Avatar (2009) *****

"Avatar" ætti að fá 15 tilnefningar til Óskarsverðlauna og vinna þær allar. Hugsaðu "Lord of the Rings", "Star Wars", "Lord of the Rings," og svo aftur um "Star Wars". Bættu síðan við góðum skammti af "Terminator" og "Aliens" hasar, og síðan smá rómantík og stórfengleika í anda "Titanic". Þá kemstu kannski nálægt því að ímynda þér hvernig mynd "Avatar" er. Efast samt um það. Kíktu á sýnishornið neðst á þessari síðu til að sjá hversu flottar brellurnar eru í tvívídd, en þær ná ekki að grípa þá fegurð og dýpt sem þrívíddin gefur myndinni. Þú verður að sjá þessa í bíó.

Ég hef aldrei áður gefið kvikmynd fimm stjörnur hérna á blogginu, þó að vissulega séu til kvikmyndir sem jafnast á við "Avatar" í gæðum og hugmyndaauðgi.

Þetta er fyrsta kvikmynd James Cameron síðan "Titanic" sló algjörlega í gegn árið 1997. Reyndar hefur hann leikstýrt einhverjum sjónvarpsþáttum og heimildarmyndum sem fjallað hafa um neðansjávarrannsóknir hans, en hann hefur unnið þrekvirki í rannsóknum á dýpi hafsins og þeim furðuverum sem hrærast þar.

Ljóst er að þessi einstaka reynsla nýtist vel við gerð "Avatar" sem umfram allt fjallar um þá virðingu sem náttúran verðskuldar sem dularfull lífvera í sjálfri sér, og þann hroka mennskra afæta sem ógnar þessu jafnvægi til þess eins að sækja verðmæta steintegund.

Sam Worthington stimplar sig almennilega inn sem stórstjarna, en hann stal senunni eftirminnilega í sumar frá Christian Bale í "Terminator: Salvation" og er greinilega kominn á hörkuskrið. Tölvubrellurnar eru það flottasta sem sést hefur og gegna í hverju einasta atriði mikilvægi hlutverki í hinu stóra samhengi. Þar að auki er myndin í þrívídd sem virkar ekki þreytandi, heldur magnar upp reynsluna, þannig að maður finnur fyrir verulegum hæðum og getur auðveldlega misst jafnvægið þar sem maður telur sig öruggan í sæti sínu.

Gaman er að sjá Sigourney Weaver aftur í hlutverki sambærilegu við Ripley úr Alien seríunni, og einnig gaman að því hvernig þessi heimur passar fullkomlega í heim þeirra ágætu mynda, þar sem aðal illskan sprettur úr "Fyrirtækinu" sem ræður til starfa málaliða stjórnaða af hinum miskunnarlausa, vöðvastælta og helþrjóska hershöfðingja Miles Quaritch (Stephen Lang) og hvítflibbanum Parker Selfridge (Giovanni Ribisi), en þessir tveir berjast pólitísku stríði gegn vísindamanninn Grace Augustine (Sigourney Weaver) sem hefur meiri áhuga á að læra um heim plánetunnar og íbúa hennar, en að ryðja þeim miskunnarlaust úr vegi.

Jake Sully (Sam Worthington) kemur til sögunnar þegar tvíburabróðir hans er myrtur. Jake er lamaður fyrir neðan mitti og fyrrum hermaður, og lendir því í þeirri stöðu að taka hlutverk bróður síns, sem er að stjórna svipmynd (avatar)  sem ræktuð hefur verið með samspili hans eigin gena og gena úr Na'vi, þeim verum sem eru ráðandi á plánetunni Pandora og lifa í sátt við náttúruna. En rétt eins og sumir íslenskir stjórnmálamenn og auðkýfingar vita, að sama er hvaðan gott kemur, á að ryðja þessum Na'vi kynþætti úr vegi til að ná valdi á náttúruauðlindum plánetunnar.

