Eru skoðanir með og á móti ICESAVE byggðar á trúarsannfæringu eða skynsemi?

Að samþykkja ICESAVE eins og frumvarpið er í dag, er að stökkva fram af himinháum kletti án öryggisnets, vængja, fallhlífar eða gúmmíteygju. Þó að maður stökkvi fram af fjalli geti mótvindur kannski verið nógu mikill til að maður lifi fallið af... RIGHT!

Hvernig er hægt að sannfæra manneskju sem ætlar að taka slíkt stökk um að það sé hættulegt, að hún geti dáið, og ef hún vill ekki að hlusta og ásakar viðmælandann einfaldlega um að dramatísera hlutina, hvernig er hægt að sannfæra slíka manneskju og hvað getur maður gert ef hún hefur þúsundir manna í eftirdragi og ætlar að stökkva fyrst og láta alla hina fylgja á eftir, með góðu eða illu?

Eygló Harðardóttir skrifar ágætis pistil um ICESAVE málin, þrátt fyrir að hún starfi á Alþingi og sé Framsóknarkona. Þar skrifar hún meðal annars:

"Kjarninn virðist vera sá að við sem eru á móti málinu trúum að við verðum látin greiða þetta og þeir sem eru með málinu trúa því EKKI að við verðum látin borga þetta."

Ef þetta er satt, að ICESAVE málið snúist um trú eða vantrú, þá er um afar alvarlegt vandamál að ræða. Ef kjarni málsins er trú sem byggir á sannfæringu, sem byggir á þeirri von að það þurfi kannski aldrei að borga reikninginn sem verið er að samþykkja, þá eru viðkomandi á afar slæmri braut. Ef málefnin eru orðin að trúarbrögðum verður ekkert pláss fyrir rökræðu, og án rökræðu verða ákvarðanir teknar sem byggja á loftköstulum einum saman.

Þetta útskýrir hvers vegna ræður á Alþingi virðast alltaf vera í kappræðustíl, í stað samræðustíls. Kappræður snúast um að sannfæring eins verði ofan á, en samræður snúast um að dýpka þekkingu og skilning á málefnum og taka síðan góða ákvörðun sem hefur skynsamlegan grundvöll. Ef Alþingismenn trúa ekki á kraft skynseminnar, þá er Alþingi glatað dæmi og þyrfti helst að kippa því úr sambandi strax í kvöld. 

Áhugavert að Eygló skuli nota orðið trú og vissulega er afar varhugavert að byggja slíka ákvörðun á trú frekar en skynsemi. Stærra vandamál er að þingmenn virðast sumir hverjir ekki fara eftir eigin samvisku, heldur fylgja fyrirskipunum leiðtoga eigin flokks. Það er einnig andstætt heilbrigðri skynsemi.

Reyndar eru til fordæmi fyrir slíkum ákvörðunum. Álíka gáfulegar ákvarðanir voru teknar á miðöldum þegar börn voru send í krossferðir til Jerúsalem byggt á þeirri trú og von að sakleysi barnanna myndi yfirstíga öll vandamál. Börnunum var slátrað á leið sinni að landinu helga. 

Vísinda- og fræðimenn hafa stöðugt verið í baráttu við trúarstofnanir sem vilja ekki sætta sig við að hugsanlega geti heimsmynd þeirra verið röng. Þetta er svo augljóst að það þarf varla að nefna dæmi. Það virðist einhver sjúkdómur hafa heltekið Samfylkingu og VG. Ég veit að þetta fólk vill vel. Það vill hjálpa þér að komast yfir götuna, hvort sem þú vilt fara yfir götuna eða ekki. Ef ekki og þú streitist á móti, verður kölluð til sérsveit lögreglu og þú skalt fara yfir götuna. 

Reyndu að ræða við manneskju sem er sannfærð um að einhver ósannindi eru sönn, eitthvað sem þú veist að eru ósannindi, og þú munt ekki hafa árangur af því erfiði að sannfæra viðkomandi. Skortur á skynsemi finnur alltaf einhverja réttlætingu fyrir eigin trú, sama hversu fjarstæðukennd hún kann að vera.

Í tilfelli Samfylkingar grunar mig að sannfæringin sé sú að ef ICESAVE lögin verða að veruleika, þá muni íslenska þjóðin neyðast til að ganga í Evrópusambandið, sem síðasta úrræðið í þröngri stöðu, að VG vilji þvinga þessu í gegn til þess eins að halda áfram völdum. Ég hef ekki heyrt nein skynsamleg rök fyrir samþykkt á ICESAVE frumvarpinu, en heyrt mörg góð rök gegn því. Ég mun ekki ræða þau rök í þessum pistli, sem þegar er orðinn alltof langur, heldur hugsanlega í næsta pistli, þar sem rökin gegn ICESAVE eru svo hrópandi augljós að óskiljandi er hvernig hægt er að setja sig á móti þeim, nema þá með beitingu trúar og óljósra vona.

Í skák eru leikir eins og ríkisstjórnin er að leika núna kallaðir örvænting, en það er fyrirbæri sem á sér stað í erfiðri stöðu og skákmaður reynir að bjarga sér með því að hræra í stöðunni, fórna köllum og vonast til að hinn aðilinn geri einhver mistök. Slíkar aðferðir bera sjaldan góðan árangur, en stöku sinnum gengur slíkt þó upp, en það er bara undantekning og við erum að tala um minnstu mögulegu áhættu, sem er að tapa einnig skák, ekki að leggja undir framtíð komandi kynslóða.

Það er sorglegt hvernig þingmenn skipta sér eftir flokkslínum í stað þess að fylgja lögmálum gagnrýnnar hugsunar, ákvarðanatöku sem byggir á skynsemi og raunverulegu áhættumati.

 


Viðeigandi myndband frá Monty Python, öll þrjú atriðin.

 

Athugasemd: Ríkisstjórnin þarf að endurskoða hug sinn, því hún er að gera grundvallarmistök í verkefnastjórnun, sem felst í of mikilli bjartsýni. Allt þarf að ganga upp til að áætlunin verði að veruleika. Trúðu mér. Ég hef sjálfur brennt mig á þessu.

Það má lesa um bjartsýnisvilluna á Wikipedia, þar segir meðal annars:

"Bjartsýnisvilla birtist í kerfisbundinni tilhneigingu fyrir fólk til að vera of bjartsýnt um útkomu áætlaðra aðgerða. Þetta inniheldur ofmat á líkindum jákvæðra atburða og vanmats á líkindum neikvæðra atburða. Þetta er ein af mörgum tegundum jákvæðra tálsýna sem fólk er almennt veikt fyrir."


Bloggfærslur 6. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband