Þór Saari í hræðsluleiðangri eða Steingrímur J. í afneitun?

Ég flutti úr landi í vor þar sem ég sá ekki fram á að geta borgað skuldir mínar á Íslandi. Samt hef ég fullan hug á að standa við mínar skuldbindingar. Þykir ekki spennandi að fara gjaldþrotaleið, enda veit ég að kröfur á einstakling eru endurnýjanlegar þannig að þær fyrnast aldrei á meðan maður lifir. Ég hafði keypt mér 10 ára gamla íbúð árið 2005, eftir að hafa búið erlendis í mörg ár, og jafngamlan bíl. Eiginkonan keypti einnig gamlan og notaðan bíl með myntkörfuláni, eftir að í ljós kom að strætisvagnasamgöngur virkuðu ekki nógu vel til að tryggja að við gætum staðið við skuldbindingar tengdar skólun barna og vinnu. Átti ekki flatskjá. Sukk?

Vissulega fór ég illa að ráði mínu með að flytja aftur til Íslands. Og ákveðið dómgreindarleysi að taka lán fyrir íbúð og bíl. Þannig tók ég þátt í góðærinu, frekar en að flytja ekki aftur heim. En þetta er það sem allir gerðu á Íslandi. Og ég er vitur eftirá. Sé eftir því að hafa tekið þessi lán og vil losna við þau fyrir fullt og allt. Þau eru afar íþyngjandi. Sérstaklega þegar eignirnar eru að gufa upp. Enda sagði fjölskylda mín erlendis að það væri brjálæði að taka slík lán. Ég hlustaði ekki vel á þau og lét Íslendinga hins vegar sannfæra mig án þess að vera of gagnrýninn. Þau mistök ætla ég ekki að endurtaka. Spurning hvort ég fái tækifæri til þess.

Þegar ég missti vinnuna og sá fram á að þó ég fengi sæmilega launaða vinnu, og þó ég hefði haldið henni, hefði ég og mín fjölskylda aldrei komist út úr skuldafangelsinu, nema ríkisstjórnin gerði eitthvað kraftaverk. Ég reiknaði ekki með slíku, enda mat ég stöðuna þannig að íslenskir stjórnmálaflokkar hefðu í raun engin völd, væru gagnslausir, þó að þeir vildu vel, og að raunveruleg völd væru í höndum lítils hóps auðmanna, sem hefur tök á almenningsáliti í gegnum fjölmiðla, styrkt hefur ýmsa þingmenn, hafa staðið á bakvið fjölmörg ólög, og stjórna jafnvel sjálfu dómskerfinu. Þar að auki trúi ég ekki á handstýrt gengi. Ég las Ríkið eftir Platón afar vandlega til að öðlast dýpri skilning á eðli stjórnmálanna, og komst á þá skoðun að Ísland væri ekki lengur lýðræðissamfélag, heldur auðræði sem stjórnað væri af fáum.

Það kemur fleira til, en þessar ástæður þóttu mér nægar til að flytja með fjölskylduna úr landi. Ég á fleiri duglega ættingja sem flutt hafa út, og veit um afar vel menntað vinafólk sem einnig er á leiðinni innan skamms.

Í mínum huga er fjöldi þeirra sem flutti úr landi engan veginn eðlilegur, enda ætlaði ég mér að búa með eiginkonu og börnum á Íslandi til frambúðar. Þar til mig fór að gruna í hvað stefndi um vorið 2008, þá byrjaði ég að leita leiða erlendis.

Það að segja þennan fjölda sem þegar er fluttur úr landi vera eðlilegan finnst mér satt best að segja móðgandi gagnvart þeim sem hafa neyðst til að flytja frá landinu sem ól okkur upp. Við erum Íslendingar með mannlega reisn, sem vildum búa á Íslandi og taka þátt í uppbyggingu góðs samfélags. Hins vegar eru aðstæður til þess hrikalegar, fyrst og fremst vegna mannlegrar spillingar, annarlegs hugarfars og óréttlætis.

Hvert sem maður lítur virðist fólk vera álitið tannhjól í kerfi sem þarf að rúlla áfram, og upp komu hjá mér hugrenningar um einhvers konar fasisma, þar sem trúin var ekki á að samfélagið væri hrein og vel sett saman vél sem rúllaði áfram með virkri þátttöku samfélagsins, heldur sams konar vél, sem haldið væri við af fúskurum, sem krefjast þess að vélin sé hrein og gljáandi á yfirborðinu, en nákvæmlega sama um hvort hún væri rotin að innan og virkaði í raun eða ekki.

Ísland var orðið að ríki hulið brúnkukremi og bóni.

Að lokum féll Ísland saman þjáð af anaroxíu og stressi, og í stað þess að kalla til lækni og sálfræðing til að hjúkra sjúklingnum, var hrópað á hjálp, bara einhvern sem vildi sjúklingnum vel, hvort sem hann þekkti einhver úrræði eða ekki. Þannig að auðvitað fengu steinafræðingur og flugþjónn hlutverk læknisins og sálfræðingsins, þar sem raunveruleg þekking þykir ekki nauðsynleg þegar kemur að hjálparstörfum. Vinsældir og trúverðugleiki skiptir meira máli. Absúrd heimssýn!