Jake Sully fer inn í þennan heim sem hálf mannvera og hálfur Na'vi, en hann stjórnar huga verunnar frá nokkurs konar líkkistu þar sem hann tengist ræktaða risanum með einhvers konar þráðlausu neti. Jake er rétt lentur á plánetunni þegar risavaxin dýr reyna að drepa hann, og er bjargað af Na'vi prinsessunni Neytiri (Zoe Saldana), og fær þannig aðgang að þekkingu þessa kynþáttar, sem hann að sjálfsögðu notar til að gefa hinum mennska her mikilvægar upplýsingar.

Þegar kemur að vali hans til að velja á milli eigin kynþáttar og Na'vi, upplifir hann sig sem geimveru fasta á milli tveggja heima. Hann þarf að endurmeta alla þá þekkingu sem hann hefur nokkurn tíma aflað sér sem mannvera og bera hana saman við þetta nýja líf, og velja á milli þeirra. Ekki allar manneskjur eru góðar eða illa, né eru allir Na'vi góðar eða illar verur, heldur eru sambönd milli allra þessara ólíku persóna vel upp byggðar og manni stendur alls ekki á sama um hvað verður um þær.

Við kynnumst hinum kalda og tæknisýrða heimi mannvera og berum saman við hinn undraverða og náttúrusýrða heim Na'vi, og sjáum að þetta er sami hluturinn, fyrir utan að mennirnir þurfa að eyðileggja til að byggja upp eigin auð, en Na'vi viðheldur til að byggja upp sameiginlegan auð allrar plánetunnar.

Mannkynið er í hlutverki útrásarvíkinga, en Na'vi eru mótmælendur sem hafa ekki bara pottar og pönnur í höndunum, heldur vinna með furðuverum eins og drekum, risavöxnum nashyrningum með hamarstrýni, og eru í beinu netsambandi við guð plánetunnar, sem inniheldur upplýsingar frá örófi alda, eins og lífrænt Internet.

Hasarinn, hinn nýi heimur Pandoru, persónusköpunin, handritið, leikstjórnin, leikurinn, tónlistin, förðunin, litirnir, takturinn, skrímslin, drekarnir og þrívíddin, tæknibrellurnar; allt gengur fullkomlega upp. James Cameron hefur jafnað þau afrek sem ég hef verið hrifnastur af frá hans hendi: "The Terminator" og "Aliens". 

Ég valdi að sjá myndina ótextaða í þrívídd. Sat á fremsta bekk og fannst það gott í troðfullu kvikmyndahúsinu. Aldrei þessu vant var frekar þægilegt að sitja á fremsta bekk, enda hægt að halla sætinu aftur. Myndin er tveir tímar og 42 mínútur að lengd. Mér fannst hún nákvæmlega jafn löng og hún átti að vera. Þetta er ein af þessum myndum sem maður þarf að sjá aftur og aftur.

Ég meina, kvikmynd þar sem aðalhetjan flakkar hálfsofandi og þunglyndur milli staða í hjólastól og verður síðan að blárri og málaðri frelsishetju í anda William Wallace, sitjandi á fljúgandi dreka með gríðarstóra vélbyssu, stekkur af drekanum og upp á hann aftur til að koma fyrir handsprengjum á vel völdum stað, og að maður sættir sig við þennan söguheim og getur tekið hann alvarlega, er afrek í leikstjórn sem seint verður endurtekið. 

Viðbót: Nóttina eftir áhorfið dreymdi mig marga litríka og skemmtilega drauma, sem ég tel að séu "Avatar" að þakka. Annars var ég að velta fyrir mér eyjunum sem fljóta í skýjunum, og varð þá hugsað til Gulliver's Travels og eyjunnar Laputa sem hann heimsótti í einu af ferðalögum sínum. Þessi hugmynd birtist aftur í teiknimynd eftir Hayao Miyazaki "Laputa: Castle in the Sky" þar sem tvö ungmenni þurfa að fljúga gegnum þykkt skýjaþykkni til að nálgast svífandi eyju. Einnig minntu skrímslin og skepnurnar, auk umfjöllunarefnisins á myndheima Miyazaki, og er ég nokkuð viss um að James Cameron hljóti að vera mikill aðdáandi þessa meistara teiknimyndanna, án þess að ég viti það frá fyrstu hendi. 


mbl.is Um 30 milljarðar í kassann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband