þá fer það að skilja af hverju upp hafa risið samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna, samtök einstaklinga sem sjá aðeins lengra fram í tímann og hafa áttað sig á ástandinu. Reyndar er aðalfundur samtakanna á fimmtudag þar sem kosið verður til stjórnar. Ég verð fjarri góðu gamni og ekki í stjórn, en styð samtökin heilshugar og tel að fleiri ættu að gera það, og í raun allir sem vilja styðja við heimilin í landinu.
Það verða allir að leggja hönd á plóg og hjálpa. Ef það er ekki gert, þá erum við einfaldlega ekki lengur þjóð, heldur tilviljanakenndir einstaklingar og hópar sem búa á sama landsvæði. Erum við hætt að vera þjóð eða höfum við kannski aldrei verið þjóð?
Hefur Íslendingurinn sem berst um í brjósti mínu aðeins verið rómantískt ljóð?
Í öll þau ár sem ég hef búið erlendis hef ég verið afar stoltur af uppruna mínum sem Íslendingur og gengið uppréttur með menningararfinn í hug sem og hjarta. Ég hef séð þetta sem raunveruleg gæði, andleg gæði, sem hafa komið mér heilum gegnum erfið tímabil - þar sem ég hef upplifað töluvert af fordómum, fellibyl og flóð, en fundið mótvægi og styrk gegn þessu í eigin hugrekki sem byggir á ást og stolti gagnvart eigin þjóð og þeirri trú að ákveðin gildi Íslendingsins sé hægt að yfirfæra á allan heiminn, þó að þau séu kannski ekki öll yfirfæranleg.
Mér hefur verið tekið vel víða um heim og ætíð gætt þess að verja orðspor þjóðar okkar hvert sem ég kem. Af þessum ástæðum hef ég verið sáttur við að tala erlendis með sterkum íslenskum hreim - og ekki gert markvissar tilraunir til að blanda mér algjörlega inn í hópa með því að þykjast vera eins og þeir.

Fátt er verðmætara en sterk þjóðerniskennd, og á sama tíma er fátt hættulegra en sterk þjóðernishyggja. Takið eftir muninum á þessu tvennu. Þjóðerniskennd er jákvæð tilfinning og jafnvel stolt yfir eigin uppruna, á meðan þjóðernishyggja er það sjónarmið að eigin þjóð sé réttmætari og betri en aðrar þjóðir. Í rammanum gott og illt, þá er þjóðerniskennd góð, enda byggir hún á þekkingu, en þjóðernishyggja ill, þar sem hún byggir á fáfræði.
Þegar sterkar tilfinningar þjóðerniskenndar vakna einungis við sigur í knattleikjum eða söngvakeppnum, þá er eitthvað að. Við ættum að finna til þjóðerniskenndar þegar við sjáum Íslendinga kalla á hjálp og gera eitthvað í málunum frekar en að snúa við þeim bakinu.

Á sama tíma og fram koma tölur um að fleiri en 40.000 heimili séu í alvarlegum vanda heyrum við fréttir um að þúsundir Íslendinga séu á leið í sólarlandaferð yfir páskana.
- Er ekki eitthvað bogið við þetta?
- Getur verið að efnishyggjunni hafi fylgt ormar sem nagað hafa þjóðerniskenndina í sundur, innanfrá?
- Verðum við ekki að grípa til vopna, og er ekki besta vopnið okkar gagnrýnin hugsun?
"Siðferði er ekki kenningin um hvernig við gerum sjálf okkur hamingjusöm, heldur hvernig við gerum okkur að fólki sem verðskuldar hamingju." Immanuel Kant, úr Gagnrýni heilbrigðrar skynsemi
Myndir:
Skjaldamerki Íslands: Wikipedia.org
Gott og illt: Philosophica.org
Svarthöfði: Ocean State Republican
Pizza: Fat Loss School
Þjóðernishyggja: Emory Libraries
Handbolti: sport.is
Youtube myndband: Snorri Valsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)