Sýnileg umhyggja fyrir kosningar og þrá í völd er nóg til að komast inn á heimili sjúklingsins. Og svo þegar greyið liggur fárveikt uppi í rúmi, eru notuð gömul heimilisráð eins og að láta hann bara jafna sig í friði. Allt í einu er sjúkrarúmið orðið að dánarbeði.

Þór Saari eða hræðsluáróður hafa ekki haft áhrif á mína ákvörðunartöku. Það voru ískaldar staðreyndir og einfalt áhættumat sem sannfærði mig um að heilsu barna minna stafaði meiri hætta af því að búa á Íslandi en að flytja úr landi.

Ég vil borga mínar skuldir. Það hef ég alltaf gert. Og alltaf staðið við hverja einustu afborgun. En ég sá fram á að geta það ekki lengur. Ég gat ekki lengur treyst á sjálfan mig til að standa við eigin skuldbindingar. Ég vil borga mín lán og losna endanlega við þau.

Þegar í ljós koma úrræði sem þýða að lánin verða lengd um óljósan tíma með aukalántöku, höfuðstóll fyrra láns ekki leiðréttur í samræmi við glæpina sem voru framdir, og að nánast engin samúð er með þeim sem eru í samskonar stöðu, er ljóst að Ísland er einfaldlega ekki ætlað þeim sem gerðust það óskammfeilnir að taka lán fyrir þaki yfir höfuðið og fararskjóta. 

Frekar hefði maður átt að vera vitur og leigja íbúð árið 2005, en með þeim gölluðu formerkjum að slíkar leigur eru yfirleitt til eins árs og fjölskyldan hefði hugsanlega þurft að flytja árlega úr íbúð í íbúð. Hvernig líf er það, fyrir börn?

Því miður hefur reynsla mín af Íslendingum að miklu leyti verið afar sorgleg frá því ég flutti 'heim' árið 2004, til allt annars Íslands en ég flutti frá árið 1998. Í stað samfélags þar sem fólk stóð saman og studdi hvert annað, fannst mér ég fluttur til einhverrar ískaldrar distópíu, þar sem allir ættu að vera steyptir í sama form. Að heyra skoðanir eins og að hjónaskilnaður væri sjálfsagður hlutur, að eðlilegt væri hversu mörg börn væru greind ofvirk, að sjá hvernig kennarastarfið, sem ég menntaði mig til, var ekki nægilega launað til að hægt væri að hafa þak yfir höfuðið.

Allt voru þetta mikil vonbrigði. Í landi þar sem mikið góðæri átti að eiga sér stað.

Góðæri sem var ekkert annað en goðsögn, einhvers konar gervitrúarbrögð með fjölda nýrra guða sem horfðu yfir Ísland og frá Íslandi með úttroðna vasa af innistæðulausum tékkum.

En aftur að spurningunni: Er Þór Saari í leiðangri til að sannfæra þjóðina um að hún ráði ekki við skuldir sínar? Svar mitt er nei. Hann er að sýna blákaldan veruleika. Hann segir einfaldlega satt og rétt frá. Það hljómar kannski eins og bölsýnistal, en er það ekki. Veruleikinn er einfaldlega frekar svartur þegar skuldir þjóðarbúsins eru metnar á 310%, og gætu auðveldlega hækkað til muna umfram það vegna ýmissa óvissuþátta.

Steingrímur virðist hins vegar vera í afneitun. Hann berst fyrir því að ICESAVE komist í gegnum Alþingi án þess að berjast fyrir því með rökum í þingsal. Þess í stað talar hann um að málþóf sé slæmt, en þetta málþóf er aðeins til komið vegna þess að þvinga á frumvarpi í gegn án rökstuðnings, þar sem stjórnaraðstaðan telur um ólög að ræða og þar með skyldu sína að berjast gegn þeim, afstaða sem ég skil vel og ber virðingu fyrir, þrátt fyrir að ég telji viðkomandi ekki treystandi til að fara með stjórn landsins, frekar en þá sem eru við stjórn í dag.

Steingrímur rökstuddi ákvörðun sína um að rökstyðja ekki ICESAVE lögin með því að nota rökvilluna 'mótsögn'. Hann vísaði til nauðsynlegrar leyndar, en lýsti síðan yfir að ekki væri til staðar nein leynd, að upplýsingarnar væru hins vegar of viðkvæmar til að treysta almenningi og alþingi fyrir þeim. Fyrir manneskju sem kannast kannski ekki við rökvillur og mælskulist, ruglast hún kannski einfaldlega í rýminu við að reyna að botna í þessari rökleysu, og ræðumaðurinn kemst upp með þetta, enda er almennt ekki gerð sú krafa til stjórnmálamanna að þeir segi rétt og satt frá, heldur er ætlast til af þeim að þeir sannfæri fólk um eigin sannfæringu, sama hver hún kann að vera.

Svona horfir þetta mál við mér.


mbl.is Þór Saari í hræðsluleiðangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband