Hvort er spilling meðvituð eða ómeðvituð?
28.12.2009 | 15:47
"Þessa síðustu daga hefur land okkar úrkynjast; mútur og spilling orðin daglegt brauð; börn hlíða ekki lengur foreldrum sínum; og heimsendir nálgast greinilega hratt."
-Assýrísk leirtafla, um 2800 fyrir Krist

Maður ákveður ekki einn daginn að verða spilltur. Spilltur maður er ekki eins og gulur blettur eftir hvolp á hvítum jökli. Jökullinn er hins vegar gulur og þessi óflekkaði er sá sem allir taka eftir.
Manneskjur sem hafa barist gegn eigin spillingu, taka á spillingu samfélagsins. Ef tekst að bjarga einni manneskju, sem er maður sjálfur, frá því að verða spillingu að bráð, þá er hálfur sigurinn unninn.
Kvikmyndin "Citizen Kane" fjallar um mann sem hefur feril sinn í fjölmiðlum með sannleikann að leiðarljósi. Smám saman hliðrar hann til sannleikanum þegar það hentar, og áður en varir hefur sjálft líf hans snúist í höndum hans og hann er orðinn að því sem hann vildi berjast gegn, manneskju sem er gegnsýrð af spillingu og þráir ekkert annað en að snúa aftur til sakleysis æskunnar.
En vandinn mikli er sá að spilling er ekki sleði sem hægt er að bakka þegar hann er lagður af stað niður snævi þakta og hála brekku, heldur eftir að hann hefur lagt af stað er mannlegum mætti nánast ómögulegt að stöðva hann, þó að hann sé ekki nema fyrirbæri í hans eigin brjósti, en slík barátta er erfið og sjálfsagt líkust þeim átökum sem vímuefnafíklar og áfengissjúklingar þurfa að standa í. Þeir þurfa að átta sig á því að eigin vilji er ekki nóg til að komast upp úr spillingarforinni, heldur þarf einbeittan vilja, vinnu og átök til að hreinsa sig. Og þó að takist að hreinsast einu sinni, er lítið mál að spillast á nýjan leik, hafi maður ekki þennan möguleika í huga og telji sjálfan sig kannski yfir mannlega veikleika hafinn.
Vandinn er sá að þegar maður hefur tekið þátt í spillingu, þá er maður spilltur. Því fylgir enginn stimpill, og einungis eigin samviska getur komið auga á þessa spillingu. Vandinn er sá að spilling getur verið svo þægileg að hún þaggar niður í samviskunni, jafnvel ævilangt, þar til á dánarbeðinu eins og í "Citizen Kane" þar sem barnsæskunnar er minnst í nafni sleðans Rosebud.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sönnun Dan Brown á tilvist Guðs í "The Lost Symbol"
28.12.2009 | 09:45
Ég er enginn sérstakur aðdáandi Dan Brown eða ævintýra hins aðgerðarlitla fræðimanns Robert Langdon, sem leysir málin með því að hugsa frekar en að berja fólk og skjóta. Eins og að hugsun getir verið áhugaverðari en framkvæmd?
Ég las á sínum tíma myndskreytta útgáfu af "The Da Vinci Code" og fannst plottið og persónugerðin heldur flöt, en hafði gaman af orðaleikjum, þrautum og pælingum um falda kóða í listaverkum Leonardo Da Vinci. Kvikmyndin var síðan allt í lagi.
Ég las ekki framhaldið "Angels and Demons" en sá kvikmyndina og fannst hún ansi þunnur þrettándi, hreint ömurleg satt að segja, fyrir utan eitt atriði.
Samt keypti ég mér "The Lost Symbol" og las hana.
Hún er mun betri en "The Da Vinci Code" að því leyti að persónusköpunin er afar góð, þó að persónuleikarnir séu sams konar týpur og í fyrri sögunum. Persónurnar eru dýpri og hafa aðeins meiri vigt en áður. Plottið er svo nánast nákvæmlega það sama og í hinum sögunum, illmenni hrindir af stað atburðum sem enginn getur leyst annar en Robert Langdon, með alfræðilegri þekkingu hans á táknum, list, og nú heimspeki og trúarritum.
Þar sem að ég hef menntað mig í heimspeki, fannst mér gaman að því hvernig Dan Brown fléttaði forsendum heimspekinnar og trúarbrögðum saman, og notfærði sér þann algenga misskilning að innihald heimspekinnar og trúarbragða skipti meira máli en sá sem ástundar heimspeki eða er leitandi í trú sinni.
Sagan gerist á einum sólarhringi í Washington D.C., þar sem Langdon hefur fengið boð frá kærum vini sínum, Peter Solomon, um að halda fyrirlestur í Smithsonian Museum, vegna forfalla fyrirlesara. Langdon flýgur umsvifalaust frá Boston til Washington, og renna á hann fleiri en þrjár grímur þegar hann uppgötvar að fyrirlestrasalurinn er tómur, og að hönd vinar hans finnst tattóveruð í gömlu herbergi.
Langdon áttar sig á að hann hefur verið plataður til Washington og að vinur hans er í vandræðum, hann vill því allt gera til að bjarga vini sínum. En CIA hefur komist á snoðir um hvað er í gangi og illvígur og afar klókur innri stjórnandi CIA, Sato að nafni, kemur á staðinn og ætlar að nota Langdon til að leysa gátuna.
Inn í söguna fléttist vísindakonan og systir Peter, Catherine Solomon, en hún hefur verið að rannsaka hugarorku og hvort hugurinn sé mælanlegt fyrirbæri, og hefur þegar aflað sannanna um að hugurinn hafi massa, og reiknað er með að rannsóknir hennar muni gjörbreyta heimspeki og vísindum eins og þau þekkjast í dag.
Illmennið Mal'akh notar alla leikendur eins og strengjabrúður til að ná fram sínum eigin markmiðum. Mal'akh er best byggða persóna þessarar sögu og er ástæða þess að hún er vel lestursins virði, en hann er svona hálfgerður útrásarvíkingur í trúarlegum og heimspekilegum skilningi.
Það að aðalatriði trúarbragða sé ekki innihaldið né Guð sem einhver ein alráð og algóð vera, heldur sameinaður hugur mannkyns, er hugmynd sem fellur nokkuð vel að mínum eigin pælingum um trúarbrögð.
Í raun má segja að Dan Brown hafi lagt fram eigin sönnun á tilvist Guðs í þessum reifara, sönnun sem gengur fullkomlega upp, með því að hagræða forsendum á merkingum Guðshugtaksins lítillega, meðal annars með því að tala um Guð í fleirtölu frekar en eintölu.
Ég hafði gaman af því að lesa þessa bók, og út á það gengur þetta, og er reyndar ekki frá því að hugmyndirnar sem hún hafi skilið eftir hjá mér séu vel þess virði að hafa kynnst þeim upp á nýtt og út frá sjónarhorni sögupersóna sem eru að berjast fyrir eigin lífi og sál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)