Bloggum betur 1: Ekki brjóta gegn lögmálum sem þú skilur ekki.
12.3.2009 | 22:37

Það er eins og sumir hafi tilhneigingu til að vaða stjórnlaust áfram í þeirri blindu trú að hegðun þeirra sé stjórnað af einhverri ómeðvitaðri snilld sem viðkomandi býr yfir. Sjálfur er ég engin undantekning.
Fyrst þegar ég skrifaði smásögu ætlaði ég að brjóta gegn öllum lögmálum smásögunnar og sýna heiminum að betri rithöfundur hafi ekki fæðst á jarðkringlunni. Ein af snilldunum fólst í því að sleppa algjörlega greinarskilum. Önnur þeirra var að sleppa öllum hástöfum og sú þriðja að sleppa punktum. Hvílík snilld!
Þegar vinur minn las söguna síðan yfir og minntist á að óþægilegt væri að lesa verkið, runnu á mig tvær grímur, en lærdómurinn síaðist samt hægt inn. Eftir fjölmörg sambærileg mistök fór ég að átta mig.
Ég fattaði nefnilega ekki að þegar maður skrifar er maður að stofna til samskipta við aðra manneskju, í þessu tilviki þig, manneskju sem ég veit ekki hver er en verð einhvern veginn að ímynda mér til að samskiptin heppnist. Og það að þú verðir að gera mig þér í hugarlund flækir málið ennþá meira, sérstaklega ef ég ákveð að skrifa út frá sjónarhorni sem er ekki mitt eigið, og fyrir lesanda sem er einhver annar en þú.
Allir geta skrifað endalaust og dúllerað með orð, en þeir sem geta skrifað og haldið athygli lesandans, og í leiðinni sagt eitthvað sem skiptir máli, er skemmtilegt að lesa og er fróðlegt - eru ekki einfaldlega með einhvern meðfæddan hæfileika sem hellist yfir þá á augnablikum undraverðrar uppljómunnar.
Það að skrifa vel er erfið vinna. Vinna sem tekur tíma og krefst þess að höfundi þyki vænt um að vera langt í burtu frá öðru fólki, en samt á dularfullan hátt afar nálægt því. Ritgáfan kemur ekki af sjálfu sér. Það er í mörg horn að líta og alltaf hægt að bæta sérhvern texta. Þennan líka.
Þegar maður hefur náð valdi á einu stílbrigði, uppgötvar maður annað sem þarf að laga. Til dæmis veit ég að þessi grein er alltof löng og ekki nógu hnitmiðuð, en geri ekkert í því - og held að ég verði með tíð og tíma að hemja þessa ógurlegu ritgleði sem mér býr í brjósti til að setja saman hnitmiðaðri texta. Gallinn er bara sá að ég hef ekki tíma til þess. Það er nefnilega margfalt erfiðara og tímafrekara að koma hugmynd á framfæri í stuttum texta en löngum.
Dæmi um lögmál: notaðu greinarskil til að auðvelda lesendum lestur.
Viskusteypa: Lögmál betri bloggskrifa er ekki hægt að telja á fingri annarar handar nema höndin sé á milli tveggja spegla og þú teljir fingurnar aðeins hinumegin.
Mynd: On the Wine Trail in Italy
Bloggar | Breytt 13.3.2009 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eru fréttir og áreiti síðustu daga úr takti við tímann og tilheyra þar af leiðandi súrrealisma?
12.3.2009 | 10:18
Það er svo margt sem mér finnst snúið og súrt eða súrrealískt þessa dagana.
Fréttirnar um blysgöngu til að þrýsta á formannsframboð Jóhönnu Sigurðardóttir, þar sem að skipuleggjandinn ætlaði að selja blys á vægu verði, voru beinlínis súrar. Enginn mætti fyrir utan skipuleggjandann, þrjá kvikmyndatökumenn og tvo ljósmyndara! Tölum um dramatíseringu. Sjá hér.Fyrirsagnir úr kosningabaráttu fyrir prófkjör einstaklinga sem hitta engan veginn í mark og hvernig kandídatar virðast almennt vera algjörlega úr tengslum við þjóðina sem stefnir hraðbyr á erfiðustu krepputíma Íslandssögunnar. Slagorð sem áttu við fyrir tveimur árum virka sjálfsagt í dag fyrst allir eru að nota þau, en er þetta ekki kjánalegt?

Málþóf stjórnmálamanna og rifrildi um leikreglur á Alþingi meðan þjóðin þarf lífsnauðsynlega á samvinnu að halda. Allt í einu eru kommar orðnir kapítalistar og kapítalistar kommar. Snúið og súrt.
Hvernig talað er um hagkerfi eins og um eilífðarvél væri að ræða. Eilífðarvélar eru til í vísindaskáldsögum og ná þá yfirleitt valdi yfir mannfólkinu. Kannski kominn sé tími til að hringja í Neo og fá hann til að ýta á RESTART?

Að maður sem kastar skó framhjá Bush fyrrum Bandaríkjaforseta fær þriggja ára fangelsisdóm fyrir mótmæli sín, á meðan Íslendingar fá ævilangt skuldafangelsi hvort sem þeir mótmæla eða ekki.
Þessi mynd í fréttinni um Last House on the Left finnst mér snúin, en hún ætti frekar við um The Exorcist.

Að íslenska hagkerfið er farið algjörlega á hausinn, en samt getur þúsund manns leyft sér að fara í golfferðir erlendis og enn fleiri í þægilegt frí yfir páskana á meðan fjöldi fólks þarf að flýja land af illri nauðsyn.
Þetta eru súrir tímar.

![]() |
Enginn mætti í blysförina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)