Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti
17.3.2009 | 00:18
Útslagið gerðu viðtöl í Kastljósi og Silfri Egils 15. og 16. mars 2009.

Fyrir síðustu kosningar las ég vandlega stefnumál hvers flokks og tók þá ákvörðun að kjósa Samfylkinguna. Stefnurnar tók ég saman hér. Loforðin snerust um að setja heimilin í forgang, auka sanngirni í samfélaginu, og koma í veg fyrir sjálftökur og orðrétt:
"Það er þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Samfylkingin berst fyrir auknum jöfnuði, jafnvægi í efnahagsmálum og félagslegum framförum."
Ég axla ábyrgð með því að hrópa yfir heiminn að ég kýs þennan flokk ekki aftur.
Í fyrsta lagi stóð Samfylkingin máttlaus hjá þegar hrunið reið yfir, og gerði í raun minna en ekkert gagn. Hápunkturinn í flokknum var þegar Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér ráðherraembætti degi áður en ríkisstjórnin féll, og með þessari afsögn og því að afþakka laun næstu sex mánuði sem hann hafði rétt á, bjargaði hann eigin heiðri, þó að ekki hafi hann bjargað flokknum.

Í Samfylkingunni hef ég orðið var við undarlega tregðu við að taka af skarið og koma heimilum landsins til hjálpar. Við heyrum frasa eins og 'skjaldborg um heimilin' sem reynast síðan ekki hafa mikið innihald.
Ég vil reyndar þakka Samfylkingunni fyrir að hafa greitt leiðina fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðar, hugmynd sem fyrrum samstarfsfélagi minn kom með í hádegismat og ég birti síðan hér á blogginu og sendi nafna mínum, aðstoðarmanni Jóhönnu þá félagsmálaráðherra - og fékk ágætar undirtektir.
Hér er sú færsla frá 3. nóvember 2008: Af hverju má ekki nota séreignalífeyrissparnað til að borga húsnæðislán?
Mér finnst leitt að þessar hugmyndir komi ekki frá fólkinu sem hefur verið kosið. Af hverju þurfa svona hugmyndir að koma frá fólki utan úr bæ? Af hverju spretta þær ekki upp í hugum þess fólks sem kosið hefur verið á þing og ráðið í embætti? Það skil ég ekki.
Ég var upptekinn við önnur störf en tók samt eftir að eitthvað undarlegt var á seyði í bönkunum þegar ég skrifaði greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008

Það er eitthvað mikið að þegar maður út í bæ eins og ég sé þetta skýrt og greinilega en fólk með nákvæmar upplýsingar og við völd verður ekki var við neitt.
Ég hvatti fólk til að kjósa Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar. Það geri ég ekki aftur.
Eftir að hafa heyrt Árna Pál Árnason gjamma innihaldslítið í Silfri Egils og Sigríði Ingadóttur rífast af hörku gegn skynsamlegri hugmyndi í Kastljósi kvöldsins, mun ég sjálfsagt mæla af hörku gegn því að fólk kjósi þennan flokk aftur. Að Samfylkingin standi fyrir lengingu í hengingarólinni með greiðsluaðlögunum er skammarlegt. Það skammarlegt að ég skammast mín fyrir að hafa kosið flokkinn í síðustu kosningum og lofa því að ég muni ekki kjósa hann aftur. Það hafa þessi tvö viðtöl sannfært mig um.
Þessi rök sem við höfum lengi séð fyrir að ekki skuli koma með heildarlausn af því að það hjálpi fólki sem er ekki komið í alvarlegan vanda núþegar er ljótur stimpill á flokk sem hefði getað átt sér fína framtíð.
Málið er að neyðarúrræðið er komið. Það er búið að fresta eignatöku á heimilum til ágúst næstkomandi. Næsta skref er að fólk fái til baka þá peninga sem var rænt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokknum og Tryggvi Þór Herbertsson hjá Sjálfstæðisflokknum sjá þetta sem nauðsynlega réttlætisaðgerð - að það fólk sem átti sína fasteign fyrir hrun, eignist aftur í sinni fasteign og festist ekki við hana áratugi til viðbótar. Að Samfylkingarfólk sjái þetta augljósa mál ekki skýrum augum og slái upp í kringum það pólitísku ryki er óskiljanlegur afleikur hjá flokki sem var næstum búinn að bjarga andlitinu.
Það þarf að hlusta á það sem fólk hefur að segja, sérstaklega ef það eru hugmyndir um lausnir, án þess að falla í skotgrafir flokkspólitíkar.

Við höfum tvo kosti. Þeir eru einfaldir. Hvorugur fullkominn.
1) Framkvæmum aðgerðir fyrir þá sem eru verst staddir og látum þá sem eru illa staddir bíða eins og lömb sem fylgja blindum hirði þar til þau eru nálægt því að fjalla fram á bjargsbrún - þá skal þeim bjargað í réttri röð, þó að þeir séu 100.000 talsins ef þeir standast skilyrði sem sett eru fram.
2) Drögum til baka tapið sem fólk hefur orðið fyrir vegna árásar á gengi íslensku krónunnar og gífurlegar verðbólgu sem er á ábyrgð þeirri sem eiga lánin - til þess eins að mjólka hraðar úr spenum skuldara. Látum það sama ganga yfir alla. Ljóst er að einhverjir græða á þessu og það er vissulega ósanngjarnt - en getur einhver virkilega staðið við þá hugmynd að það sé mikilvægara að koma í veg fyrir að einhver græði pening á ástandinu, heldur en að gera fyrirbyggjandi aðgerðir til að bjarga heimilum tugi þúsunda mannvera?

Í augnablikinu er allt útlit fyrir að ég skili auðu í næstu kosningum og með því meina ég megna óánægju gagnvart því sem verið er að bjóða upp á, sem er sambærilegt við að ganga út af veitingastað ofbjóði þér verðið, framkoman eða maturinn. Eða allt þrennt.
Við þurfum að framkvæma flata aðgerð við fyrsta tækifæri og þurfum að gagnrýna af hörku þá sem standa í vegi fyrir slíkri framkvæmd með þeim rökum að þá græði einhverjir á ástandinu.
Björgunaraðgerðir kosta ákveðnar fórnir. Að koma í veg fyrir hamfarir er ennþá verra.
Umræddir sjónvarpsþættir:
Kastljós 16.3.2009
Silfur Egils 15.3.2009
Myndir:
Áttaviti: ABC Radio National
Snjóflóð: All About Snow
Maður út í bæ: Roaring 20 - Somethings
Maður á krossgötum: University of Westminster
Ógirnilegur réttur: Weight Loser Blog
(Til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég ekki á leið í framboð og hef engan áhuga á að starfa á vettvangi stjórnmála).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)