Milk (2008) **1/2

milkposter

Milk er því miður meiri formúlumynd en það frumlega stórvirki sem hefur verið talað upp síðustu vikurnar fyrir Óskarsverðlaunahátíðina. Mikið hefur verið rætt um snilld Sean Penn, en fyrir þá sem hafa séð I Am Sam (2001) þar sem hann leikur hinn þroskahefta Sam í baráttu um forræði yfir dóttur sinni, og All The King's Men (2006) þar sem hann leikur pólitíkusinn Willie Stark, þá erum við í raun ekki að sjá neitt nýtt, heldur í raun blöndu af þessum tveimur hlutverkum, þar sem að Harvey hefur hægan málróm Sam og pólitíska útgeislun Willie Stark.

Samkynhneigðir í Milk hafa flestir frekar hægan talandi og annarlegt látbragð, sem er einfaldlega klisjukennd staðalímynd af samkynhneigðu fólki. Ég á bágt með að trúa því að kynhneigð fólks spili svona stóra rullu í látbragði þess. En kannski hef ég rangt fyrir mér.

Harvey Milk (Sean Penn) hefur verið lokaður í skáp eigin kynhneigðar áratugum saman og ákveður loks að sprengja sig út úr skápnum með því að berjast fyrir því að rödd samkynhneigðra fái að heyrast í bandarísku samfélagi. Hann velur að flytja til San Francisco ásamt elskhuga sínum Scott Smith (James Franco) þar sem að umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á að vera meira en annars staðar, en þó ekki nógu mikið til að þessi ákveðni hópur fólks geti gengið óáreitt um götur borgarinnar.

milk01

Sagt er frá hvernig Harvey Milk með mikilli þrautseigju og persónulegum fórnum fær fyrstu kosningu í sögu Bandaríkjanna sem samkynhneigður einstaklingur, og þau djúpstæðu áhrif sem hann hefur á samfélagið í kringum sig, og þá einkum á hans helsta samstarfsfélaga Dan White (Josh Brolin) sem Milk telur vera einn af þeim, mann með bældar kynhneigðir.

Það má segja að Milk sé blanda af þemum sem birst hafa áður í myndum eins og American Beauty, Brokeback Mountain og Malcolm X. Allar þessar myndir eiga það sameiginlegt að þær fjalla á opinskáan hátt um viðkvæm baráttumál minnihlutahópa.

Málið er að Milk er miklu meira mynd um málefni heldur en snilldar kvikmyndagerð, það er einfaldlega vitað að viðurkenning á samkynhneigð er eitt af vinsælustu baráttumálunum í Hollywood þessa dagana og það er einkum þess vegna sem myndin nýtur svo mikils umtals og slíkrar athygli.

milk02

Ég verð að játa, að þó að mér hafi ekki þótt The Dark Knight besta mynd allra tíma, þá finnst mér hún eiga meira erindi á Óskarsverðlaunahátíð en Milk. En svona er sýndarheimur Hollywood. Þetta snýst um vinsældir og pólitík, rétt eins og Eurovision.

Milk er þrátt fyrir lengd sína ekki beinlínis leiðinleg eða langdregin. Mér fannst hún bara ekkert spes. Ævisögur og ádeiluefni hafa hins vegar alltaf þótt efnilegt verðlaunafóður. Spurning hvort að svo verði á ár.


Bloggfærslur 20. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband